Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga. Hún hefur verið farin allt frá árinu 2000 þegar 5.000 manns fylktu liði niður Laugaveg til að ganga fyrir mannréttindum hinsegin fólks og staðfesta tilvist sína með því að vera sýnileg. Gangan hefur verið farin árlega síðan og er einhver fjölsóttasti viðburður sumarsins í Reykjavík auk þess sem hún hefur getið af sér sambærilegar göngur víða um landið.

4. ágúst 2016

Árið 2005 var glampandi sól og ekki ský á himni þegar gangan var farin - eða þannig muna Eggert Kristjánsson og Kári Emil Helgason allavega eftir þessum degi sem átti eftir að þróast á allt annan veg en þeir héldu um morguninn og breyta lífi þeirra til frambúðar.

Strákarnir höfðu báðir lagt nótt við nýtan dag þetta sumar við að smíða og græja vagn ungliðahreyfingar Samtakanna '78. Birna Hrönn Björnsdóttir var í forsvari fyrir ungliðahreyfinguna á þessum tíma: „Þetta var bara svona félagsmiðstöð fyrir hinsegin krakka. Þau gátu komið einu sinni í viku og hitt sína líka. Þegar ég var í MH þá var einn hommi sem var svona inn og út úr skápnum og ein önnur lesbía, en í ungliðahreyfingunni gat maður komið og hitt annað fólk sem var eins og maður sjálfur. Það hafði mikla þýðingu fyrir mig og vonandi marga aðra.“

Fyrsta Gleðigangan.

Síðasta laugardaginn í júní árið 1993 héldu íslenskir hommar og lesbíur út á götur í sína fyrstu kröfugöngu. Árið 2000 fór svo fyrsta Gleðigangan fram. Henni lauk með skemmtidagskrá á Ingólfstorgi eins og var í fjöldamörg ár.

Amma spurði mig þegar þetta var sýnt: „Þekkir þú einhvern svona í þínum skóla?“ Þarna var ég búinn með eitt ár í MR og muldraði eitthvað „já ...“ en bætti svo við: „Ég var reyndar þarna þegar þetta var tekið upp. Og ég er hommi.“

Amma fékk að vita

Eggert er úr Dölunum en hafði búið á Bifröst síðustu ár. „Ég var nýfluttur í bæinn til að fara í MH og bjó hjá ömmu minni. Ég fór út á hverju kvöldi að vinna í vagninum en laug að ömmu að ég væri að fara að hitta vini mína því ég var ekki kominn út úr skápnum gagnvart henni. Hún kunni illa við að ég færi svona mikið út þannig að ég endaði nú bara á því að segja henni þetta. Hún tók því bara nokkuð vel fyrir einhvern sem er fæddur 1928,“ segir hann.

Kári hafði sótt fundi ungliðanna frá því í mars þetta ár. „Skömmu fyrir gönguna hafði verið tekið viðtal við ungliðahreyfinguna í einhverjum unglingaþætti á RÚV. Þau komu og spjölluðu við okkur en allir sem vildu ekki vera með fengu auðvitað að færa sig annað og ég var einn af þeim. Síðan birtist það í sjónvarpinu þegar ég var að gista hjá ömmu minni af einhverjum ástæðum. Amma spurði mig þegar þetta var sýnt: „Þekkir þú einhvern svona í þínum skóla?“ Þarna var ég búinn með eitt ár í MR og muldraði eitthvað „já ...“ en bætti svo við: „Ég var reyndar þarna þegar þetta var tekið upp. Og ég er hommi.“ Amma tók því bara ágætlega. Það var þögn í svona góðan klukkutíma meðan við héldum áfram að horfa á sjónvarpið en svo var það bara allt í lagi. Þannig að það var ágætis upphitun fyrir gönguna.“

Leið göngunnar.

Fyrstu árin lagði Gleðigangan upp frá Lögreglustöðinni við Hverfisgötu og þaðan niður Laugaveg. Af öryggisástæðum hefur gangan verið flutt og í dag er gengið frá Vatnsmýrarvegi og eftir Sóleyjargötu í átt að Arnarhóli.

Sögufrægar hinsegin persónur

Þema vagnsins var sögufrægar hinsegin persónur. „Það var mikilvægt fyrir okkur, þar sem við vorum öll að finna okkur, að vita að það væri hinsegin fólk þarna úti sem hefði náð langt,“ segir Birna. Meðal persóna á vagninum voru Kristína Svíadrottning (hún ríkti frá 1632-1654), Páll Óskar, skáldkonan Saffó, Cynthia Nixon úr Sex and the City, Elton John og George Michael.

Þótt Eggert og Kári væru báðir komnir út úr skápnum gagnvart sínum nánustu þá voru þeir það alls ekki gagnvart öllum. Þeir vildu engu að síður taka þátt í göngunni og því var farin sú leið að láta þá tákna alla nafnlausu samkynhneigðu einstaklinga sögunnar. Það var saumaður blár búningur sem huldi þá alveg frá toppi til táar. „Þetta var frekar „creepy,“ við vorum með svona bláar galdrakarlahettur sem minntu eiginlega á Ku klux klan,“ segir Kári hlæjandi.

Á þessum tíma lagði Gleðigangan upp frá lögreglustöðinni við Hlemm og fór niður Laugaveginn. „Þetta er þröng gata þannig að mannfjöldinn virðist gríðarlegur og gatan alveg pökkuð. Það var alltaf þetta gæsahúðarmóment þegar gangan beygði fyrir hornið inn á Laugaveg.“

Engu að tapa

Vagninn var ekki vélknúinn heldur var hann dreginn áfram og honum ýtt af fjórum einstaklingum, einum við hvert hjól. Eggert og Kári voru á götunni framan af. „Ég held að við höfum verið komin niður svona hálfan Laugaveginn og þá var stemningin og orkan bara þannig að ég hugsaði með mér að það væri kominn tími til og ég hefði engu að tapa. Svo ég bara reif af mér klæðin og stökk upp á vagninn og byrjaði að dansa. Svo man ég bara svona óljóst eftir því að öskra: „ég er hommi! ég er hommi! ég er hommi!“ í svona tuttugu mínútur,“ segir Kári og hlær.

Sögufrægar hinsegin persónur.

Fjöldi sögufrægra hinsegin persóna gengu með ungliðahreyfingu Samtakanna ’78 árið 2005. Hér má m.a. sjá Kristínu Svíadrottningu, H.C. Andersen, Boy George og Jodie Foster.

„Það var svo mikil ást og svo mikill kærleikur og gleði og hræðslan laut í lægra haldi fyrir öllum hinum tilfinningunum.“

„Við vitum ekki fyrr en Kári er bara búinn að svipta sig kuflinum því hann gat ekki meir. Það var svo mikil ást og svo mikill kærleikur og gleði og hræðslan laut í lægra haldi fyrir öllum hinum tilfinningunum. Þegar við sáum það þá greip um sig svaka spenna í hópnum. Þeir hafa fengið öryggi hvor frá öðrum því Eggert var kominn upp á pall skömmu seinna og þeir stóðu bara þar eins og í Titanic. Þetta var geggjað og það urðu svo mikil straumhvörf í hópnum því það voru allir að samgleðjast svo ótrúlega mikið,“ segir Birna.

Fargi af mér létt

„Þetta var svo sérstakt því við Kári tókum ákvörðunina á sama tíma,“ segir Eggert. „Ég hugsaði að ef ég yrði í kuflinum áfram þá væri það bara framhald á því sem ég var að gera í grunnskóla. Að koma út úr skápnum í grunnskóla var ekki möguleiki. Það voru bara átta krakkar í bekknum mínum. En ég gat ekki lifað svona áfram. Ég var búinn að kynnast ákveðnu frelsi og fullt af öðrum hinsegin krökkum og ég var búinn að segja foreldrum mínum þetta. Þegar þú ert búinn að því þá skipta viðbrögð annarra svo miklu minna máli.

Það var gífurlegu fargi af mér létt og eftir þetta þurfti ég ekkert að koma út. Þá bara vissu þetta allir. Mig minnir að slagorðið þetta árið hafi verið „gefið okkur byr undir báða vængi“ því þá voru samkynhneigðir nýbúnir að ná einhverjum áfanga. Þessi tilfinning, að fara upp á vagninn, þetta var svolítið eins og að fá vængi.“