Hagsjá

Ísland er hlutfallslega dýrt land og heldur þeim einkennum sínum

Ísland er í 11. sæti Evrópuríkja hvað kaupgetu fólks á meðallaunum varðar, sem er 8% lægra en í New York. Af Evrópuríkjum trónir Sviss á toppnum með 28% meiri kaupgetu meðalmannsins en gildir í New York. Svíþjóð. Árið 2011 vorum við í 11. sæti í Evrópu, lægst Norðurlandaþjóða, eins og núna.

1. ágúst 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Ísland er dýrt land, það vitum við öll. En hversu dýrt það er miðað við önnur lönd er ekki alltaf einfalt að meta. Í löndum sem eru dýr eru laun oft tiltölulega há líka þannig að metið út frá kaupmætti þarf almenningur ekki endilega að hafa lakari lífskjör þó verðlag sé hátt.

Hér verður Ísland borið saman við Evrópuríki hvað nokkrar stærðir varðar. Samanburðurinn er á vísitöluformi sem er stillt af þannig að staðan í New York er sett sem 100 í öllum tilvikum. Samanburðurinn byggir á nýjum tölum sem gilda fyrir 2019.

Hér er ekki um mjög nákvæm vísindi að ræða, heldur tiltölulega einfaldan samanburð. Ekki er gerð tilraun til þess að mæla gæði vöru og þjónustu og þá skipta þættir eins og staða gjaldmiðla einnig máli. Samanburðurinn nær til 40 ríkja, en hér eru einungis sýnd þau hæstu, þó þannig að öll Norðurlöndin sjást.

Á Íslandi er framfærslukostnaður án húsaleigu sá þriðji hæsti í Evrópu um þessar mundir. Einungis Sviss og Noregur eru með hærri kostnað, og Sviss mun hærri. Ísland er ívið lægra en New York og Noregur ívið hærri. Framfærslukostnaður á hinum Norðurlöndunum er nokkuð lægri, t.d. er hann um 28% lægri í Svíþjóð en er hér.

Kostnaður vegna húsaleigu er alls staðar verulega lægri en gerist í New York. Í Sviss og Lúxemborg, þar sem hann er hæstur í Evrópu, er hann einungis um og yfir helmingur af því sem gerist í New York. Ísland er í þriðja sæti með 44% af því sem gerist í New York og Írland er með svipaða stöðu. Húsaleigukostnaður í Svíþjóð er hins vegar einungis um 26% af því sem er í New York.

Sé leigukostnaði bætt við framfærslukostnað trónir Sviss á toppnum og Noregur og Ísland eru næst í röðinni, töluvert á eftir Sviss. Kostnaðurinn í Finnlandi og Svíþjóð er hins vegar töluvert lægri en hér.

Töluverð umræða er jafnan um verðlag á veitingastöðum hér á landi sem mörgum þykir hátt. Ísland er með þriðja hæsta kostnaðinn hvað þetta varðar, um 11% hærri kostnað en í New York og töluvert á eftir Sviss og Noregi þar sem hann er hæstur. Enn og aftur koma Svíar vel út úr samanburði við aðrar þjóðir.

Hæsta matvælaverð í Evrópu er í Sviss, rúmlega 20% hærra en í New York. Verðið í Noregi er næst hæst og Ísland er í þriðja sæti, töluvert fyrir neðan Noreg. Svíar og Finnar eru áfram lægstir Norðurlandaþjóðanna.

Allt hér að ofan snýr beint að mælingum á verðlagi. Það skiptir miklu hvernig fólki gengur að kaupa vöru og þjónustu miðað við gefinn kostnað. Enn og aftur kemur New York inn í myndina. Hér er samanburður sem byggir á því hversu mikið fólk með meðallaun getur keypt af vöru og þjónustu. Geta fólks með meðallaun í New York er sett sem 100 og aðrar þjóðir fá mælingu í samræmi við það.
Talan fyrir Ísland er 92, sem þýðir að kaupgeta meðalmannsins hér er 8% minni en í New York. Eins og oft áður trónir Sviss á toppnum með 28% meiri kaupgetu meðalmannsins en gildir í New York. Svíþjóð, Þýskaland og Danmörk eru næst á svipuðu stigi. Ísland er í 11. sæti Evrópuríkja hvað kaupgetu meðalmannsins varðar, með 92% af því sem gildir í New York. Við erum hins vegar í efri hluta Evrópuríkja, en 10 þjóðir eru með kaupgetu lægri en 50% af New York. Lægstu þjóðirnar eru Albanía og Moldóva með um 30% af New York.

Nú mætti halda að staða hagsveiflunnar og gengismála ættu að skipta miklu máli hvað Ísland varðar. Sé hins vegar litið á samskonar tölur frá 2011 sést að kaumáttarlega séð vorum við á svipuðum stað miðað við aðrar Evrópuþjóðir þá og nú. Þá vorum við í 11. sæti, lægst Norðurlandaþjóða, eins og núna.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Ísland er hlutfallslega dýrt land og heldur þeim einkennum sínum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

6

No filter applied

Tengdar greinar