„Normið hjá okkur er að það er ekkert norm,“ segir Skaði Þórðardóttir, meðlimur í fjöllistahópnum Drag-Súgi. Hópurinn hefur síðustu tvö ár staðið fyrir mánaðarlegum drag-sýningum í miðbæ Reykjavíkur sem hafa notið mikilla vinsælda.

8. ágúst 2017 | Uppfært 10., 11. og 14. ágúst 2017

Drag-Súgur hlaut stærsta styrkinn úr Gleðigöngupotti Landsbankans og Hinsegin daga í ár. Við ætlum að fylgjast með þeim smíða glæsilegan vagn fyrir Gleðigönguna hér á Umræðunni og fylgja þeim eftir í sjálfri göngunni 12. ágúst.

„Hugmyndin að baki vagninum okkar er fjölbreytileiki,“ segir Krissý Krummadóttir. „Við verðum skrautleg og vagninn okkar verður vonandi jafn skrautlegur og við.“

Samstarfssamningur Hinsegin daga og og Landsbankans var endurnýjaður 21. júní síðastliðinn. Landsbankinn hefur um árabil verið bakhjarl Hinsegin daga en í nýja samningnum er í fyrsta sinn kveðið á um að bankinn og Hinsegin dagar standi saman að Gleðigöngupotti.

Sjö hópar hlutu styrk úr pottinum að þessu sinni en markmiðið með honum er að að styðja einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngunni.


Uppfært 10. ágúst 2017

„Undir regnboganum eru allir velkomnir“

Dragdrottningarnar og dragkóngarnir í fjöllistahópnum Drag-Súgi eru nú í óða önn að undirbúa sig fyrir Gleðigönguna. Þema hátíðarinnar í ár er hinsegin list og listamenn en Drag-Súgur var upprunalega stofnaður til þess að upphefja hinsegin menningu í Reykjavík.

Næsta skref hjá hópnum er að smíða sjálfan vagninn en hópurinn hlaut styrk úr Gleðigöngupotti Landsbankans og Hinsegin daga til að gera hann sem glæsilegastan. Aðalefniviðurinn er timbur og fullt af blöðrum.

„Í Gleðigöngunni ætlum við að fagna fjölbreytileikanum, undir regnboganum eru allir velkomnir,“ segir Henný Moritz, einnig þekkt sem Boytoy Tony.

„Vagninn okkar er eins grand og við getum gert hann. Grunnhugmyndin er að hafa risastóran regnboga og að undir honum séum við með fána eða klædd upp í mismunandi undirfána hinseginleikans,“ segir Sigurður Heimir Guðjónsson, einnig þekktur sem Gógó Starr. „Við smíðum grunninn úr timbri en restin verður svo úr blöðrum. Þetta verður svo fabjúlus.“

Landsbankinn er stoltur bakhjarl Hinsegin daga en Gleðigangan fer fram í átjánda sinn 12. ágúst. Við ætlum að fylgja Drag-súgi eftir í beinni á Facebook.


Uppfært 11. ágúst 2017

„Sýnileikinn er okkar sterkasta vopn í réttindabaráttunni“

Það er kominn föstudagur og vagninn hjá Drag-Súgi er farinn að taka á sig mynd þrátt fyrir smá erfiðleika til að byrja með. „Við erum ekki með neitt voðalega góð verkfæri. Ég braut hobbíhamarinn úr IKEA. Ég var bara hneyksluð. Á að smíða með þessu?“ segir Skaði Þórðardóttir hlæjandi en hún er sú eina í hópnum sem hefur mikla reynslu af smíðavinnu.

„Við byrjuðum á þriðjudag í grenjandi rigningu að setja saman strúktúrinn. Það var alveg svakalega gaman og blautt og við fórum öll ísköld heim. Núna erum við að setja upp grindina sem regnboginn okkar fer á,“ segir Sigurður (Gógó Starr). Hann og Skaði hafa umsjón með byggingu vagnsins fyrir hönd hópsins.

„Við fengum vagninn lánaðan hjá kunningja sem ætlar að keyra fyrir okkur. Vagninn er með tilbúna grind og það minnkar smíðavinnuna mikið fyrir okkur. Þetta verður svakalegt stuð,“ segir Sigurður.

Hópurinn er nú í kappi við tímann enda Gleðigangan á næsta leiti. „Við förum í uppblástursherferð klukkan átta í fyrramálið. Þetta mun enda á mjög góðum stað. Við erum síðan með slatta af alls konar fjöllistafólki sem ætlar að labba með okkur og hjálpa okkur að undirstrika allan fjölbreytileikann sem er í hinsegin og ekki hinsegin skemmtanalífi.“

„Við ætlum að vera áberandi og sýnileg. Sýnileikinn er okkar sterkasta vopn í réttindabaráttunni,“ segir Skaði.


Uppfært 14. ágúst 2017

„Þetta er búið að vera alveg frábært frá upphafi til enda, algjört ævintýri“

Gleðin var í aðalhlutverki hjá fjöllistahópnum Dragsúgi í Gleðigöngunni um liðna helgi. Gleðigöngudagurinn hófst snemma fyrir meðlimi hópsins enda tímafrekt að klæða sig í búninga og mála sig auk þess sem hópurinn átti eftir að blása upp ógrynni af blöðrum til að klára vagninn fyrir gönguna klukkan 14.

„Ég byrjaði klukkan sex að gera mig til. Svo vorum við öll mætt klukkan níu til að byrja að byggja vagninn úr blöðrunum. Þetta tók aðeins lengri tíma en við bjuggumst við. En ég er sjúklega sáttur við það hvernig útkoman var,“ segir Sigurður Heimir (Gógó Starr).

„Við ætlum að vera áberandi og sýnileg. Sýnileikinn er okkar sterkasta vopn í réttindabaráttunni.“

Mikill fjöldi fólks kom saman í miðbæ Reykjavíkur í blíðskaparveðri og fylgdist með göngunni. Drag-Súgs vagninn var síðasti vagninn og blöðruregnboginn kom glæsilega út. „Það er eitthvað við það að sjá Lækjargötuna fulla af fólki, allir að klappa með og dansa með og svo voru regnbogar alls staðar.“

„Það gerir mig stolta af því að vera Íslendingur að geta verið ég sjálf í svona göngu, eða eins og skáldið sagði: Ég er eins og ég er. Það er ómetanlegt að við getum fagnað hinsegin flórunni saman með þessum hætti,“ segir Krissý Krummadóttir.

„Þetta er búið að vera alveg frábært frá upphafi til enda, algjört ævintýri,“ segir Sigurður í sjöunda himni. Eftir gönguna fóru meðlimir Drag-Súgs að fagna deginum með sínum nánustu. Svo tók við löng nótt af dansi og skemmtun í miðbænum.

„Það gerir mig stolta af því að vera Íslendingur að geta verið ég sjálf í svona göngu, eða eins og skáldið sagði: Ég er eins og ég er.“