Hagsjá

Samanburður á þjóðhagsspám fyrir tímabilið 2018-2020

Hagfræðideild gaf út þjóðhagsspá þann 31. maí síðastliðinn og gerir hún ráð fyrir að hægja muni á hagvexti á Íslandi. Spár annarra greiningaraðila taka í sama streng og er óvenju mikið samræmi milli þjóðhagsspáa. Það er því útlit fyrir meiri ró í íslensku efnahagslífi á næstu árum en undanfarin ár.

8. júní 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hagfræðideild gaf síðast út spá í nóvember í fyrra þar sem spáð var 4,5% hagvexti 2018 og 3,6% 2019. Við gerum nú ráð fyrir 4,1% hagvexti í ár og 2,4% á næsta ári. Lækkun spárinnar skýrist að mestu af talsvert minni aukningu í fjárfestingu og útflutningi en gert var ráð fyrir í nóvember. Að öðru leyti er maíspá Hagfræðideildar í meginatriðum sambærileg nóvemberspánni.Á heildina litið eru greiningaraðilar almennt sammála um efnahagsþróun á Íslandi í spám sínum fyrir tímabilið 2018-2020. Draga mun úr hagvexti m.v. fyrri ár og í lok spátímabilsins er útlit fyrir að hagvöxtur á Íslandi verði nær því sem gengur og gerist í öðrum þróuðum ríkjum.

Tímabil sprengivaxtar í ferðaþjónustu er lokið og greiningaraðilar eru sammála um að samfara hægari efnahagsuppgangi muni hægja á aukningu bæði inn- og útflutnings á spátímabilinu.<(p>

Samræmi er milli verðbólguspáa greiningaraðila, að Arion banka undanskildum, sem sker sig úr með hærri spá fyrir 2019 og 2020.

Viðskiptajöfnuður sem hlutfall af landsframleiðslu verður áfram jákvæður þó hann fari lækkandi. Ef spárnar ganga eftir verður niðurstaðan lengsta samfellda tímabil með jákvæðum viðskiptajöfnuði frá stofnun lýðveldisins.

Greiningaraðilar eru einnig sammála um að ró sé að færast yfir fasteignamarkaðinn á Íslandi eftir mikinn hamagang undanfarin ár og því muni draga úr hækkunum á fasteignaverði.

Helsti munur á þjóðhagsspánum snýr að vexti og samsetningu fjármunamyndunar næstu ár. Mest ber á milli í spám um atvinnuvegafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera. Hagfræðideild sker sig úr hvað varðar atvinnuvegafjárfestingu 2018 þar sem hún spáir 8,1% aukningu á meðan aðrar spár gera ráð fyrir samdrætti milli -1,9% og -4,9%. Spár um fjárfestingu hins opinbera liggja á bilinu 11,0-27,2% fyrir 2018, 3,6-13,2% fyrir 2019 og 2,1-10,0% fyrir 2020. Þar spáir Hagfræðideild 19,0% aukningu 2018 en 10,0% aukningu 2019 og 2020.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Samanburður á þjóðhagsspám fyrir tímabilið 2018-2020 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar