Hagsjá

Vinnumarkaður á toppi öldunnar

Atvinnuþátttaka hefur heldur leitað niður á við síðustu mánuði og starfandi fólki er hætt að fjölga jafn mikið og verið hefur. Í lok síðasta árs var atvinnuþátttaka álíka mikil og hún varð mest fyrir fjármálakreppuna. Margt bendir til þess að vöxtur vinnuaflseftirspurnar hafi náð hámarki en einnig að vinnumarkaðurinn verði áfram kröftugur.

7. desember 2017  |  Hagfræðideild

Samantekt

Eins og oft áður er staðan á vinnumarkaði einn af stærstu óvissuþáttunum hvað varðar þróun íslensks efnahagslífs á næstunni. Á næstu mánuðum verður tekist á um kaup og kjör, en staða atvinnumála, atvinnuþátttaka o.s.frv., skipta auðvitað miklu máli fyrir styrkleika einstakra aðila í þeim umleitunum.

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru um 201 þúsund manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í október 2017, sem jafngildir 82% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka hefur heldur leitað niður á við síðustu mánuði og starfandi fólki er hætt að fjölga jafn mikið og verið hefur. Í lok síðasta árs var atvinnuþátttaka álíka mikil og hún varð mest fyrir fjármálakreppuna. Margt bendir til þess að vöxtur vinnuaflseftirspurnar hafi náð hámarki en einnig að vinnumarkaðurinn verði áfram kröftugur.


Vinnutími er einnig að styttast samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni ef litið er á 12 mánaða hlaupandi meðaltal. Þar sem fjöldi starfandi er nokkuð óbreyttur er heildarvinnustundum að fækka sem hefur ekki gerst síðan á seinni hluta ársins 2012.

Atvinnuleysi minnkar enn þótt breytingarnar séu óverulegar. Tæpur fimmtungur fyrirtækja vill nú fjölga starfsfólki frekar en fækka því. Hlutfall fyrirtækja sem telur sig búa við skort á starfsfólki hefur lítið breyst undanfarin misseri þrátt fyrir mikinn innflutning á erlendu vinnuafli. Tölur um búferlaflutninga benda til áframhaldandi fjölgunar erlends starfsfólks í landinu þótt því hafi upp á síðkastið fjölgað hægar en á öðrum fjórðungi ársins.

Tölur Vinnumálastofnunar sýna að starfsfólki starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja heldur áfram að fjölga. T.d. fjölgaði um rúmlega 1.200 manns í þessum hópi milli september 2016 og 2017 og var hópurinn orðinn 1,1% af fjölda starfandi í september 2017 miðað við 0,4% árið áður.

Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar hafa að undanförnu ekki verið í samræmi við almenna tilfinningu fyrir vinnumarkaðnum, sem virðist vera á fleygiferð. Úrtak könnunarinnar nær eingöngu til fólks sem er í þjóðskrá og með lögheimili á Íslandi. Hluti erlenda vinnuaflsins er á landinu í tiltölulega skamman tíma og er því ekki í þjóðskrá. Þannig er líklegt að nokkur hluti erlends vinnuafls sem starfar hér tímabundið sé ekki talinn með eða komi seint fram í opinberum tölum. Þá er einnig líklegt að útlendingar svari síður en aðrir, lendi þeir í úrtaki. Niðurstöður gætu því falið í sér vanmat á fjölgun starfa og þar með vinnuaflsnotkun.

Rétt mæling á heildarvinnustundum skiptir miklu máli í sambandi við mat á framleiðni. Aukning á framleiðni er einmitt lykilhugtak fyrir launaþróun og ef ætlunin er að nálgast norrænar aðferðir við launasetningu er mikilvægt að hægt sé að treysta mælingum á framleiðni. Vanmat á fjölgun heildarvinnustunda felur þannig í sér ofmat á vexti framleiðni.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Vinnumarkaður á toppi öldunnar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

6784dc78-99d8-11e6-a582-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar