Íbúðamál geta virst algjör frumskógur við fyrstu sýn. Er betra fyrir ungt fólk að leigja, búa með vinum, í foreldrahúsum eða kaupa íbúð? Ef tekin er ákvörðun um íbúðarkaup, hvernig safnar maður þá fyrir útborgun?

9. janúar 2019 

Landsbankinn í samstarfi við Útvarp 101 fékk Pétur Kiernan, 22 ára háskólanema, til að kynna sér íbúðamál ungs fólks, kosti þess að leigja og kaupa, húsnæðissparnað og viðbótarlífeyrissparnað, sem er ein hagstæðasta leiðin til að spara fyrir útborgun í fyrstu fasteign.

Á ég að kaupa íbúð?

Það kemur að því hjá flestum að flytja að heiman. En maður þarf ekki endilega að kaupa íbúð. Greiðslur af leiguíbúð og greiðslubyrðin af íbúðalánum getur verið svipuð ef allt er talið með, en svo eru líka til ódýrari kostir. Það er til dæmis hægt að leigja með öðrum eða sækja um stúdentaíbúð ef maður er í námi.

Mörgum hugnast samt best að kaupa íbúð. Kostirnir eru meðal annars þeir að ef þú kaupir íbúð þá ertu hægt og bítandi að eignast íbúðina og engin hætta er á að þú missir íbúðina með litlum fyrirvara eins og á leigumarkaði.

Það verður hver og einn að finna hvað hentar þeim, en það er alltaf góð hugmynd að setjast niður, skipuleggja hvernig maður getur hugsað sér að búa og hvernig maður hyggst framkvæma það.

Pétur Kiernan
háskólanemi

Hvernig íbúð á ég að kaupa?

Þegar maður velur íbúð þá skiptir máli að vita hvað maður þarf, sníða sér stakk eftir vexti og kaupa ekki of dýrt. Samgöngur, fjöldi fjölskyldumeðlima, fjarlægð frá vinnu og skóla eru allt hlutir sem þarf að taka í reikninginn og svo þarf manni að lítast vel á hverfið ef ætlunin er að búa þar í einhver ár.

Það er dýrast að búa miðsvæðis í Reykjavík af því að þar vilja flestir vera, en á móti kemur að þar gerast hlutirnir og mögulega er auðveldara að spara bílinn og nota almenningssamgöngur.

Ef maður þarf meira pláss þá eru stærri íbúðir almennt á lægra verði lengra frá miðbænum. Sumum finnst jafnvel fínt að borga minna og eiga gæðastundir í bílnum á morgnanna.

 

Hvernig spara ég fyrir íbúð?

Það er ekki auðvelt að safna fyrir útborgun. Það er auðvitað best að byrja snemma og spara sem mest. Utanlandsferðir, djamm og föt kosta peninga, en maður þarf líka að leyfa sér að vera til. Það er best að setja sér markmið og byrja strax.

Sparnaður þarf ekki að takmarka öll lífsgæði. Litlar upphæðir, lagðar fyrir reglulega, eru fljótar að safnast upp og það er góð hugmynd að finna upphæð sem er viðráðanleg og þú treystir þér til að leggja fyrir mánaðarlega. Viðbótarlífeyrissparnaður er líka góð leið sem allir ættu að skoða. Með viðbótarlífeyrissparnaði sparar þú af laununum þínum, vinnuveitandinn leggur til pening á móti og svo þarftu ekki að borga skatt af því sem er nýtt til íbúðarkaupa.

Hvernig virkar viðbótarlífeyrissparnaður?

Viðbótarlífeyrissparnaður er í rauninni launahækkun og ein besta leiðin til að spara fyrir íbúð því þá fær maður hjálp við að spara. Allir sem fá greidd laun geta valið að greiða 2% til 4% af laununum sínum í viðbótarlífeyrissparnað. Vinnuveitandinn greiðir þá 2% á móti til viðbótar við núverandi laun sem leggst beint í sparnaðinn. Ef sparnaðurinn er nýttur til íbúðarkaupa þarf ekki að greiða neinn skatt. Hægt er að nota viðbótarlífeyrissparnaðinn til að lækka íbúðalánið eða safna fyrir útborgun í samtals 10 ár. Viðbótarlífeyrissparnaður er því eitt allra besta tækið sem ungt fólk hefur til að eignast íbúð.

 

Í þessu hlaðvarpi ræðir Pétur við Ara Skúlason, hagfræðing hjá Landsbankanum sem svara m.a. spurningunni „Á ég að kaupa íbúð?