Hagsjá

Hlutur sveitarfélaganna eykst í starfsemi hins opinbera

Fjárfesting sveitarfélaganna var um 33% af opinberri fjárfestingu á árinu 2009, en var komin upp í 44% á síðasta ári. Frá árinu 2009 hafa fjárfestingar sveitarfélaganna rúmlega tvöfaldast að nafnvirði á sama tíma og fjárfestingar ríkissjóðs hafa aukist um tæp 30%. Stór hluti af aukningu sveitarfélaganna hefur komið á síðustu tveimur árum.

6. mars 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum þjóðhagsreikninga, sem Hagstofan birti í síðustu viku, jókst samneysla að raungildi um 3,3% árið 2018 eftir að hafa aukist um 3,6% árið áður. Samneysla jókst frekar hægt á árunum 2013-2015, en hefur síðan aukist hraðar. Frá árinu 1980 hefur samneyslan aukist um 3,1% að meðaltali á ári en um 2,4% á ári frá 1990. Opinberar fjárfestingar jukust um 23% árið 2018 sem er sama aukning og var 2017. Opinber fjárfesting hafði nánast staðið í stað næstu tvö ár þar á undan eftir að hafa aukist nokkuð á árunum 2013 og 2014.
Hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu (VLF) var 23,6% samkvæmt fyrstu tölum og hefur ekki verið hærra síðan 2014 þegar það var 23,9%. Þá hafði hlutfallið lækkað lítillega á árunum þar á undan. Þetta hlutfall hefur hækkað síðustu tvö ár í samræmi við markmið fjármálaáætlunar frá í fyrra, en þar var gert ráð fyrir að þetta hlutfall yrði í kringum 23,6% fram til 2023. Hlutur opinberra fjárfestinga af vergri landsframleiðslu hækkaði í 3,7% 2018, úr 2,6% árið 2016. Hlutfallið hefur ekki verið hærra frá árinu 2009 þegar það var um 3,8%.

Sé litið á þróun samneyslu frá árinu 2009 fram til 2018 má sjá að aukningin hefur verið meiri hjá sveitarfélögunum en hjá ríkissjóði og almannatryggingum. Val á upphafspunkti getur auðvitað skipt máli við svona samanburð og sama má segja um tilflutning verkefna milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Samneysla sveitarfélaganna hefur aukist um 83% frá árinu 2009 á sama tíma og aukningin hefur verið 49% hjá ríkissjóði.

Í samræmi við þessa þróun hefur hlutur sveitarfélaganna í samneyslunni aukist nokkuð á tímabilinu 2009-2018. Í upphafi tímabilsins var hlutur ríkissjóðs 53% en var kominn niður í 49% á síðasta ári. Hlutfall almannatrygginga var stöðugt í 11% allt tímabilið og hlutur sveitarfélaganna var kominn upp í 40% á árinu 2018.

Eins og áður segir hafa opinberar fjárfestingar aukist um 23% tvö ár í röð. Aukning hefur orðið bæði hjá ríkissjóði og sveitarfélögum. Aukningin fór seinna af stað hjá sveitarfélögunum en þar hefur hún verið mikil á síðustu tveimur árum. Á síðustu tveimur árum hefur aukningin verið rúm 30% hjá ríkissjóði en vel yfir 60% hjá sveitarfélögunum.

Fjárfesting sveitarfélaganna var um 33% af opinberri fjárfestingu á árinu 2009, en var komin upp í 44% á síðasta ári. Eins og áður segir ber að hafa í huga að samanburður við árið 2009 getur verið sérstakur, t.d. var samdrátturinn í kjölfar hrunsins mörgum sveitarfélögum mjög erfiður. Frá árinu 2009 hafa fjárfestingar sveitarfélaganna rúmlega tvöfaldast að nafnvirði á sama tíma og fjárfestingar ríkissjóðs hafa aukist um tæp 30%. Stór hluti af aukningu sveitarfélaganna hefur komið á síðustu tveimur árum.

Í nýlegri Hagsjá var fjallað um áform um opinberar framkvæmdir og því spáð að töluvert stökk yrði í opinberum framkvæmdum á þessu ári. Verði áform um stórfelldar fjárfestingar í innviðum þar sem gjaldtaka væri hluti af myndinni gætu opinberar fjárfestingar aukist enn meira. Út frá hagstjórnarsjónarmiði er eðlilegt að opinberar fjárfestingar séu meiri í niðursveiflu þegar fjárfesting atvinnuveganna minnkar.

Í síðustu spá Hagfræðideildar var gert ráð fyrir að opinber fjárfesting ykist um 18% að raunvirði í fyrra. Fyrstu tölur benda til 23% aukningar. Þá reiknuðum við með um 10% aukningu bæði árin 2019 og 2020 og 5% 2021. Það myndi þýða að opinber fjárfesting færi yfir 4% af VLF á árinu 2020, en hún var að meðaltali 4,5% á árunum 1998-2008 og 3,1% af VLF á árunum 2008-2017. Ekki er ólíklegt að spá deildarinnar breytist við endurskoðun í maí 2019.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Hlutur sveitarfélaganna eykst í starfsemi hins opinbera (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar