Fjártæknigeirinn erlendis hefur blómstrað hraðar en hér á landi undanfarin ár, en almennt gildir að þjónustugjöld banka erlendis eru fleiri og hærri en á Íslandi. Þannig hafi erlend fjártæknifyrirtæki verið að pressa niður þóknanir banka – en ýmis bankaþjónusta hjá íslenskum bönkum í dag er ódýr í alþjóðlegum samanburði. Þá er fjártæknigeirinn á heimsvísu talinn hæfari til að veita hraðari og betri bankaþjónustu, sérstaklega í greiðslumiðlun. Það skiptir höfuðmáli að á Íslandi hafa greiðslur verið í rauntíma um langt árabil en erlendis er víða verið vinna að því að koma greiðslum í sama horf. Það eru því ekki eins stór og mörg viðfangsefni að leysa á Íslandi og víðast hvar erlendis. Þetta gerir íslenska markaðinn að sumu leyti óspennandi fyrir fjártæknifyrirtæki en þannig verður það þó ekki endilega þegar til langs tíma er litið.
Er almenningur tilbúinn?
Mikilvægt er að einstaklingum sé kunnugt um hvað felst í nýju reglunum. Þó að gögn sem nýtt verða samkvæmt reglunum eigi að vera örugg er líklegt að sumir viðskiptavinir bankanna muni ekki vilja deila gögnum sínum af a.m.k. tveimur ástæðum. Annarsvegar af ótta við öryggisleysi og hins vegar vegna þess að deilingin stríði gegn viðhorfi neytandans til m.a. persónuverndar.
Fyrri ástæðan varðar almennt vantraust og skal engan undra. Netglæpir gerast sífellt þróaðri og útbreiddari. Þessi hópur telur ófullnægjandi að leyfisveiting ein og sér nægi til að veita þriðja aðila aðgang að bankagögnum. Síðari ástæðan snertir djúpstæðari þætti, á borð við menningu, upplifun, gildismat og siðferði. Í huga viðkomandi gildir einu þó að PSD2 geri strangari öryggiskröfur en áður þekktust, að reglur um verndun upplýsinga eru hertari og að öll notkun upplýsinganna er skráð. Viðkomandi kann að finnast þetta rangt.
Enn sem komið er hefur verið takmörkuð umfjöllun um nýju reglurnar hér á landi. Landsbankinn mun kynna breytingarnar þegar að því kemur en almennt gildir í hverju landi um sig að það er á könnu stjórnvalda og fjármálageirans í heild að kynna reglurnar og áhrif þeirra.