Hagsjá

Minna atvinnuleysi og merki um sterkan vinnumarkað

Vinnuaflsnotkun eða fjöldi unninna stunda jókst samfellt á árinu 2018 og einnig á fyrstu tveimur ársfjórðungum 2019. Meginskýringin á þessari þróun hefur verið sífellt aukinn fjöldi starfandi fólks á vinnumarkaði. Þannig jókst fjöldi unninna stunda um 2,6% á 1. ársfjórðungi 2019 og 2,7% á öðrum ársfjórðungi í ár.

13. ágúst 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að um 216 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í júní 2019, sem jafngildir 84% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 209 þús. starfandi og 6.800 atvinnulausir. Atvinnulausir voru því um 6 þús. færri en í mánuðinum á undan. Atvinnuleysi var 3,2% af vinnuafli í júní, sem var næstum helmingi minna en í maí og minna en mánuðina þar á undan. Starfandi fólk var um 6 þús. fleira nú í júní en í júní 2018.
Tölur Hagstofunnar um atvinnuleysi eru að jafnaði hærri en tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, en þó var ekki svo í júní. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hafa þessir tveir ferlar stefnt saman. Í júní munaði einungis 0,1 prósentustigi á þessum mælingum og 0,2 prósentustigum í maí. Hagstofan mældi 3,2% atvinnuleysi á síðustu 12 mánuðum í júní og Vinnumálastofnun 3,4% sem var eilítið lægra en í maí. Báðar mælingar sýna töluverða aukningu atvinnuleysis það sem af er árinu, en aukningin virðist hafa stöðvast í bili.

Atvinnuþátttaka í júní var 84% og hefur ekki verið hærri síðan í júlí 2018. Atvinnuþátttaka var einnig 84% í júní í fyrra þannig að hún hefur ekki breyst á síðustu 12 mánuðum. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,1 prósentustig frá júní 2018 til sama tíma 2019 og hefur því verið stöðug á þann mælikvarða.

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 40,1 stundir í júní og hafði fækkað um 0,6 stundir á einu ári frá júní 2018. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í júní 0,2 stundum styttri en í maí 2018 og er þetta stysti vinnutíminn á þann mælikvarða í a.m.k. 15 ár.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun samfellt á árinu 2018 og einnig á fyrstu tveimur ársfjórðungum 2019. Meginskýringin á þessari þróun hefur verið sífellt aukinn fjöldi starfandi fólks á vinnumarkaði. Þannig jókst fjöldi unninna stunda um 2,6% á 1. ársfjórðungi 2019 og 2,7% á öðrum ársfjórðungi í ár. Vinnutími hefur hins vegar styst um 0,8% og 0,7% á síðustu tveimur ársfjórðungum. Heildarniðurstaðan er því sú að vinnuaflsnotkun jókst um 1,8% á 1. ársfjórðungi og 2% á öðrum ársfjórðungi í ár.

Í vor var reiknað með að atvinnuleysi myndi aukast eftir því sem liði á árið og staða á vinnumarkaði versna. Nýjustu tölur Hagstofunnar benda ekki til þess að þessar spár séu að raungerast. Þvert á móti hefur atvinnuleysið minnkað, í bili að minnsta kosti, og vinnuaflsnotkun heldur áfram að aukast.

Atvinnuleysið hefur komið einna verst niður á Suðurnesjum þar sem skráð atvinnuleysi var 6,4% í apríl og 6,6% í maí sem er meira en tvöföldun frá árinu áður. Skráð atvinnuleysi var hins vegar 6,3% í júní þannig að þróunin upp á við virðist hafa stöðvast.

Tíðindi um sterkan vinnumarkað eru auðvitað alltaf jákvæð og verður spennandi að fylgjast með hvort þessi jákvæða þróun heldur áfram.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Minna atvinnuleysi og merki um sterkan vinnumarkað (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

2

No filter applied

Tengdar greinar