Fjármál heimilisins

Varasamt að velja upphæðina í íslenskum krónum

Fólk sem er á ferðalögum erlendis er æ oftar spurt hvort það vilji greiða með greiðslukorti í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Engar reglur eru til um hámarksþóknun og –greiðslur fyrir þessa þjónustu og upp hafa komið tilvik þar sem álag og þóknanir eru algjörlega úr takti við það sem eðlilegt getur talist.

2. desember 2015  |   Gyða Gunnarsdóttir

Fólk sem er á ferðalögum erlendis er æ oftar spurt hvort það vilji greiða með greiðslukorti í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Þjónustan er þekkt undir nafninu DCC sem stendur fyrir Dynamic Currency Conversion.

Mörgum korthöfum þykir þetta þægilegt því með þessu þurfa þeir ekki reikna út hver upphæðin er í íslenskum krónum því upphæðin blasir við á posanum. Greiðsla sem samþykkt er með þessum hætti er heldur ekki háð sveiflum á gengi frá þeim tíma sem færslan er staðfest og þangað til upplýsingar um færsluna berast til kortaútgefanda, eins og venja er hérlendis. Upphæðin helst óbreytt þar sem fjárhæðinni hefur þegar verið skipt yfir í íslenskar krónur, þ.e. þegar Íslendingar eiga í hlut.

Í þessum viðskiptum bætir þjónustuaðilinn yfirleitt hóflegri álagsgreiðslu ofan á kaupverðið og í sumum tilfellum bætist einnig við sérstök þóknun.

Engar reglur gilda um hámark þóknunar

Hraðbanki áður en DCC er samþykkt.
Gengistilboð 216 ISK fyrir breskt pund (GPB).
Visa-gengið á GBP á sama tíma var um 200 ISK.

Engar reglur eru til um hámarksþóknun og –greiðslur fyrir þessa þjónustu og upp hafa komið tilvik þar sem álag og þóknanir eru algjörlega úr takti við það sem eðlilegt getur talist. Erfitt og jafnvel ómögulegt getur reynst fyrir korthafa bregðast við slíku eftirá, enda hefur hann samþykkt skilmálana með því að slá inn pinn-númerið sitt.

Eitt slíkt tilvik varðaði Íslending sem tók peninga út úr hraðbanka í Evrópu. Honum var boðið að upphæðin yrði færð í íslenskum krónum en ekki í evrum, sem hann þáði. Honum yfirsást hins vegar að gengið á evru var um tvöfalt hærra en opinber gengisskráning segir til um. Eftir að hann hafði slegið inn pinnið var of seint að hætta við.

Það er því brýnt fyrir korthafa að fara vel yfir upplýsingar og upphæð áður en kortaviðskipti eru samþykkt, hvort sem er með undirskrift eða innslætti á pinn-númeri. Telji fólk sig ekki þurfa á þjónustu sem þessari að halda mæli ég með því að fólk sleppi henni.

Upplýsingaskylda söluaðila

Hraðbankafærsla með óeðlilegu gengistilboði
og þóknun. Gengið var 290 ISK fyrir evru.
Visa-gengi á evru þennan dag var um 148 ISK.

Ef söluaðilar bjóða upp á DCC-þjónustu, eiga þeir alltaf að spyrja korthafa fyrirfram hvort þeir kæri sig um að þiggja þjónustuna og sýna eftirfarandi upplýsingar:

  1. Upprunalega upphæð með tilheyrandi tákni gjaldmiðils t.d. €.
  2. Upphæð í nýrri mynt með viðkomandi tákni t.d. ISK.
  3. Gengið sem notað verður við skiptin og hvaðan það er fengið t.d. frá Visa.
  4. Álag og aðrar þóknanir ef við á.

Kostir DCC

  • Upphæð í eigin mynt.
  • Þægindi og betri skilningur á fjárhæð.
  • Gengi gjaldmiðla er endanlegt.

Ókostir DCC

  • Álag og þóknanir.
  • Nauðsynlegt er að fara yfir mikið af upplýsingum áður en greiðsla er samþykkt.

Höfundur er sérfræðingur í kortaviðskiptum hjá Landsbankanum.

Fyrirvari

Þær upplýsingar sem er að finna á þessu vefsvæði eru unnar af starfsmönnum Landsbankans og eru þær eingöngu veittar í upplýsinga- og fræðsluskyni. Efninu er ekki ætlað að vera ráðgefandi um fjármál einstaklinga en slík ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og veitt hverjum og einum af þjónustufulltrúum, fjármálaráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum Landsbankans.

Þær upplýsingar sem fram koma á þessu fjármálabloggi endurspegla á engan hátt skoðanir eða mat Landsbankans heldur einungis höfunda efnisins. Landsbankinn á allan höfundarétt að því efni sem er að finna á vefsvæðinu, nema annað sé tekið fram. Hvers konar misnotkun á efninu er með öllu óheimil.

796c1e55-7f1d-11e5-9a90-0050568800ef3b9ba7e3-9808-11e5-9a90-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar