Hagsjá

Fasteignaverð áfram í rólegum takti í maí

Þrátt fyrir mikla hækkun raunlauna á síðustu árum hefur fasteignaverð hækkað mun meira. Þannig hækkaði raunverð íbúða um tæp 50% frá upphafi ársins 2015 en kaupmáttur launa um u.þ.b. 24%. Munurinn á launaþróun og þróun fasteignaverðs er því mikill á þessum tíma.

20. júní 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% milli apríl og maí. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,3% og verð á sérbýli um 0,4%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,8% og verð á sérbýli um 4%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 3,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði.Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,2% milli mánaða í maí og 3,1% á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á árinu. Raunverð fasteigna breyttist því lítið milli mánaða. Horft yfir lengra tímabil hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án fasteignakostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um tæp 10%.

Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í apríl um 0,8% hærra en í apríl 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 4,4% fyrir maí 2018 og 27% fyrir maí 2017.

Þrátt fyrir mikla hækkun raunlauna á síðustu árum hefur fasteignaverð hækkað mun meira. Þannig hefur raunverð íbúða hækkað um tæp 50% frá upphafi ársins 2015 en kaupmáttur launa um u.þ.b. 24%. Munurinn á launaþróun og þróun fasteignaverðs er því mikill á þessum tíma. Sé sami samanburður gerður á milli upphafs ársins 2017 hækkaði raunverð fasteigna um 19% og kaupmáttur launa um 8%. Frá upphafi ársins 2018 hafa raunlaun og raunverð fasteigna hækkað álíka mikið, eða á bilinu 2,5-2,8%. Bilið á milli hækkunar fasteignaverðs og launa hefur þannig minnkað á síðustu misserum og jafnframt eru breytingarnar orðnar minni.

Í langtímasamhengi er fasteignaverð tiltölulega hátt miðað við kaupmátt launa. Sveiflur hafa verið miklar hvað þetta samhengi varðar. Sé miðað við upphafspunkt í byrjun árs 1994 er fasteignaverð nú um 45% hærra en kaupmáttur launa. Að meðaltali hefur fasteignaverð verið um 16% hærra á þessu nær aldarfjórðungslanga tímabili. Lægst fór fasteignaverðið niður í u.þ.b. 80% af kaupmætti launa í upphafi ársins 1998 og hæst í 164% í upphafi ársins 2008.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í maí voru fleiri en verið hefur undanfarna mánuði. Fjöldi viðskipta fyrstu fimm mánuði ársins 2019 var jafn mikill og á sama tíma fyrir ári. Það má því segja að fasteignamarkaðurinn sé tiltölulega stöðugur hvað fjölda viðskipta varðar.

Meðalfjöldi viðskipta á fyrstu fimm mánuðum ársins er hins vegar um 4% minni en var á öllu árinu 2018.

Eins og einnig kemur fram í nýlegri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð fyrir að verð íbúðarhúsnæðis muni hækka í rólegum takti næstu ár, þannig að raunverð íbúða hækki um u.þ.b. 1% árlega. Við gerum þannig ráð fyrir u.þ.b. 4% árlegri hækkun íbúðaverðs að jafnaði næstu þrjú árin. Þróun síðustu mánaða er í ágætu samræmi við þá spá.


Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignaverð áfram í rólegum takti í maí (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

11

No filter applied

Tengdar greinar