Hagsjá

Vinnumarkaður – langtímabreytingar eru nokkuð miklar

Atvinnuþátttakan minnkaði verulega strax upp úr aldamótum og svo aftur í kjölfar hrunsins. Atvinnuþátttaka náði hámarki á árinu 2016 og var þá svipuð og mest var á árinu 2001. Töluvert dró svo aftur úr atvinnuþátttöku beggja kynja á árunum 2017 og 2018.

19. mars 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hagstofan birti nýlega vinnumarkaðstölur fyrir árið 2018. Sambærilegar tölur Hagstofunnar um vinnumarkað ná allt aftur til ársins 2003 og sumar allt aftur til 1991. Það er jafnan athyglisvert að skoða tölur eins og þessar í langtímasamhengi. Tölurnar frá 2003 ná þannig í gegnum tvær hagsveiflur og tölurnar frá 1991 í gegnum þrjár til fjórar, eftir því hvernig á þau mál er litið.

Frá árinu 2003 til 2018 fjölgaði starfsfólki á vinnumarkaði um rúmlega 41 þúsund. Á árinu 2018 voru að jafnaði rúmlega 198 þús. starfandi á aldursbilinu 16-74 ára sem var þá um 79% af mannfjölda á sama aldursbili. Á árinu 2003 voru einnig um 79% mannaflans starfandi en hlutfallið sveiflaðist mikið á milli þessara tveggja tímapunkta. Fjöldi starfandi jókst með nokkuð svipuðum hætti nema á árunum 2004, 2009 og 2010. Mesta aukningin var á árunum 2006 og 2007.

Hlutfall starfandi jókst fram til ársins 2007 en lækkaði svo allt fram til ársins 2012 þegar það fór niður í 76%. Það jókst svo upp í 81% á árinu 2016 en hefur lækkað nokkuð síðan.

Vinnutími styttist mikið frá 2003 fram til 2018, eða um tvær og hálfa stund að jafnaði. Mest var styttingin á milli árana 2008 og 2009, 1,7 stundir . Svo virðist sem staðan hafi breyst mikið í hruninu hvað vinnutíma snertir. Vinnutími var að meðaltali 41,6 stundir á viku á árunum 2003-2008, en 39,5 stundir á árunum 2009-2018.

Sé fjöldi fólks á vinnumarkaði og lengd vinnutíma tekin saman má sjá að fjöldi heildarvinnustunda hefur aukist samfellt frá árinu 2011, mest um 4% árið 2014. Seinni árin er þessi þróun nær algerlega orin af fjölgun starfandi og breyting á vinnutíma hefur ekki mikil áhrif.

Á árinu 1991 var vinnutími karla um 51 stund á viku og var kominn niður í um 41 stund 2018. Vinnutími karla styttist þannig um rúmar 8 stundir á þessu tímabili. Vinnutími kvenna var 34,5 stundir á árinu 1991 og 35,3 stundir 2018. Vinnutími kvenna jókst því um 0,8 stundir á þessu tímabili. Karlar vinna enn mun lengur en konur þó munurinn hafi minnkað verulega.

Vinnutími hefur jafnan verið styttri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Á árinu 1991 vann fólk á höfuðborgarsvæðinu að jafnaði 42 stundir á viku meðan fólk úti á landi vann 46 stundir, eða fjórum stundum lengur. Á árinu 2018 var þessi munur á vinnutíma kominn niður í tvær stundir. Vinnutími á höfuðborgarsvæðinu var kominn niður í 39 stundir og hafði styst um 3 stundir á tímabilinu. Vinnutími úti á landi var kominn niður í 41 stund og hafði styst um 5 stundir.
Á árinu 1991 var atvinnuþátttaka um 81%, um 88% hjá körlum og 74% hjá konum en atvinnuþátttakan sýnir hlutfall vinnuafls af heildarmannfjölda. Á árinu 2018 var atvinnuþátttakan 81,6% og hafði þá minnkað um 2,1% hjá körlum en aukist um 3,2% hjá konum á þessum tæpu þremur áratugum. Atvinnuþátttakan minnkaði verulega strax upp úr aldamótum og svo aftur í kjölfar hrunsins. Atvinnuþátttaka náði hámarki á árinu 2016 og var þá svipuð og mest var á árinu 2001. Töluvert dró svo aftur úr atvinnuþátttöku beggj akynja á árunum 2017 og 2018.

Tölurnar hér sýna annars vegar þróun á 15 ára tímabili og hins vegar á tæpum 30 árum. Eðli málsins samkvæmt hafa orðið töluverðar breytingar á þessum tíma. Mesta breytingin er væntanlega sú að vinnutími hefur styst verulega á þessum árum og er svo að sjá að hrunið hafi skipt miklu í því sambandi. Þá hefur dregið nokkuð úr atvinnuþátttöku karla á meðan atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist verulega.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Vinnumarkaður – langtímabreytingar eru nokkuð miklar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar