Hagsjá

Hófleg hækkun launavísitölunnar vegna kjarasamninga - kaupmáttur enn stöðugur

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,7% milli apríl og maí. Breytingin á ársgrundvelli var 5,1% sem er minnsta ársbreyting frá apríl 2014. Samanlögð hækkun launavísitölunnar í apríl og maí var 2,2% og má ætla að þar sé um að ræða ágæta mælingu á upphafsáhrifum nýgerðra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum.

25. júní 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,7% milli apríl og maí. Breytingin á ársgrundvelli var 5,1% sem er minnsta ársbreyting frá apríl 2014. Þess ber þó að geta að laun hækkuðu almennt vegna kjarasamninga á almenna markaðnum í maí 2018 sem dregur úr árshækkuninni. Samanlögð hækkun launavísitölunnar í apríl og maí var 2,2% og má ætla að þar sé um að ræða ágæta mælingu á upphafsáhrifum nýgerðra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Hækkun launavísitölunnar vegna þessa er minni en verið hefur síðustu ár.

Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og frekar togast upp á við eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur var þannig 1,5% meiri nú í maí en í maí 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um tæp 26%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd.

Tölur frá Hagstofunni um nánari samsetningu launavísitölunnar koma jafnan mun seinna en vísitalan sjálf. Þannig hefur launavísitalan fyrir maí 2019 verið birt en samsetningin nær bara til mars 2019. Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 1. ársfjórðungi 2018 til 1. ársfjórðungs 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru mun minni en á þeim opinbera. Munurinn nemur u.þ.b. hálfu prósentustigi.

Kjarasamningar á almenna markaðnum runnu út í lok síðasta árs og nýr samningur var ekki gerður fyrr en í byrjun apríl. Því má segja að allur almenni markaðurinn hafi verið í biðstöðu allan fyrsta ársfjórðunginn. Laun á almenna markaðnum lækkuðu þannig frá 4. ársfjórðungi 2018 sem er mjög óvenjulegt.

Samanburður á milli almenna og opinbera markaðarins u.þ.b. við lok samningstímabila beggja markaða sýnir að laun á báðum mörkuðum hafa hækkað jafn mikið, eða um tæp 36%, sé miðað við upphaf ársins 2015.

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 1. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 var mest hjá tæknum og sérmenntuðu starfsfólki, 7,1%. Laun stjórnenda hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða um 4%. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 5-6% á þessum tíma sem er álíka og hækkun launavísitölunnar sem hækkaði um 5,7% á þeim tíma.

Sé litið til atvinnugreina hækkuðu laun mest í annars vegar byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og hins vegar í flutningum og geymslustarfsemi frá 1. árfjórðungi 2018 til sama tíma 2019, eða í kringum 7%, sem er vel umfram hækkun launavísitölunnar. Laun í framleiðslu hækkuðu minnst og næst minnst í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða um rúmlega 5%.
Nú hefur kjarasamningum verið lokað fyrir nær allan almenna markaðinn og má segja að upphaflega lausnin sem kom í byrjun apríl hafi verið fyrirmynd annarra samninga sem gerðir hafa verið. Niðurstaðan er alls staðar krónutöluhækkanir, kr. 17.000 á mánuði í upphafi tímabils og álíka hækkanir á næstu árum.

Nú í lok júní verður allur opinberi markaðurinn með lausa samninga. Viðræður hafa verið í gangi nokkuð lengi en lítið virðist ganga. Frá sumum hópum hefur heyrst að ekki sé mikill áhugi á að nota krónutölusamningana frá almenna markaðnum sem fyrirmynd.

Þess er tæplega að vænta að mikið gerist í samningagerð á opinbera markaðnum fyrr en síðsumars eða í haust þegar orlofstímabili lýkur. Hvað varðar kjarasamninga á vinnumarkaðnum erum við þannig séð komin hálfa leið og helmingurinn af leiðinni er eftir.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Hófleg hækkun launavísitölunnar vegna kjarasamninga - kaupmáttur enn stöðugur (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar