Hagsjá

Húsaleiga hækkaði meira en kaupverð íbúða milli 2017 og 2018

Leiguverð hækkaði meira en kaupverð íbúða milli 2017 og 2018. Leiguverð hækkaði um 8,3%, á meðan kaupverð íbúða hækkaði um 5,4%. Á tímabilinu 2011-2018 hefur leiguverð hækkað meira en kaupverð milli ára í þrjú skipti, en kaupverðið hefur hækkað meira fjórum sinnum. Alls hefur leiguverðið hækkað um 77,2% á þessum 7 árum og kaupverðið um 95,5%. Meðalhækkun kaupverðs á á ári þessu tímabili er því 10,1% og meðalhækkun leiguverðs 8,8%.

22. janúar 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,7% í desember og hafði þá hækkað um 7,8% frá desember 2017. Á sama tíma hafði verð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu einungis hækkað um 5,5%. Breytingar á leigu- og kaupverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu fylgdust nokkuð náið að allt frá árinu 2011 þegar farið var að birta vísitölu leiguverðs fram til ársins 2015. Frá þeim tíma fram á mitt ár 2017 dróst vísitala leiguverðs töluvert aftur úr vísitölu kaupverðs. Síðan þá hefur dregið saman með þessum stærðum og leiguverð hækkað töluvert meira en kaupverð íbúða, sérstaklega á seinni hluta síðasta árs.
Sé litið á breytingar milli 2017 og 2018 má sjá að leiguverð hækkaði meira, eða um 8,3%, á meðan kaupverð íbúða hækkaði um 5,4%. Á tímabilinu 2011-2018 hefur leiguverð hækkað meira en kaupverð milli ára í þrjú skipti, en kaupverðið hefur hækkað meira fjórum sinnum. Alls hefur leiguverðið hækkað um 77,2% á þessum 7 árum og kaupverðið um 95,5%. Meðalhækkun kaupverðs milli ára á þessu tímabili er því 10,1% og meðalhækkun leiguverðs 8,8%.

Vísitala leiguverðs er byggð á þinglýstum samningum um húsaleigu og er ætlað að sýna þau leiguverð sem eru í gangi hverju sinni. Fjöldi samninga er nokkuð breytilegur eftir mánuðum og því byggja mælingarnar á mistraustum grunni. Á myndinni hér til hliðar má t.d. sjá samanburð á þróun vísitölunnar og leiguverðs 3ja herbergja íbúða í vesturhluta Reykjavíkur, sem er einna stærsta svæðið í úrtakinu. Upphafs- og lokapunktarnir eru þeir sömu en sveiflurnar í leiguverði íbúða á þessu svæði eru mun meiri en í vísitölunni fyrir allar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Það er því ljóst að staða einstakra mánaða á einstökum svæðum getur verið mjög frábrugðin vístölu leiguverðs.

Markverður munur er á leiguverði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Leiguverð pr. m2 fyrir 2ja herbergja íbúðir er nær alls staðar töluvert hærra en á 3ja herbergja íbúðum, nema á Akureyri. Munur á leiguverði 2ja og 3ja herbergja íbúða var mestur á Suðurnesjum og á Suðurlandi, um 30%, en er að meðaltali um 20% á öllum svæðum.

Hæsta leiguverðið fyrir 2ja herbergja íbúðir var í Breiðholti og hæsta verðið fyrir 3ja herbergja íbúðir í austurhluta Reykjavíkur. Miðborg Reykjavíkur telst hér til vesturhlutans. Hátt leiguverð í Breiðholti vekur athygli, en sé tekið meðaltal síðustu 3ja mánaða ársins er leiguverð 2ja herbergja íbúða í Breiðholti það lægsta á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er leiguverðið borið saman milli desembermánaða 2017 og 2018. Vísitala leiguverðs hækkaði um 7,8% á milli þessara tímapunkta. Mesta breyting á leiguverði á þessum tíma er 46% hækkun 2ja herbergja íbúða á Suðurnesjum og þar á eftir koma 2ja herbergja íbúðir í Breiðholti. Minnstu breytingarnar eru 12% lækkun á 3ja herbergja íbúðum á Suðurlandi og um 6% lækkun á 2ja herbergja íbúðum í vesturhluta Reykjavíkur og á Akureyri.

Eins og oft hefur verið undirstrikað í Hagsjám Hagfræðideildar er jafnan um að ræða mikla dreifingu á bak við meðaltöl ýmissa stærða á fasteignamarkaði. Þá eru einnig töluverðar sveiflur á milli mælinga í einstökum mánuðum. Þessar aðstæður eiga ekki síður við um leigumarkaðinn en kaup- og sölumarkaðinn.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Húsaleiga hækkaði meira en kaupverð íbúða milli 2017 og 2018 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar