Hagsjá

Launaþróun stöðug en hægt hefur á hækkunum

Sé þróun launa einstakra starfsstétta skoðuð yfir núverandi samningstímabil, sem er sama tímabil og var haft til viðmiðunar í SALEK samkomulaginu, má sjá að laun verkafólks annars vegar og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hins vegar hafa hækkað mest, eða um rúm 30%. Munurinn gagnvart næstu hópum er þó ekki mikill.

14. mars 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hafði í janúar hækkað um 7,3% frá janúar 2017. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur í kringum 7% síðustu mánuði. Verulega hefur hægt á aukningu kaupmáttar launa og hefur kaupmáttur verið nokkuð stöðugur síðustu mánuði. Kaupmáttur launa í desember var engu að síður tæpum 5% meiri en var í janúar 2017.

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári fram til nóvember 2017 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki og iðnaðarmönnum. Segja má að það endurspegli stöðu þessara hópa í efnahagslífinu um þessar mundir en þeir starfa almennt í þeim greinum sem hafa dregið vagninn í hagvexti síðustu missera. Laun stjórnenda og sérfræðinga hafa hækkað minnst á þessum 12 mánuðum.

Sé þróun launa einstakra starfsstétta skoðuð yfir núverandi samningstímabil, sem er sama tímabil og var haft til viðmiðunar í SALEK samkomulaginu, má sjá að laun verkafólks annars vegar og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hins vegar hafa hækkað mest, eða um rúm 30%. Munurinn gagnvart næstu hópum er þó ekki mikill. Launaramminn samkvæmt SALEK samkomulaginu var 32% frá árslokum 2014 fram til ársloka 2018.


Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, frá nóvember 2016 til nóvember 2017, má sjá að launahækkanir hjá sveitarfélögum hafa verið mestar og aðeins hærri en á almenna markaðnum. Launahækkanir hjá ríkinu hafa verið minnstar. Staða kjarasamninga einstakra hópa skýrir yfirleitt þessa stöðu, t.d. hafði endurnýjun kjarasamninga félaga innan BHM dregist mikið, sem aftur hefur mikil áhrif á launaþróun hjá ríkinu.

Sé litið til atvinnugreina hafa laun hækkað langmest í bygginga- og mannvirkjagerð frá nóvember 2017 til nóvember 2017. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem stöðug umframeftirspurn hefur verið eftir vinnuafli í þessum greinum í langan tíma. Laun í upplýsinga- og fjarskiptastarfsemi hafa hækkað næstmest á þessu tímabili á meðan laun í veitustarfsemi hafa hækkað áberandi minnst. Launavísitalan hækkaði um 7,3% á þessum tíma þannig að laun í byggingariðnaði hafa hækkað verulega umfram meðaltalið en laun í veitustarfsemi marktækt minna.

Í skilningi þjóðhagsreikninga er oft litið á framleiðslu sem samtölu þess sem launafólk ber úr býtum annars vegar og fjármagn og einyrkjar hins vegar. Hér er oft talað um launahlutfall eða hlut launa af þjóðarkökunni. Launahlutfallið er eðlilega mjög háð hagsveiflunni og sveiflast því töluvert. Á árinu 2006 fór launahlutfallið upp í tæp 69%, lækkaði svo niður í 52% á árinu 2009 en hefur farið stöðugt hækkandi síðan. Talið er að hlutfallið hafi verið 61% á árinu 2016 og það hækkaði síðan upp í tæp 65% í fyrra, sem er óvenjulega mikil hækkun.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Launaþróun stöðug en hægt hefur á hækkunum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar