Hagsjá

Fasteignamarkaður áfram í algerri kyrrstöðu

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%.

21. ágúst 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% milli júní og júlí. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,2% og verð á sérbýli hækkaði um 1,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,1% og verð á sérbýli um 2,1%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 2,9%, sem er 0,3 prósentustiga lækkun frá fyrri mánuði.
Árshækkun íbúðarhúsnæðis hefur ekki verið lægri síðan í apríl 2011. Í júlí í fyrra var árshækkunin 5,2% og 19% í júlí 2017. Markaðurinn er því orðinn mjög rólegur í sögulegu samhengi.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,4% milli mánaða í júlí og hækkaði um 2,8% á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á sömu 12 mánuðum. Raunverð fasteigna hækkaði því lítillega milli mánaða, sérstaklega raunverð sérbýlis. Horft yfir lengra tímabil hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án húsnæðiskostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um tæp 10%.

Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í júlí um 0,1% hærra en í júní 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 3,7% fyrir júní 2018 og 22,8% fyrir júní 2017.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í júlí voru þau mestu frá því í janúar. Fjöldi viðskipta fyrstu sjö mánuði ársins 2019 var um 4% minni og á sama tíma fyrir ári og fjöldi viðskipta í júlí í ár var um 5% lægri en í júlí 2018. Fasteignamarkaðurinn hefur því gefið töluvert eftir hvað fjölda viðskipta varðar. Meðalfjöldi viðskipta á fyrstu sjö mánuðum ársins er hins vegar um 6% minni en var á öllu árinu 2018.

Gott sumar hefur ekki farið vel í fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Verð er mjög stöðugt og viðskipti með minnsta móti. Hagfræðideild var á sínum tíma á því að aukið framboð nýrra íbúða, sem að jafnaði eru með hærra fermetraverð, myndi leiða áframhaldandi verðhækkanir á markaðnum. Svo virðist ekki vera, frekar má segja að aukið framboð íbúða haldi aftur af verðhækkunum.

Mikil óvissa í efnahagslífinu dró eflaust úr fasteignaviðskiptum fyrstu mánuði ársins. Þar má bæði nefna óvissu vegna kjarasamninga og áfallið sem hagkerfið varð fyrir í kjölfar gjaldþrots WOW air.

Allt kann þetta að hafa leitt til biðstöðu á markaðnum. Fólk vildi mögulega sjá framtíðina betur fyrir sér áður en stórar ákvarðanir væru teknar.

Vísitala fyrirhugaðra stórkaupa hækkaði örlítið á öðrum ársfjórðungi og var það helst vegna aukningar á fyrirhuguðum húsnæðiskaupum, en vísitalan hefur ekki mælst hærri síðan í september 2007. Nýjustu tölur af fasteignamarkaði sýna að enn er nokkuð í land með að þær væntingar rætist. Mögulega eru margir að bíða eftir skýrum og jákvæðum skilaboðum frá stjórnvöldum varðandi yfirlýsingar um húsnæðismál sem gefnar voru í tengslum við kjarasamningana í vetur.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignamarkaður áfram í algerri kyrrstöðu (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

8

No filter applied

Tengdar greinar