Hagsjá

Töluverð og jöfn hækkun fasteignaverðs í mars

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% milli febrúar og mars. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,6% og verð á sérbýli hækkaði um 0,5%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,5% og verð á sérbýli um 6,6%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 4,3% sem er 0,6 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði sem var í lágmarki.

17. apríl 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% milli febrúar og mars. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,6% og verð á sérbýli hækkaði um 0,5%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,5% og verð á sérbýli um 6,6%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 4,3% sem er 0,6 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði sem var í lágmarki.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,7% milli mánaða í mars, eða álíka og fasteignaverð. Raunverð fasteigna breyttist því lítið milli mánaða. Horft yfir lengra tímabil þá hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án fasteignakostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um u.þ.b. 8%.

Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í mars um 1,8% hærra en í mars 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 8,0% fyrir mars 2018 og 23,1% fyrir mars 2017.
Þjóðskrá reiknar út hefðbundna vísitölu íbúðaverðs út frá vegnu fermetraverði ólíkra flokka íbúðarhúsnæðis. Hagdeild Íbúðalánasjóðs hefur reiknað út aðra vísitölu sem er kölluð vísitala paraðra viðskipta, en þar er borið saman verð með tvenn aðskilin viðskipti með sömu íbúð. Eðli málsins samkvæmt eru viðskipti með nýtt húsnæði því ekki með í þeirri vísitölu. Það getur verið töluverður munur á þessum tveimur vísitölum. Þannig sýndi paraða vísitalan 2,3% verðhækkun milli janúar og febrúar í ár á meðan hefðbundna vísitalan sýndi 1% lækkun. Munurinn liggur í vægi nýbygginga í viðskiptum og verðþróun þeirra. Sé hins vegar litið til alls ársins 2018 var hækkun samkvæmt hefðbundnu vísitölunni 6,3% á meðan sú paraða sýndi 5,3% hækkun. Fjölmargir þættir hafa áhrif á þróun íbúðaverðs, svo sem gæði, staðsetning, aldur, stærð o.s.frv. Með sama hætti hefur ofangreind samsetning nýrra og eldri seldra eigna mikil áhrif á niðurstöðuna.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í mars voru með svipuðum hætti og á síðustu mánuðum 2018. Viðskipti fyrstu þriggja mánaða ársins voru þó um 12% fleiri en á sama tíma fyrir ári. Viðskipti á fyrstu þremur mánuðum ársins voru svipuð og var að meðaltali á öllu árinu 2018. Það má því segja að fasteignamarkaðurinn sé tiltölulega stöðugur hvað fjölda viðskipta varðar.

Í nýlegri Hagsjá var bent að líklega muni um 7.700 nýjar íbúðir verða fullkláraðar á höfuðborgarsvæðinu í ár og á næstu tveimur árum. Á sama tíma er talað um mikla umframeftirspurn eftir litlum og ódýrum íbúðum. Það er nokkuð víst að stærstur hluti þessara íbúða sem eru á leiðinni á markað séu of stórar og of dýrar til þess að leysa þann vanda sem fyrir er. Flestar af þeim tillögum sem hafa komið fram til þess að leysa meintan vanda snúa í þá átt að það þurfi að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði. Það er því ákveðin hætta á því að framboð veigamikils hluta íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu geti orðið mun meira en eftirspurn á næstu árum.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Töluverð og jöfn hækkun fasteignaverðs í mars (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar