Hagsjá

Hækkun launavísitölu á svipuðu róli – kaupmáttur enn á uppleið

Kaupmáttur hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði, en frekar á leið upp á við. Kaupmáttur launavísitölu var þannig 2,9% meiri nú í nóvember en var í nóvember í fyrra. Frá áramótunum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 24%, eða tæplega 7% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd.

21. desember 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hækkaði um 0,15% milli október og nóvember samkvæmt tölum Hagstofunnar. Breytingin á ársgrundvelli var 6,2% sem er svipað og verið hefur síðustu mánuði. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli var nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár, frá vori 2017 fram á vor 2018, en lækkaði þá niður í kringum 6% og hefur haldist þar síðan.Kaupmáttur hefur verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði, en frekar á leið upp á við. Kaupmáttur launavísitölu var þannig 2,9% meiri nú í nóvember en var í nóvember í fyrra. Verulega hafði hægt á aukningu kaupmáttar launa frá því sem mest var og hefur aukning kaupmáttur verið mun minni frá því um mitt ár 2017. Frá áramótunum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 24%, eða tæplega 7% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Ef litið er á þróunina frá aldamótum má sjá að kaupmáttur jókst um u.þ.b. 15% frá upphafi ársins 2001 fram til 2017/2018. Kaupmáttur féll svo töluvert og var árið 2010 kominn niður í álíka stöðu og var 2001. Kaupmáttur náði svo fyrri hámarksstöðu haustið 2014 og hefur aukist um 24% síðan þá. Nú í nóvember var kaupmáttur launavísitölu 44% meiri en var í upphafi ársins 2001.

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 3. ársfjórðungi 2017 til sama tíma 2018 var mest hjá þjónustu-, sölu og afgreiðslufólki, 6,3%. Staðan er áfram sú að laun stjórnenda hafa hækkað áberandi minnst á þessum tíma. Sé litið á breytinguna milli 2. og 3. ársfjórðungs sést að laun tækna og sérmenntaðs fólks og þjónustu-, sölu og afgreiðslufólks hækkuðu mest, en minnst hjá stjórnendum.

Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, milli 3. ársfjórðungs 2017 og 2018, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum hafa verið ívið meiri en á opinbera markaðnum, eða 6,2%. Laun starfsmanna ríkisins hafa hækkað jafn mikið en launahækkanir hjá sveitarfélögum hafa verið minnstar.

Allt aðra sögu er að segja af launabreytingum á milli 2. og 3. ársfjórðungs 2018 en á því tímabili hafa laun starfsmanna sveitarfélaga hækkað mest en minnst á almenna markaðnum. Staða kjarasamninga einstakra hópa sem gerðir eru á mismunandi tímum er væntanlega meginskýring þessarar stöðu.

Sé litið til atvinnugreina hafa laun hækkað mest í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð frá 3. ársfjórðungi 2017, eða um 6,8%. Laun í framleiðslu og í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað minnst. Launavísitalan hækkaði um 6,1% á þessum tíma þannig að laun í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð hafa hækkað töluvert umfram meðaltalið og laun í framleiðslu töluvert minna.

Sé litið á tímabilið frá janúar 2015 til maí 2018 má sjá að launavísitalan hefur hækkað töluvert umfram samningsbundnar hækkanir, sem sýnir að launakostnaður fyrirtækjanna hefur hækkað meira en samið var um í heildarkjarasamningi. Þessi þróun var sérstaklega mikil á fyrri hluta tímabilsins Það passar auðvitað vel við hagsveifluna á þessum tíma og þýðir að staðbundnir samningar og hreint launaskrið hafa hækkað launin umfram það sem gert var ráð fyrir. Skýringarnar kunna að vera fleiri, t.d. er unnið markvisst að jafnlaunavottun innan margra fyrirtækja sem kann að hafa einhverjar breytingar í för með sér.

Fyrr á árum var staðan oft sú að staða kjaramála var orðin slæm í lok samningstímabils, t.d. var kaupmáttur oft á niðurleið. Þessi staða er allt önnur nú, kaupmáttur er enn á uppleið sé miðað við launavísitölu og almennt má segja að þau markmið sem sett voru í síðustu kjarasamningum hafi náðst nokkuð vel.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Hækkun launavísitölu á svipuðu róli – kaupmáttur enn á uppleið (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar