Hagsjá

Rólegri neysla síðustu mánuði

Hægt hefur á aukningu greiðslukortaveltu Íslendinga síðustu misseri. Í júlí mældist samdráttur upp á 5,3% í veltu erlendis miðað við sama tíma í fyrra. Í vor mældist í fyrsta sinn samdráttur á þennan mælikvarða síðan í febrúar 2013.

20. ágúst 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hægt hefur á aukningu greiðslukortaveltu Íslendinga síðustu misseri. Í júlí mældist samdráttur upp á 5,3% í veltu erlendis miðað við sama tíma í fyrra, mælt á föstu gengi. Í vor mældist í fyrsta sinn samdráttur á þennan mælikvarða síðan í febrúar 2013 og er samdrátturinn í júlí sá mesti síðan í október 2009. Verður þetta að teljast talsverð breyting á því sem var fyrir ári þegar vöxtur mældist hátt í 20% yfir sumarmánuðina.
Ekki varð jafn mikil breyting á kortaveltu Íslendinga í verslunum innanlands. Veltan hér heima yfir sumarmánuðina í ár er mjög svipuð því sem var fyrir ári miðað við fast verðlag. Í júní var aukning upp á 0,6% og í júlí var aukningin 3%. Til samanburðar var aukningin að meðaltali tæp 4% á sumarmánuðunum í fyrra.

Færri flugferðir Íslendinga til útlanda skýra að hluta til minni vöxt í kortanotkun erlendis. Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru í júlímánuði um 9% færri en á sama tíma fyrir ári. Frá falli WOW air hefur mælst samdráttur í fjölda utanlandsferða Íslendinga í hverjum mánuði samanborið við sama mánuð árið á undan, að frátöldum páskaferðum.

Væntingar landsmanna til efnahags- og atvinnuástands versnuðu aðeins í júní samanborið við stöðuna í apríl og maí en þá virtust væntingar vera að glæðast á ný eftir að hafa lækkað nær stöðugt síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í júní mældust hins vegar heldur fleiri svartsýnir en bjartsýnir og þá sérstaklega ef horft er til næstu 6 mánaða.

Vísitala fyrirhugaðra stórkaupa hækkaði örlítið á öðrum ársfjórðungi og var það helst vegna aukningar á fyrirhuguðum húsnæðiskaupum. Vísitalan er byggð á könnun Gallup á væntingum neytenda og tekur mið af fyrirhuguðum bifreiðakaupum, húsnæðiskaupum og utanlandsferðum.

Fyrirhuguð húsnæðiskaup hafa ekki mælst hærri síðan í september 2007. Staðan á fasteignamarkaði hefur verið afar róleg síðustu mánuði og fjöldi viðskipta dregist saman á höfuðborgarsvæðinu en samkvæmt þessu gæti markaðurinn tekið við sér á ný næstu mánuði. Á meðan fleiri hyggja á húsnæðiskaup gerðu ögn færri ráð fyrir bifreiðakaupum og utanlandsferðum á næstunni samanborið við stöðuna í mars.

Landsmenn virðast vera að halda að sér höndum þegar kemur að kaupum á dýrum neysluvörum og flugferðum, ef marka má nýjustu gögn. Raunaukning í smásöluverslun gefur einnig til kynna mun hægari vöxt á fyrstu mánuðum ársins 2019 samanborið við 2018.

Kaupmáttur launa hefur samt sem áður aukist nokkuð stöðugt síðustu misseri, þó hægt hafi á vextinum og getur það verið hluti skýringarinnar. Auk þess hafa væntingar fólks til efnahagsástands næstu mánaða versnað sem leiðir ef til vill til þess að fólk forgangsraðar neyslu sinni öðruvísi.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Rólegri neysla síðustu mánuði (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar