Hagsjá

Aukning á skráðu atvinnuleysi en annars jákvæðar tölur af vinnumarkaði

Meðaltal skráðs atvinnuleysis samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var 2,2% 2017 og 2,3% 2018. Almennt er búist við því að atvinnuleysi hafi náð lágmarki eftir mikla lækkun fram til ársins 2017. Skráð atvinnuleysi hefur aukist nokkuð á síðustu mánuðum og var 2,7% í desember, en var 2,3% í september og hefur ekki verið hærra síðan vorið 2016.

28. janúar 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að 201.600 manns hafi verið á vinnumarkaði í desember 2018, sem jafngildir 79,6% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 199.000 starfandi og 2.800 atvinnulausir. Atvinnuleysi var því 1,4% af mannafla og mun minna en mánuðina tvo á undan. Starfandi fólk var rúmlega 3 þúsund fleira nú í desember en í desember 2017. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal er enn nokkuð stöðug aukning á starfandi fólki. Á þann mælikvarða voru um 4.500 fleiri starfandi í desember 2018 en í desember 2017.Atvinnuþátttaka í desember var 79,6%, en var 81,7% í desember 2017, þannig að atvinnuþátttaka dróst saman um 2,1 prósentustig milli ára. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um eitt prósentustig frá desember 2017 til sama tíma 2018. Á þennan mælikvarða er atvinnuþátttaka nú svipuð og var í upphafi ársins 2015, en hún tók að aukast mikið upp úr því.

Vikulegar vinnustundir voru að jafnaði 38 í desember og hafði fækkað um 0,3 á einu ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í desember sá sami og var í desember 2017 og hefur hann verið mjög stöðugur á þann mælikvarða allt þetta ár.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun nær samfellt á árinu 2018. Aukningin milli ára var mikil frá ágúst til nóvember, en nokkuð minni í desember. Þessi aukning á vinnuaflsnotkun eða fjölda unninna vinnustunda er jafnan talin merki um gott gengi í hagkerfinu. Sé litið á breytinguna milli desembermánaða 2017 og 2018 jókst vinnuaflsnotkun um 0,9%. Fjöldi starfandi jókst um 1,6% milli ára, en vinnustundum fækkaði um 0,8%.

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár. Sama má segja um tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi. Meðalatvinnuleysi á mælikvarða Hagstofunnar var 2,7% á árinu 2018 á móti 2,8% á árinu 2007. Meðaltal skráðs atvinnuleysis var 2,2% 2017 og 2,3% 2018. Almennt er búist við því að atvinnuleysi hafi náð lágmarki eftir mikla lækkun fram til ársins 2017.

Skráð atvinnuleysi hefur aukist nokkuð á síðustu mánuðum og var 2,7% í desember, en var 2,3% í september og hefur ekki verið hærra síðan vorið 2016.

Nær allir kjarasamningar á almenna markaðnum eru lausir nú um stundir og flestir kjarasamningar á opinbera markaðnum renna út í lok febrúar. Vinna við gerð kjarasamninga er í fullum gangi en ekki er útséð með niðurstöðu. Almennt er þó talið að niðurstöður átakshóps um aukið framboð á íbúðum muni hafa jákvæð áhrif á viðræður á almenna markaðnum. Þrátt fyrir að tölur um skráð atvinnuleysi hafi þokast dálítið upp á við vísa flestar aðrar tölur um vinnumarkaðinn í þá átt að allt sé í góðum gangi. Þó því sé spáð að hagvöxtur fari eitthvað minnkandi á næstu misserum virðist vinnumarkaðurinn ekki vera að gefa mikið eftir.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Aukning á skráðu atvinnuleysi en annars jákvæðar tölur af vinnumarkaði (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

No filter applied

Tengdar greinar