Ungir ökuþórar vekja jafnan mikla athygli á Humarhátíð á Höfn í Hornafirði þegar árlegt kassabílarall Landsbankans fer fram. Krakkarnir á Höfn leggja mikinn metnað í að gera kassabílana sem frumlegasta. Humarhátíðin fer fram dagana 29. júní - 1. júlí og hefur kassabílarallið verið hluti af hátíðinni í 20 ár.

27. júní 2018

„Bíllinn okkar heitir Fossarinn vegna þess að frændi okkar hann Þorgils bjó hann til á verkstæðinu Foss. Pabbi og afi fundu þrjú gömul hjól og söguðu þau í sundur og settu saman,“ segja bræðurnir Stefán Birgir og Hinrik Guðni sem eru meðal keppenda í ár.

Vinirnir Hilmar Lárus og Guðmundur Leví ætla að keppa á grænum bíl sem þeir kalla Froskinn. „Ég og pabbi smíðuðum bílinn. Hann er smíðaður úr timbri og við fundum sætið á ruslahaugunum. Litli bróðir hans málaði hundinn alveg eins,“ segir Guðmundur Leví. Systkinin Petra Rós og Hilmar hafa tekið þátt undanfarin þrjú ár. „Fyrsti bíllinn okkar var jólabíllinn, annar var löggubíllinn og hinn var taxi,“ segir Petra Rós. Rætt er við krakkana í myndbandinu hér fyrir neðan.

Kassabílarallið er fyrir börn á aldrinum 6 - 12 ára og mikil spenna og gleði myndast iðulega í kringum keppnina. Allir keppendur fá verðlaunapening, efstu þrjú liðin fá verðlaunabikara og farandbikarar eru veittir fyrir flottasta bílinn annars vegar og þann frumlegasta hins vegar.