Hagsjá

Fjármálaáætlun – Alþingi gerir engar breytingar

Í umsögnum sínum um fjármálaáætlun hefur Fjármálaráð tvívegis bent á að ríkisstjórnin stefni að útgjaldaaukningu sem eigi sér ekki hliðstæðu á síðustu áratugum. Útgjaldaaukningin er beinlínis stefna ríkisstjórnarinnar og miklar kröfur eru uppi um slíka stefnu.

7. júní 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Nú hafa komið fram álit þingnefnda um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var lögð fram í byrjun apríl. Ekki eru lagðar fram neinar tillögur um breytingar frá upphaflegri þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar og því verður fjárlagfrumvarp næsta árs byggt á þeim ramma sem nú liggur fyrir.Mikil umfjöllun er um framsetningu og aðferðafræði í álitum þingnefnda. Samkvæmt lögum gaf Fjármálaráð ítarlega umsögn um tillöguna að fjármálastefnu sem bæði beindust að umgjörð og framsetningu, en einnig að efnahagslegu innihaldi tillagnanna og afleiðinga þeirra á hagstjórn. Þingnefndirnar hafa valið að fjalla fyrst og fremst um umgjörð og framsetningu, t.d. að tölugrunnur tillagna hafi verið rýr, og er það auðvitað vel. Þannig segir meirihluti fjárlaganefndar að hann geri ekki breytingartillögur við sjálfa þingsályktunina. Engu síður séu ýmsir þættir sem betur megi fara.

Þessi staða sýnir hins vegar að löggjafarsamkoman telur sig bundna af tillögum ríkisstjórnar að fjárlagastefnu. Staðan hefur einmitt verið sú allt frá því að byrjað var að nota þennan nýja ramma fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.Ýmsar tillögur í þessum efnum eru til mikilla bóta, t.d. um að sérgreina fjárfestingu meira í öllum tillögum um útgjöld. Þá er bent á að hentugt gæti verið að birta dæmi og sviðsmyndir sem sýni hversu viðkvæm áætlunin sé fyrir óvæntum breytingum, t.d. minni hagvexti en reiknað hafi verið með.

Fjármálaráð hefur nú tvívegis bent á að ríkisstjórnin stefni að útgjaldaaukningu sem eigi sér ekki hliðstæðu á síðustu áratugum. Útgjaldaaukningin er beinlínis stefna ríkisstjórnarinnar og miklar kröfur eru uppi um slíka stefnu. Afstaða Fjármálaráðs hefur verið að jafnvel þótt stjórnvöld viðhaldi aðhaldsstigi við þensluaðstæður ætti aukning útgjalda jafnan að kalla á frekari tekjuöflun eða niðurskurð á öðrum útgjöldum, eða blöndu af hvoru tveggja. Sé ekkert af þessu gert af hálfu stjórnvalda eru þau, að öðru óbreyttu, í rauninni að velta ábyrgð hagstjórnar meira yfir á Seðlabankann og stjórn peningamála.

Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar kemur fram að nýjar ákvarðanir leiði til 78 ma.kr. hækkunar útgjalda á tímabilinu 2018-2023 umfram það sem fyrirliggjandi skuldbindingar, lög og reglugerðir gera ráð fyrir. Meirihluti fjárlagaefndar segist taka að miklu leyti undir ábendingar Fjármálaráðs og hafi fylgt þeim eftir gagnvart fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Í þessu sambandi virðist það ekki skipta nokkru máli að fjárveitingarvaldið liggur hjá Alþingi, þingið er algerlega bundið af tillögum og stefnu ríkisstjórnar. Fjárlaganefnd virðist hafa tekið sér það hlutverk að miðla upplýsingum milli Fjármálaráðs og ráðuneytis.

Það vekur óneitanlega athygli hversu lítið áherslur í fjármálum hins opinbera hafa breyst á undanförnum árum, þrátt fyrir breytta samsetningu ríkisstjórna. Kúrsinn virðist nokkuð fastur og stjórnmálamenn virðast almennt sammála um stóru myndina í fjármálum hins opinbera. Mismunandi áherslur koma því fram innan þess ramma sem menn eru sammála um að nota. Þessi fasti rammi opinberra fjármála er mikil framför, stefnufestan er meiri og sama má segja um nauðsynlegan fyrirsjáanleika.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fjármálaáætlun – Alþingi gerir engar breytingar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar