Hagsjá

Umbætur í húsnæðismálum – einhver þarf að borga!

Í nýlegri greiningu frá Capacent kom fram að um 60% leigjenda telja að þeir hafi minna en 5 m. kr. í eigið fé til kaupa á húsnæði. Að öðru jöfnu gefa 5 m. kr. í eigið fé möguleika á 25 m. kr. íbúð miðað við 80% lánshlutfall. Afskaplega lítið er til af íbúðum í þeim verðflokki.

12. desember 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Húsnæðismál eru að verða eitt mikilvægasta málið í viðræðum um kjarasamninga, ef marka má orð þeirra sem sitja við samningaborð stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar. Miðað við umræðuna eru menn sammála um að mikil umframeftirspurn sé eftir húsnæði og að því sé mikilvægt að gera stórátak í byggingu íbúðarhúsnæðis á næstu misserum. Sérstaklega er bent á mikla þörf fyrir smærri og ódýrari íbúðir sem best henta þeim hópum sem eiga við mesta erfiðleika að etja í húsnæðismálum.

Sé tekið mið af Reykjavík sést að einungis 15% af íbúðum eru 70 m2 eða minni þannig að það er greinilega ekki mikil hefð fyrir því að byggja minni íbúðir hér. Vegna þess að eldhús og baðherbergi eru dýrustu hlutar íbúða er meðalverð minni íbúða að jafnaði mun hærra en á þeim stærri. Það verður því alltaf erfiðara en ella að byggja litlar íbúðir ódýrar en þær stærri ef halda á sömu kröfum. Það er líka hæpin stefna að slá mikið af kröfum við byggingu íbúða vegna sérstakra aðstæðna þar sem hverri íbúð er ætlað að endast í marga áratugi og þjóna nokkrum fjölskyldum á þeim tíma.

Fasteignaverð er í sögulegu hámarki þessa dagana og því eru allar úrlausnir erfiðari en ella. Sé litið á þróun fasteignaverðs og heildartekna frá aldamótum sést að fasteignaverð hefur fjórfaldast á meðan tekjur fólks á vinnualdri hafa tæplega þrefaldast. Tekjur fólks á aldrinum 20-29 ára hafa hækkað minna en meðaltekjur allra og hafa u.þ.b. 2,5-faldast á þessum tíma. Tölurnar ná einungis fram til ársins 2017, en mestur hluti hækkunar fasteignaverðs var kominn fram þá.

Í greiningu  sem Capacent gerði fyrir Reykjavíkurborg nú í vetur kemur fram að nú þurfi u.þ.b. tvöfalt hærri ráðstöfunartekjur til að greiða íbúðarverð en þurfti árið 1997 og um 60% hærri en árið 2007. Í sömu greiningu er sagt að það hafi tekið fólk á aldrinum 30-34 ára um 192 mánuði á árinu 2017 að greiða fyrir íbúð, að því gefnu að allar ráðstöfunartekjur væru notaðar til kaupanna. Sambærileg tala fyrir árið 1997 var einungis 88 mánuðir og 97 mánuðir á árinu 2000. Þó þessar tölur segi dálítið sterkari sögu en tekjusamanburðurinn hér að framan er þetta samt vísbending um hvernig málin hafa þróast.

Í áðurnefndri greiningu Capacent kom fram að um 60% leigjenda telja að þeir hafi minna en 5 m. kr. í eigið fé til kaupa á húsnæði. Að öðru jöfnu gefa 5 m. kr. í eigið fé möguleika á 25 m. kr. íbúð miðað við 80% lánshlutfall. Afskaplega lítið er til af íbúðum í þeim verðflokki. Í greiningu Capacent kemur enn fremur fram að um 65% eigenda og leigjenda reikna með að kaupverð fyrstu íbúðar verði á bilinu 35-65 m. kr. Þar af reikna 33% leigjenda með að kaupa íbúð sem kostar undir 35 m. kr. og 72% reiknar með að íbúð kosti minna en 45 m. kr.Það er greinilega umtalsvert bil á milli getu leigjenda til þess að kaupa húsnæði og væntinga þeirra um væntanlegt kaupverð, allavega miðað við stöðu eiginfjár í dag, og ljóst að kröfur verkalýðsfélaga snúast um að þetta bil verði brúað með einhverjum hætti. Sá hluti kröfugerðarinnar snýr beint að stjórnvöldum. Það er dagljóst að þarna er ekki um neinar smá upphæðir að ræða ef takast á að ná einhverjum árangri í þá átt að sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið.

Þarna er vandi á höndum. Það er augljóslega þörf fyrir verulega milligjöf ef ætlunin er að koma til móts við kröfur verkalýðsfélaganna. Veruleg byggingaráform í nýja átt gætu orðið til þess að treglega gangi að selja allt það húsnæði sem er nú þegar á markaði og á leið þangað. Það er því spurning hvort finna mætti nálgun sem tengdi þessar leiðir saman með einhverjum hætti þannig að núverandi framboð nýtist betur til þess að leysa þau vandamál sem leitað er lausnar á.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Umbætur í húsnæðismálum - einhver þarf að borga! (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar