Hagsjá

Minnsta fjölgun gistinátta síðan 2010

Dregið hefur nokkuð úr fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna samfara minni fjölgun í komum þeirra hingað til lands. Fjölgun gistinátta var mismikil yfir einstöku landsvæði og virðist sem að enn sé til staðar mikil uppbygging og vöxtur í ferðaþjónustu á Suðurnesjum.

6. febrúar 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna á heilsárshótelum nam rúmlega 3,8 milljónum á síðasta ári borið saman við tæplega 3,5 milljónir árið 2016. Aukningin nam 10,7%. Þetta er minnsta fjölgun gistinátta síðan árið 2010, þegar þeim fækkaði um 1,9% frá fyrra ári. Fjölgun gistinátta hefur verið töluvert mikil og fylgst að við þá miklu fjölgun sem orðið hefur á komum erlendra ferðamanna. Fjölgun gistinátta á heilsárshótelum hefur á síðustu árum alltaf verið minni en sem nemur fjölgun ferðamanna. Af því má ráða að fjöldi hótelgistinátta á ferðamann hafi stöðugt dregist saman. Á síðustu árum má að stórum hluta rekja þessa þróun til þess að ferðamenn hafa í auknum mæli leitað í annars konar gistiform, s.s. Airbnb. Þá þróun má síðan aftur skýra að hluta með verðlagningu en verð á hótelgistingu er töluvert mikið hærra en verð á gistingu í gegnum Airbnb. Á síðustu árum hefur verð hótelgistingar hækkað töluvert mikið í erlendri mynt. Þannig nam hækkun á verði hótelgistingar hér á landi tæplega 60% milli áranna 2015 og 2017, mælt í erlendri mynt.


Lesa Hagsjána í heild


Mikill vöxtur á Suðurnesjum

Fjölgun hótelgistinátta á einstökum landsvæðum reyndist töluvert breytileg en hún helst vitanlega að einhverju leyti í hendur við breytingar á herbergjaframboði sérstaklega í þeim tilfellum þar sem herbergjanýting er mikil fyrir. Langmest aukning var á Suðurnesjum, 52,2%, en Suðurland kom næst með 21,2% aukningu. Minnsta aukningin var á Austurlandi, 0,3%. Aukningin á höfuðborgarsvæðinu var töluvert minni en yfir landið í heild en fjöldi gistinátta jókst um 5,5% frá fyrra ári á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu árin hefur fjöldi gistinátta á höfuðborgarsvæðinu yfirleitt aukist hlutfallslega minna en á landinu í heild. Af því má ráða að hlutdeild höfuðborgarsvæðisins hafi gefið eftir á síðustu árum. Um 62,6% gistinátta á öllu landinu voru á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári sem er lægsta hlutfallið sem mælst hefur. Árið fyrir uppsveifluna, 2010, var þetta hlutfall 72,9%.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Minnsta fjölgun gistinátta síðan 2010 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar