Hagsjá

Fjármál hins opinbera á réttri leið og opinber fjárfesting tekur stökk

Fjárfestingar sveitarfélaganna hafa aukist umtalsvert á árinu, eða um u.þ.b. 50% frá fyrra ári, þrjá ársfjórðunga í röð. Það er því ljóst að fjárfestingargeta sveitarfélaganna er orðin meiri eftir frekar langt tímabil lítilla fjárfestinga. Fjárfestingar ríkissjóðs hafa líka aukist verulega á þessu ári, eða í kringum 30% síðustu þrjá ársfjórðunga í röð.

19. desember 2017  |  Hagfræðideild

Samantekt

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um 13,2 ma.kr. á 3. ársfjórðungi 2017. Það samsvarar 4,7% af heildartekjum hins opinbera og 1,9% af landsframleiðslu ársfjórðungsins. Tekjuafgangurinn nam 37,7 ma.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins sem samsvarar 4,6% af tekjum tímabilsins. Fjármál hins opinbera hafa því mjög færst til betra horfs á síðustu tveimur árum og á það við um bæði ríkissjóð og sveitarfélög.

Sé litið á tekjuþróun ríkissjóðs og sveitarfélaga síðustu misserin má sjá að hún er í aðalatriðum keimlík, en þó hafa tekjur ríkissjóðs verið mun sveiflukenndari vegna óreglulegra liða. Þannig hafa heildartekjur bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga hækkað um tæp 60% frá 1. ársfjórðungi 2012 fram til 3. ársfjórðungs 2017. Skatttekjur sveitarfélaga virðast hins vegar hafa hækkað mun meira en skatttekjur ríkissjóðs á þessu tímabili.

Svipaða sögu má segja um útgjalda hliðina - þar hafa útgjöld ríkissjóðs verið mun sveiflukenndari en hjá sveitarfélögunum. Sé miðað við 1. árfjórðung 2012 hafa útgjöld sveitarfélaganna hækkað mun meira en hjá ríkissjóði. Launakostnaður bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga hefur hins vegar hækkað mun meira en heildarkostnaður á þessu tímabili.

Stóru tíðindin í nýjum tölum um fjármál hins opinbera tengjast fjárfestingu. Hagstofan hefur þannig birt nýjar og hærri tölur um fyrstu tvo fjórðunga ársins ásamt nýju tölum fyrir 3. ársfjórðung.

Viðbótin á fyrstu tveimur fjórðungum ársins var umtalsverð, sérstaklega hjá sveitarfélögunum. Heildarfjárfesting hins opinbera á 3. árfjórðungi var 26,7 ma.kr. og hefur ekki verið meiri a.m.k. frá árinu 2004. Fjárfestingin á 3. ársfjórðungi var um 21 ma.kr. sem er einnig verulegt í sögulegu samhengi.


Sé litið á breytingar á opinberri fjárfestingu má sjá að fjárfestingar sveitarfélaganna hafa aukist umtalsvert, eða um u.þ.b. 50% frá fyrra ári, þrjá ársfjórðunga í röð. Það er því ljóst að fjárfestingargeta sveitarfélaganna er orðin meiri eftir frekar langt tímabil lítilla fjárfestinga. Fjárfestingar ríkissjóðs hafa líka aukist verulega á þessu ári, eða í kringum 30% síðustu þrjá ársfjórðunga í röð.

Í pólitískri umræðu síðustu mánuði hefur verið auglýst mikið eftir aukinni fjárfestingu til uppbyggingar og viðhalds innviða. Sé tekið mið af tölum Hagstofunnar er ekki annað að sjá en að opinber fjárfesting hafi tekið mikinn kipp á þessu ári og hafi aldrei verið meiri. Það virðist því sem þessi aukna fjárfestingarstarfsemi sé að fara framhjá mörgum sem um málið fjalla.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fjármál hins opinbera á réttri leið og opinber fjárfesting tekur stökk (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar