Frá fjallstindum á hafsbotn

Það er enginn galdur á bak við þrekvirkin sem unnin eru í björgunar- og slysavarnastarfi á Íslandi, heldur einfaldlega þaulskipulögð samhæfing á landsvísu og framtak einstaklinganna.

15. mars 2017

Slys gera aldrei ráð fyrir aðstæðum eða mannaforráðum, þau verða þar sem síst skyldi, á versta tíma og eðli málsins samkvæmt, í verstu veðrum.

Björgunarsveitafólk þarf að geta tekið ákvarðanir hratt og upp á sitt einsdæmi. Þetta á ekki síst við á minni og afskekktari stöðum, þar sem ófærð og sambandsleysi getur varað lengi og sett verulegt strik í reikninginn. Oft er björgunarsveitin á staðnum eða einstaklingar úr henni einu viðbragðsaðilarnir. Þá skiptir öllu máli að þeir viti hvað á að gera og ekki síður, hvaða leiðir eru í boði til að sækja ráðgjöf og hjálp.

Björgunarsveitirnar á landinu eru tæplega hundrað talsins og slysavarnadeildirnar á fjórða tug. Hver þeirra starfar sjálfstætt, hefur umsjón með mannskap og tækjakosti, fjármagnar sig sjálf og skipuleggur samstarf við aðra, t.a.m. sveitarfélög. Í stóru sveitarfélögunum geta verið fjölmargir á útkallslista sem sinna ótal verkefnum en í þeim minnstu má kalla starfið samfélagsskyldu; allir sem vettlingi geta valdið þurfa að vera reiðubúnir þegar þörf krefur.

Allir þurfa að tala sama tungumál

Landinu er svo skipt upp í svæði og yfir hverju svæði er svæðisstjórn. Svæðisstjórnir starfa í raun í umboði lögreglu og eru virkjaðar í hverri björgunaraðgerð en í stærri aðgerðum þurfa svæðisstjórnir að starfa saman.

Allt þetta þýðir að það skiptir sköpum að aðferðir séu samhæfðar – að allir tali sama tungumál og vinni eftir sömu aðferðum.

Hluti af þessu er að haldið er vel utan um allt fólk á útkallsskrá, hvert einasta tæki á landinu er skráð og ef þörf krefur má fylgjast með öllu starfinu í rauntíma frá einum stað. Það sem skiptir þó kannski meira máli er að þjálfunin sé öll sú sama.

Þjálfun björgunarsveitafólks fer oftast fram í heimabyggðum, leiðbeinendur ferðast um landið og halda námskeið með reglubundnum hætti.

Þannig vinnur björgunarsveitafólk, bæði almennt, stjórnendur og þeir sem hafa fengið sérhæfða þjálfun eftir sama verklagi. Þetta þýðir að fólk sem aldrei hefur hist áður getur þegar þörf krefur unnið saman líkt og það hafi starfað hlið við hlið í mörg ár.

Einsdæmi að allt starf sé á einni hendi

Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur þannig utan um alla björgunarstarfsemi í landinu sem er líklega einsdæmi. Víðast hvar í heiminum sjá mismunandi aðilar um ólíkar tegundir björgunar en hér er öll björgun, á fjöllum, í byggð, í lofti, á sjó og hafsbotni, samhæfð og stýrt af sömu aðilum sem einfaldar boðskipti og minnkar líkurnar á árekstrum.

Sömu sögu er að segja um slysavarnahlutann. Sögu slysavarna á Íslandi má rekja aftur um næstum öld og slysavarnaverkefni eru almennt skipulögð á landsvísu. Þyrlubjörgunarstarf, tilkynningaskylda skipa, skipulögð umferðarfræðsla og slysavarnaskóli sjómanna eru allt verkefni sem hófust fyrir framtak Slysavarnafélags Íslands.

Enginn sjómaður má í dag lögskrá sig á íslenskt skip nema hafa lokið námi hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Það hefur átt mikinn þátt í þeirri gríðarlegu fækkun sjóslysa sem átt hefur sér stað síðustu áratugi. Sjómannaskólinn er þó aðeins eitt dæmi um stór verkefni í slysavörnum. SafeTravel verkefnið hefur t.a.m. skipt miklu máli við að koma í veg fyrir slys meðal ferðamanna en með upplýsingum á netinu og á ferðamannastöðum hefur tekist að ná til hundruða þúsunda ferðamanna á ári hverju og miðla mikilvægum upplýsingum um ferðalög á Íslandi.

Hálendisvaktin er annað dæmi en þar fara saman slysavarnir og björgunarstörf. Sjálfboðaliðarnir í Hálendisvaktinni eyða hluta af sumarfríum sínum á lykilstöðum á hálendinu yfir mesta annatímann, þau bregðast við óhöppum og slysum ef þau koma upp en eyða tíma sínum þess á milli í að hitta ferðamenn og fræða þá um svæðið og hætturnar sem fylgja ferðalögum þar.

„Þetta eru oft einu viðbragðsaðilarnir á staðnum, þá skiptir miklu máli að þeir viti hvað á að gera og hverja er hægt að hafa samband við.“

Slysavarnafélög og björgunarsveitir reiða sig að langmestu leyti á frjáls framlög almennings, t.d. með flugeldasölu, sölu Neyðarkallsins og framlögum frá Bakvörðum en þúsundir Íslendinga styrkja félagið með reglulegum framlögum. Starfsemin er gríðarlega kostnaðarsöm og hennar nyti varla við ef ekki væri fyrir stuðning frá almenningi. Fjáröflunin er enn eitt dæmi um það hvernig skipulagið frá því stærsta niður í hið smæsta fer saman, fjáröflun er skipulögð á landsvísu, björgunarsveitirnar sjá um fjáröflun í heimabyggð en það eru einstaklingarnir sem fara út og framkvæma hana.

Reyndar kemur þar líka til framlag vinnuveitenda sem er erfitt að meta til fjár og heyrist kannski sjaldan af. Björgunarsveitafólk þarf að vera tilbúið að hlaupa frá störfum sínum hvenær sem er og það heyrist vart af því að vinnuveitendur setji sig upp á móti fjarvistunum eða dragi af launum þegar farið er í útköll.

Galdurinn liggur í samhæfingunni og einstaklingunum

Það er því engin töfraformúla að baki árangrinum sem við heyrum svo mikið af heldur mikið og gott skipulag ásamt framlagi almennings sem styður við kraft og áræðni einstaklinganna.

Það eru auðvitað einstaklingarnir sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, lykillinn að björgunar- og slysavarnastarfinu. Þetta er fólk sem vinnur flest hefðbundin störf en leggur þau frá sér um leið og nauðsyn krefur, þetta fólk hleypur frá daglegum störfum til að fara í útköll og eyðir sumarfríum sínum í æfingar og námskeið eða tekur að sér verkefni á borð við hálendisvaktina, fjáröflun og verkefni fyrir sveitarfélögin.