Hagsjá

Atvinnuleysi eykst – en þó minna en ætla mætti

Skráð atvinnuleysi var langmest á Suðurnesjum í apríl og var komið upp í 6,4%, 6,2% meðal karla og 6,6% meðal kvenna. Aukning atvinnuleysis hefur verið mest á Suðurnesjum frá því í apríl 2018, eða um 4,2 prósentustig og þar á eftir á Höfuðborgarsvæðið, um 1,5 prósentustig. Breytingar á öðrum svæðum eru mun minni.

24. maí 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að rúmlega 211 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í apríl 2019, sem jafngildir 83% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 203 þús. starfandi og 8.400 atvinnulausir. Atvinnuleysi var því 4% af vinnuafli, sem var rúmu einu prósentustigi hærra en mánuðina þar á undan, en 0,6 prósentustigum lægra en í apríl 2018. Starfandi fólk var rúmlega 10 þús. fleira nú í apríl en í apríl 2018, sem er 2,4% fjölgun. Sveiflur milli mánaða eru töluverðar og sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða var fjölgun starfandi 3% nú í apríl. Í apríl 2018 var samsvarandi tala 0,9% og 4% í apríl 2017. Þessar tölur sýna að vinnumarkaðurinn var enn á fullri ferð í apríl.

Atvinnuþátttaka í apríl var 83% en var 82,1% í apríl 2018, þannig að atvinnuþátttaka jókst um 0,9 prósentustig milli ára. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,1 prósentustig frá apríl 2018 til sama tíma 2019.

Vikulegar vinnustundir voru að jafnaði 37,3 í apríl og hafði fækkað um 0,7 stundir á einu ári frá apríl 2018. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í apríl 0,2 stund styttri en var í apríl 2018 og hefur hann verið mjög stöðugur á þann mælikvarða frá upphafi síðasta árs.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun samfellt á árinu 2018 og einnig á 1. ársfjórðungi 2019. Meginskýringuna er að finna í sífellt auknum fjölda starfandi á vinnumarkaði. Þannig jókst fjöldi unninna stunda um 2,3% á 4. ársfjórðungi 2018 og 1,8% á fyrsta ársfjórðungi í ár. Þessi aukning er skýrt merki um sterkan vinnumarkað. Þess er þó að vænta að þessar tölur leiti frekar niður á við í takt við meiri slaka á vinnumarkaði.
Hér á landi eru til tvær mælingar á atvinnuleysi, hjá Hagstofu Íslands og hjá Vinnumálastofnun. Þessar mælingar eru ólíkar og gefa því oft mismunandi niðurstöðu. Niðurstöður Hagstofunnar byggja á mánaðarlegri úrtakskönnun þar sem fólk er spurt um stöðu sína. Tölur Vinnumálastofnunar sýna hversu margir eru skráðir atvinnulausir og eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Tölur Hagstofunnar eru oftast hærri hvað fjölda varðar og í þeim eru líka mun meiri sveiflur milli mánaða.

Tölur Hagstofunnar um atvinnuleysi eru tvíbentar. Atvinnuleysi jókst töluvert milli mars og apríl í ár, en atvinnuleysi í apríl í fyrra var meira en í ár. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi hafa hins vegar hækkað nokkuð á síðustu mánuðum. Skráð atvinnuleysi var þannig 3,7% í apríl samanborið við 2,1% í apríl 2018. Nú í apríl voru um 6.800 manns á atvinnuleysisskrá miðað við um 4.200 manns í apríl 2018.

Skráð atvinnuleysi var langmest á Suðurnesjum í apríl og var komið upp í 6,4%, 6,2% meðal karla og 6,6% meðal kvenna. Aukning atvinnuleysis hefur verið mest á Suðurnesjum frá því í apríl 2018, eða um 4,2 prósentustig og þar á eftir á Höfuðborgarsvæðið, um 1,5 prósentustig. Breytingar á öðrum svæðum eru mun minni.

Allt bendir til þess að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, í kjölfar efnahagslegra áfalla eins og gjaldþrots WOW air og loðnubrests. Þó mun aukningin ekki verða eins mikil og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 4,5% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árinu 2022.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi eykst – en þó minna en ætla mætti (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar