Hagsjá

Fjármálaáætlun - stöðugur kúrs og reynt að fara bil beggja

Sé litið á heildarútgjöld ríkissjóðs til málaflokka á tímabilinu 2017-2023 munu mest útgjöld fara til sjúkrahúsaþjónustu, þar á eftir til málefna aldraðra og svo til málefna tengdum örorku og fötluðum.

17. apríl 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Í þeirri fjármálastefnu sem samþykkt var fyrr í vetur og nýrri fjármálaáætlun er greinilega reynt að sigla einhvers konar meðalveg á milli annars vegar mikilla krafna um aukin útgjöld og bólginna kosningaloforða og hins vegar afkomu opinberra fjármála sem svarar kalli laganna um opinber fjármál og kröfu styrkrar hagstjórnar í landinu. Gagnrýni hefur heyrst úr báðum áttum, bæði frá þeim sem finnst vanta meira fé í ákveðna málaflokka og þeim sem telja of geyst farið og að tekjuafgangur sé of lítill til þess að svara markmiðum hagstjórnar. T.d. hefur verið gagnrýnt að stefna ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir áframhaldandi góðum hagvexti á næstu árum sem sumum finnst of bjartsýn forsenda.

Afkomuregla laga um opinber fjármál kveður á um að heildarjöfnuður hins opinbera yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og að árlegur halli á heildarjöfnuði verði aldrei meiri en 2,5% af VLF.

Fjármálaráð benti á síðasta ári á að ríkisstjórnin boðaði áframhaldandi útgjaldaaukningu sem ætti sér ekki hliðstæðu á síðustu áratugum. Jafnvel þó stjórnvöld viðhaldi aðhaldsstigi við þensluaðstæður kallar aukning útgjalda jafnan á frekari tekjuöflun eða niðurskurð á öðrum útgjöldum, eða blöndu af hvoru tveggja. Sé ekkert af þessu gert af hálfu stjórnvalda eru þau, að öðru óbreyttu, í rauninni að velta ábyrgð hagstjórnar meira yfir á Seðlabankann.

Reiknað er með því að heildarafkoma hins opinbera verði jákvæð um minnst 1,4% af VLF á árinu 2018, 1,2% árið 2019 og 1% af VLF árin 2021 og 2022. Þessi þróun er því innan marka afkomureglunnar.

Ríkissjóður leikur að sjálfsögðu stærsta hlutverkið meðal opinberra aðila. Hvað afkomu varðar er gert ráð fyrir 1,2% af VLF sem afgangi í ár. Á árunum 2019–2022 er gert ráð fyrir að heildarafkoman fari smám saman lækkandi og verði 1% árið 2019, 0,9% árið 2020 og 0,8% árin 2021 og 2022.

Það kemur ekki á óvart að heilbrigðismál vegi þungt í auknum útgjöldum ríkisins, enda eru þau meðal stærstu málefnasviða í rekstri ríkissjóðs. Á tímabilinu 2017-2023 er þannig reiknað með að útgjöld til málaflokksins „Lyf og lækningavörur“ aukist um 66%. Af þeim 6 málaflokkum þar sem útgjaldaaukning verður mest eru fjórir nátengdir heilbrigðismálum.

Samanburður á milli tveggja tímapunkta þarf ekki að gefa bestu myndina af áherslum í ríkisfjármálum. Sé litið á heildarútgjöld til málaflokka á öllu tímabilinu fæst nokkuð önnur mynd en hér að ofan. Á tímabilinu 2017-2023 munu mest útgjöld fara til sjúkrahúsaþjónustu, þar á eftir til málefna aldraðra og svo til málefna tengdum örorku og fötluðum.


Hvað opinberar skuldir varðar er notaður annar mælikvarði í heimi fjármálastefnunnar þar sem lífeyrisskuldbindingar og viðskiptaskuldir eru undanskildar skuldum en sjóðir og bankainnstæður koma til frádráttar. Stefnan gerir ráð fyrir að heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af VLF í lok árs 2020 og að þær verði ekki hærri en 25% af VLF í lok árs 2022. Til þess að ná þessum markmiðum þurfa að koma til óreglulegar tekjur, t.d. af eignasölu og óreglulegum arðgreiðslum á árunum 2019–2023.

Skuldir ríkissjóðs skipta mestu í heildarmyndinni. Samkvæmt skuldareglu  er reiknað með að heildarskuldir ríkissjóðs verði komnar undir 25% af VLF í árslok 2019 og verði að hámarki 20% af VLF í árslok 2023. Reiknað er með að á árunum 2018–2021 verði hægt að nýta tæplega 120 ma.kr. tekjur vegna félaga í ríkiseigu til að greiða niður skuldir.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fjármálaáætlun – stöðugur kúrs og reynt að fara bil beggja (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar