Hagsjá

Minni spenna á vinnumarkaði

Flestar hlutfallstölur sem notaðar eru um stöðu á vinnumarkaði sýna að markaðurinn var í hæstu stöðu á árinu 2016. Þannig var atvinnuþátttaka um einu prósentustigi lægri á árinu 2017 en var 2016. Hlutfall starfandi var einnig um einu prósentustigi lægra á árinu 2017 en var 2016, en hlutfallið 2017 var engu að síður hærra en var 2015.

2. febrúar 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Nýjar tölur Hagstofunnar um stöðuna á vinnumarkaði í desember sýna svipaða þróun og verið hefur síðustu mánuði, þ.e.a.s. það dregur úr spennunni. Sú staða getur verið merki um að hagsveiflan hafi náð hámarki.Eftir langvarandi fjölgun starfandi fólks á vinnumarkaði hefur fjöldinn haldist nokkuð stöðugur síðustu mánuði sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða. Störfum er því ekki að fjölga eins mikið og verið hefur.

Atvinnuþátttaka jókst stöðugt frá upphafi ársins 2015 fram til vorsins 2017. Síðan þá hefur dregið úr atvinnuþátttöku um rúmt eitt prósentustig sé miðað við hlaupandi meðaltal. Atvinnuþátttaka er eftir sem áður mikil hér á landi og er nú álíka og hún var vorið 2016 og til muna hærri en hún var á árinu 2012.

Meðalvinnutími hefur heldur verið að styttast sé miðað við 12 mánaða meðaltal. Meðalfjöldi vinnustunda hefur verið mjög stöðug stærð í langan tíma, í kringum 40 stundir á viku og breytingar því ekki miklar.

Þegar starfandi fólki fækkar samtímis því að meðalvinnutími minnkar er afleiðingin sú að unnum vinnustundum í hagkerfinu fækkar sem er áætis vísbending um stöðu hagsveiflunnar. Ef landsframleiðslan heldur áfram að aukast en vinnustundum ekki kann þessi staða einnig að vera vísbending um aukna framleiðni eða mælivanda í fjölda vinnustunda og hugsanlega aukna svarta atvinnustarfsemi. Líklegt er er að dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði, m.a. vegna þess að þróun kaupmáttar hafi verið það góð að launafólk telji ekki nauðsynlegt að fjölga vinnustundum til að auka tekjur.

Séu stærðir á vinnumarkaði bornar saman fyrir þrjú síðustu ár er niðurstaðan almennt sú að vinnumarkaðurinn var í toppi hagsveiflunnar á árinu 2016.

Flestar hlutfallstölur sem notaðar eru um stöðu á vinnumarkaði sýna að markaðurinn var í hæstu stöðu á árinu 2016. Þannig var atvinnuþátttaka um einu prósentustigi lægri á árinu 2017 en var 2016. Hlutfall starfandi var einnig um einu prósentustigi lægra á árinu 2017 en var 2017, en hlutfallið 2017 var engu að síður hærra en var 2015. Vinnutími var einnig styttri á árinu 2017 en var á árunum 2015 og 2016 og á það bæði við um meðalfjölda vinnustunda og venjulegan vinnutíma.

Eina undantekningin frá þeirri niðurstöðu að slakinn hafi aukist á árinu 2016 eru tölurnar um atvinnuleysi. Atvinnuleysi hélt áfram að minnka á árinu 2017, en þó minna en gerðist á milli áranna 2015 og 2016. Atvinnuleysi er orðið mjög lítið og minnkar væntanlega ekki mikið úr þessu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Minni spenna á vinnumarkaði (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar