Hagsjá

Minnsta árshækkun launavísitölunnar frá 2011 - kaupmáttur lækkar eilítið

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands lækkaði launavísitalan um 0,1% milli maí og júní. Breytingin á ársgrundvelli var 4,3% sem er minnsta ársbreyting frá febrúar 2011.

25. júlí 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands lækkaði launavísitalan um 0,1% milli maí og júní. Breytingin á ársgrundvelli var 4,3% sem er minnsta ársbreyting frá febrúar 2011.

Samanlögð hækkun launavísitölunnar í apríl og maí var 2,2% sem væntanlega er ágæt mæling á upphafsáhrifum nýgerðra kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum. Hækkun launavísitölunnar vegna samninganna nú er töluvert minni en verið hefur síðustu ár. Þá er samningstímabili flestra samninga á opinbera markaðnum lokið þannig að þar hefur ekki verið um neinar launabreytingar að ræða á síðustu mánuðum.
Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og togaðist frekar upp á við eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur í júní var 0,8% minni en var í júní 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 25%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Næstu samningsbundnu launabreytingar á almenna markaðnum verða ekki fyrr en í apríl á næsta ári og er þess því að vænta að kaupmáttur láti eitthvað undan síga fram að því.

Tölur frá Hagstofunni um nánari samsetningu launavísitölunnar koma jafnan mun seinna en vísitalan sjálf. Þannig hefur launavísitalan fyrir júní 2019 verið birt en samsetningin nær bara til apríl 2019. Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá apríl 2018 til apríl 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru mun meiri en á þeim opinbera. Munurinn nemur u.þ.b. einu og hálfu prósentustigi. Kjarasamningar á almenna markaðnum voru gerðir í byrjun apríl og gætir áhrifa þeirra í þessum tölum.

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá apríl 2018 til sama mánaðar 2019 var mest hjá þjónustu- sölu og afgreiðslufólki og verkafólki. Launavísitalan hækkaði um 6,8% á þessum tíma og því virðist sem markmið kjarasamninganna að hækka lægstu launin mest séu að nást. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 4,8% sem er töluvert fyrir neðan launavísitölu. Laun iðnaðarmanna hækka næst minnst. Þeir gerðu reyndar kjarasamning nokkuð seinna en aðrir þannig að ekki er víst að áhrif samningsins komi fram í þessum tölum.

Sé litið til atvinnugreina hækkuðu laun mest í flutningum og geymslustarfsemi, um 8,3%, sem er vel fyrir ofan hækkun launavísitölunnar. Næstmesta hækkunin var í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og verslun og viðgerðum. Laun í fjármála- og vátryggingarstarfsemi hækkuðu minnst á þessu tímabili.

Nú hefur kjarasamningum verið lokað fyrir nær allan almenna markaðinn, en nær allur opinberi markaðurinn er með lausa samninga. Árangurslitlar viðræður áttu sér stað þar áður en ákveðið var að fara í sumarfrí. Frá sumum hópum hefur heyrst að ekki sé mikill áhugi á að nota krónutölusamningana frá almenna markaðnum sem fyrirmynd. Viðræður á opinbera markaðnum hefjast væntanlega fljótlega aftur.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Minnsta árshækkun launavísitölunnar frá 2011 - kaupmáttur lækkar eilítið (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

10

No filter applied

Tengdar greinar