Hagsjá

Miðborgin dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu 2017

Á árinu 2017 var hæsta meðalverð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu í miðborginni um 502 þús. kr. á m2 sem er um 21% hærra verð en í næsta hverfi á eftir, Arnanesið. Ódýrustu hverfin 2017 voru Seljahverfið og Breiðholt annað (þ.e. Stekkir, Bakkar, Mjódd, Hólar og Fell) í Reykjavík.

4. júní 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hækkun fermetraverðs á höfuðborgasvæðinu milli áranna 2016-2017 nam 20,1% samkvæmt tölum Þjóðskrár. Mesta hækkun í einu hverfi var 48,0% á Arnanesi og minnsta hækkun var 11,2% í miðborginni.Á árinu 2017 var hæsta meðalverð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu í miðborginni um 502 þús. kr. á m2 sem er um 21% hærra verð en í næsta hverfi á eftir. Næst dýrasta hverfið var Arnanesið og í þriðja sæti Seltjarnarnes. Af 10 dýrustu hverfunum á höfuðborgasvæðinu eru 5 í Reykjavík þar sem Laugardalur er í 4. sæti, Grafarholt í 7. sæti og Vesturbær, Hlíðar og Háaleiti í 8. sæti.

Ódýrustu hverfin 2017 voru Seljahverfið og Breiðholt annað í Reykjavík.

Mesta verðhækkun milli 2016 og 2017 var á Arnarnesi í Garðabæ. Hún nam 48,0%, sem er rúmum 27 prósentustigum yfir meðalhækkun og um 22 prósentustigum meira en hækkunin í Grafarvogi, sem var næst mest, eða um 25,8%. Næst á eftir komu Laugardalur með 24,6% hækkun og Árbær og Norðlingaholt með 23,1% hækkun.

Minnsta verðhækkunin var í miðborginni, eða 11,2%. Þar á eftir komu Vesturbær, Hlíðar og Háaleiti ásamt Kórum, Hvörfum og Þingi með 13% hækkun.

Frá árinu 2009 hefur Miðborgin almennt verið dýrasta hverfið á meðan Seljahverfi og Breiðholt annað hafa verið þau ódýrustu.

Sé litið á þróun hæsta og lægsta verðs á svæðinu öllu frá árinu 1990 hefur það verð sem hefur mest hækkað 8,8-faldast meðan það hverfi sem hefur tekið minnstu breytingum hefur 5,0-faldast. Sé hins vegar litið á þróunina frá aldamótum hefur verð einstaks hverfis mest 4,8-faldast og minnsta 3,1-faldast.

Undanfarið hefur verð hækkað mest í úthverfum Reykjavíkur og nágrannabæjarfélögum þess. Ætla má að það skýrist vegna framboðsskorts miðsvæðis í Reykjavík sem hefur valdið aukinni eftirspurn í öðrum hverfum með tilheyrandi verðhækkunum. Þar að auki var verð í eftirsóttustu hverfunum orðið mjög hátt, sem aftur beinir eftirspurninni út í ódýrari hverfi, sem þá hækka enn frekar.

Hvað dýrasta hverfið, miðborgina, varðar voru litlar breytingar á milli ára. Miðborgin heldur áfram sterkri stöðu sinni sem dýrasta hverfið. Sömuleiðis heldur Seljahverfið áfram að vera ódýrasta hverfið á höfuðborgasvæðinu, líkt og undanfarin ár.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Miðborgin dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu 2017 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar