Hagsjá

Árangursríku samningstímabili á vinnumarkaði að ljúka – hvað svo?

Kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu hefur aukist um 25% frá árslokum 2014. Það jafngildir 6,1% kaupmáttaraukningu á ári á þessu tæplega fjögurra ára tímabili. Sé litið á tímabilið frá árslokum 2000 hefur kaupmáttur aukist um tæp 50%, eða um u.þ.b. 2,1% á ári að jafnaði. Það má því vera ljóst að það samningstímabil sem nú er að ljúka er nokkuð einstakt í sögunni hvað varðar aukningu á kaupmætti.

6. nóvember 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hækkaði um 0,6% milli ágúst og september. Í september hafði vísitalan hækkað samtals um 5,9% undanfarna 12 mánuði. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hafði verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár en hefur nú verið í kringum 6% frá því í maí.

Sé litið á tímabilið frá janúar 2015 til maí 2018 má sjá að launavísitalan hefur hækkað töluvert umfram samningsbundnar hækkanir. Ef litið er á tímabilið frá janúar 2015 til september 2018 má áætla gróflega að samningsbundnar hækkanir hafi verið tæp 20%, en launavísitalan hefur hækkað um 35% á sama tíma. Það þýðir að launavísitalan hefur hækkað um 12,5% umfram samningsbundnar hækkanir, eða að jafnaði um 0,35% umfram samningsbundnar hækkanir í hverjum mánuði. Launakostnaður fyrirtækjanna virðist þannig hafa hækkað meira en samið var um í heildarkjarasamningiKaupmáttur á mælikvarða launavísitölu hefur aukist um 25% frá árslokum 2014. Það jafngildir 6,1% kaupmáttaraukningu á ári á þessu tæplega fjögurra ára tímabili. Sé litið á tímabilið frá árslokum 2000 hefur kaupmáttur aukist um tæp 50%, eða um u.þ.b. 2,1% á ári að jafnaði. Sé litið á fyrri hluta þessa tímabils, þ.e. frá árslokum 2000 til ársloka 2014 jókst kaupmáttur um 20%, eða um 1,3% á ári að jafnaði.

Svipaða sögu er að segja um þróun kaupmáttar ráðstöfunartekna, en hann hefur aukist að meðaltali um 3,5% á ári frá aldamótum. Á fyrri hluta tímabilsins, 2001-2014, jókst hann að jafnaði um 2,2% á ári, en um 8% á ári 2015-2018.

Það má því vera ljóst að það samningstímabil sem nú er að ljúka er nokkuð einstakt í sögunni hvað varðar aukningu á kaupmætti. Að öllu jöfnu ætti að ríkja ánægja með góðan árangur en það er öðru nær. Mikil óánægja með launaþróun annarra hópa, sérstaklega þeirra sem hafa fengið launahækkanir samkvæmt úrskurðum Kjararáðs, hafa valdið því að ekki er horft sérstaklega til þess góða árangurs sem hér hefur verið fjallað um. Aðrir þættir eins og meintur aukinn ójöfnuður í samfélaginu og röng skipting skattbyrði hafa líka haft áhrif í þessu sambandi.

Kröfur hópa innan ASÍ fyrir kjaraviðræður eru með allra mesta móti og beinast bæði að atvinnurekendum og ríkissjóði, en einnig að Alþingi t.d. varðandi aukna vernd leigjenda og Seðlabankanum varðandi lækkun stýrivaxta. Spár um hagþróun næstu ára benda allar til þess að toppi núverandi hagsveiflu sé náð og að rólegri tímar séu framundan.

Samkvæmt nýlegri könnun Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna sinna um mat á svigrúmi til launahækkana lá matið í mismunandi greinum milli 1,2 og 2,1% og var meðaltalið 1,9%. Miðað við þær verðbólguspár sem hafa sést myndu launahækkanir af þessu tagi leiða til lækkunar á kaupmætti.

Eins og sást hér að framan hefur árleg meðalaukning kaupmáttar launa verið 2,1% á ári frá árslokum 2000 og aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna 3,5% á ári. Tölur af þessu tagi eru ekki verra mat á svigrúmi en hverjar aðrar. Einn möguleiki á lendingu komandi samninga gæti því verið að stefna að því að ná ákveðnu markmiði fyrir þróun meðalkaupmáttar. Því svigrúmi mætti svo skipta með mismunandi hætti milli einstakra hópa í nánu samstarfi við stjórnvöld.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Árangursríku samningstímabili á vinnumarkaði að ljúka – hvað svo? (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

5850a07d-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar