Iceland Airwaves er 20 ára í ár - eldri en margir sem koma fram á hátíðinni. Enda er hún fyrst og fremst hátíð nýjabrumsins í íslenskri tónlist, tækifæri fyrir unga listamenn til að opna bílskúrshurðina, lofta út og hleypa ljósinu inn.

31. október 2018 

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að Iceland Airwaves fór fyrst fram í flugskýli nr. 4 á Reykjavíkurflugvelli í október 1999. Þessa einu kvöldstund fjölmennti bandaríski plötubransinn til að sjá íslensku sveitirnar Gusgus, Ensími, Toy Machine og Quarashi koma fram. Auk þeirra komu nokkrar erlendar sveitir fram og var nafn Thievery Corporation þar langþekktast.

Lagið „Lebanese Blonde“ með Thievery Corporation var mikill smellur undir þúsaldarmótin.


Meðal gesta voru blaðamenn, umboðsmenn, bókarar og útgefendur. Þeir kynntust íslenskri tónlist og skemmtu sér í leiðinni um leið og þeir fengu nasaþef af íslenskri menningu og náttúru. Síðan báru þeir sögur af landi og þjóð til heimahaganna. Íslensk tónlist hlaut þannig stærri áheyrendahóp og Ísland varð þekktara sem áfangastaður. Áhrifin sönnuðu sig fljótt, t.d. á stöppuðum tónleikum Sigur Rósar í Fríkirkjunni á annarri hátíðinni árið 2000. Fróðir segja að það gigg hafi átt stóran þátt í því að koma sveitinni á kortið á alþjóðavettvangi.

 

Sjöhundruð erlendar hljómsveitir

En Iceland Airwaves var einnig fljót að sanna sig sem hátíð þar sem mætti sjá ekki bara íslenskar hljómsveitir sem væru við það að springa út, heldur bönd héðan og þaðan í heiminum sem voru alveg að fara að „meika það.“ The Rapture (2002), TV on the Radio (2003) og Hot Chip (2004) spiluðu eftirminnilega tónleika sem voru meðal þeirra fyrstu utan heimalandanna og vel áður en umræddar sveitir voru á allra vörum.

Á þessum tveimur áratugum hafa alls um sjöhundruð erlendar hljómsveitir, plötusnúðar og tónlistarmenn troðið upp fyrir tónlistarþyrsta Íslendinga - og fjöldinn af tónleikum íslenskra sveita er vel á þriðja þúsund. Þótt ekki væri nema horft í þessar tölur væri augljóst hvílík vítamínsprauta Iceland Airwaves hefur verið fyrir íslenskt tónlistarlíf.

Ferðamenn í leðurjökkum

Hátíðin er enn vel sótt af bransafólki en áherslan á Iceland Airwaves sem mögulega gullinbrú út í heim og upp á stjörnuhiminninn hefur kannski minnkað. Þess í stað má hugsa um Iceland Airwaves sem árshátíð íslenskrar tónlistar þar sem allir mæta í sparifötunum. Flestar litlar og miðlungsstórar hljómsveitir landsins taka þátt í hátíðinni og gera eins vel og þær geta. Þær æfa margar hverjum vikum saman og setja jafnvel aukapúður í umgjörðina með gestaleikurum eða sjónrænni viðbót. Erlendir ferðamenn eru stór hluti áheyrenda og Iceland Airwaves gefur íslenskum hljómsveitum þannig eitthvað til að stefna að sem er stærra og meira en stakir tónleikar fyrir sömu þreyttu eyrun á Húrra eða Gauknum eða Græna hattinum.

Iceland Airwaves er því einstakt tækifæri til að rölta niður í bæ og sjá bestu hliðar íslenskrar tónlistar á örfáum kvöldstundum. Enda tekur miðborgin stakkaskiptum meðan á hátíðinni stendur. Það ómar tónlist hvar sem komið er og ferðamennirnir eru líklegri til að klæðast leðurjökkum en regnjökkum þótt það sé napurt. Airwaves stemningin er vissulega engu lík og varð popppönksveitinni Morðingjunum að yrkisefni í samnefndu lagi sem hefst á þessum skemmtilegu línum: „Drekka bjór með Worm Is Green / Reykja sígó með Singapore Sling / Fara í partí með Amiina / og kyssa Bloodgroup stelpuna.“

Hlaðvarp Umræðunnar

Í hlaðvarpi Umræðunnar að þessu sinni ræðir Atli Bollason m.a. sögu Iceland Airwaves, áhrif hennar á íslenska tónlistarmenningu, þróun hátíðarinnar og tækifærin fyrir ungt tónlistarfólk. Viðmælendur hans eru Árni Matthíasson, blaðamaður og tónlistargagnrýnandi, Anna Ásthildur Thorsteinsson, vefstýra Iceland Airwaves, og Katrín Helga Andrésdóttir, tónlistarkona sem hefur starfað með RVK DTR, Hljómsveitt og Special K.