Hagsjá

Umskipti í þróun fasteignaverðs í stærri bæjum á landsbyggðinni

Sé litið á þróun fasteignaverðsins síðustu 5 ár má sjá að þróunin upp á við á höfuðborgarsvæðinu var lengi vel á undan fjórum stærstu bæjunum utan höfuðborgarsvæðisins, en þó var þróunin hraðari á Akureyri en í hinum bæjunum.

7. febrúar 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði verulega allt fram á sl. sumar, en síðan dró verulega úr. Sé litið á verðbreytingar á höfuðborgarsvæðinu og í fjórum stærstu bæjunum á landsbyggðinni sést að þróunin hefur verið keimlík. Hækkanir voru mun minni á höfuðborgarsvæðinu á 12 mánaða tímabili frá 4. ársfjórðungi 2016 til sama tímabils 2017 þannig að ekki hefur dregið jafn hratt úr hækkunum í bæjunum fjórum. Sé litið á þróunina á milli 3. og 4. ársfjórðungs 2017 er myndin allt önnur, annaðhvort lækkanir eða litlar hækkanir.Sé litið á þróun fasteignaverðsins síðustu 5 ár, frá upphafi ársins 2012, má sjá að þróunin upp á við á höfuðborgarsvæðinu var lengi vel á undan bæjunum fjórum, en þó var þróunin hraðari á Akureyri en í hinum bæjunum. Á seinni hluta tímabilsins, u.þ.b. frá árinu 2016, hafa bæirnir utan höfuðborgarsvæðisins tekið mikinn kipp upp á við og má þar sérstaklega nefna Árborg og Reykjanesbæ. Án efa má skýra þá hækkun að einhverju leyti með hækkun verðs á höfuðborgarsvæðinu. Það gerist með þeim hætti að verðhækkun ýtir fólki á höfuðborgarsvæðinu til nágrannasveitarfélaganna í einhverju mæli. Almenn þróun er þó sú að hægt hafi á þróuninni alls staðar á seinni hluta ársins 2017.

Fermetraverð eigna er miklu hærra í Reykjavík en í hinum bæjunum fjórum. Sé vegið meðaltal viðskipta á fjölbýli og sérbýli notað sést að fermetraverð í Reykjavík var um 430 þúsund krónur á 4. ársfjórðungi 2017 á meðan það var á bilinu 250-260 þúsund krónur á Akranesi og í Árborg.

Fermetraverðið á Akranesi var því 59% af því sem það var í Reykjavík á 2. ársfjórðungi 2017 og 68% á Akureyri, sem kemst næst Reykjavík. Eins og áður segir er hér um að ræða vegið meðaltal fjölbýlis og sérbýlis.

Mæling á vísitölu neysluverðs í janúar kom mikið á óvart og var skýringin sú að verð fasteigna utan höfuðborgarsvæðisins hefði hækkað um 5,4% milli mánaða í janúar. Þessi verulega hækkun milli mánaða á markaðsverði íbúða utan höfuðborgarsvæðisins kom síðan í kjölfar 3,2% lækkunar milli mánaða í desember.

Sé litið á tölur Þjóðskrár um breytingar á verði fasteigna í stærstu bæjum landsins fæst ekki staðfesting á þeirri mynd sem dregin er upp í sambandi við vísitölu neysluverðs. Íbúafjöldi í þeim fjórum bæjum sem eru skoðaðir hér nemur um 42% af íbúum landsbyggðarinnar og því má ætla að u.þ.b. helmingur fasteignaviðskipta á landsbyggðinni fari fram þar.

Séu tölur Þjóðskrár skoðaðar eftir mánuðum má sjá að í engum af þessum bæjum var um að ræða mikla verðhækkun á milli desember og janúar, nema á Akranesi. Viðskipti á Akranesi á þessu tímabili voru reyndar mun færri en í hinum bæjunum þremur.

Stærstur hluti viðskiptanna, eða um ¾ hlutar, fóru fram á Akureyri og í Reykjanesbæ og þar var ekki um hækkanir að ræða milli desember og janúar, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Miðað við þessar tölur koma skýringar Hagstofunnar á hækkun verðbólgu í janúar því spánskt fyrir sjónir.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Umskipti í þróun fasteignaverðs í stærri bæjum á landsbyggðinni (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar