Hagsjá

Leigu- og íbúðaverð þróast í takt

Hægari taktur í þróun íbúðaverðs veldur því að íbúða- og leiguverð hækka nú með sama hraða. Leiguverð hefur hækkað um 3,7% á síðustu 12 mánuðum á meðan kaupverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 3,6%.

24. september 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hægari taktur í þróun íbúðaverðs veldur því að íbúða- og leiguverð hækka nú með sama hraða. Leiguverð hefur hækkað um 3,7% á síðustu 12 mánuðum á meðan kaupverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 3,6%.

Samanburður á fermetraverði samkvæmt þinglýstum samningum í ágúst gefur til kynna að fermetraverð tveggja og þriggja herbergja íbúða sé hæst í vesturhluta Reykjavíkur. Þar leigist tveggja herbergja íbúð að meðaltali á 3.272 kr. á hvern fermetra og þriggja herbergja íbúð á 2.913 kr. á fermetra. Lægsta fermetraverð tveggja herbergja íbúða er að finna á Akureyri, 2.515 kr., og lægsta verð þriggja herbergja íbúða er á Suðurnesjum, 1.754 kr. að meðaltali.

Sé litið á meðalverð fyrir íbúð, þ.e. miðað við meðalstærð og meðalfermetraleiguverð má sjá að þriggja herbergja íbúðir eru dýrastar í Kópavogi á tæplega 225 þús. kr. á mánuði. Á höfuðborgarsvæðinu er leiguverð slíkrar íbúðar á bilinu 185 til 225 þús. kr. á mánuði.
Lægra verð er að finna á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurnesjum leigjast þriggja herbergja íbúðir að meðaltali á rúmlega 170 þús. kr. á mánuði og á Suðurlandi og Akureyri er leiguverðið í kringum 160 þús. kr. á mánuði samkvæmt gögnum ágústmánaðar.

Það eru vísbendingar um að leigumarkaður fari stækkandi næstu misseri. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að byggja upp kerfi leiguíbúða fyrir tekju- og eignalága með úthlutun stofnframlaga. Á árunum 2016-2018 var alls 8,5 mö.kr. úthlutað til kaupa eða uppbyggingar á tæplega 1.600 leiguíbúðum og er áætlað að kerfið stækki enn frekar á næstu árum samkvæmt yfirlýsingum í tengslum við undirritun kjarasamninga sl. vor.

Brotthvarf WOW air og þar með fækkun ferðamanna hefur einnig hugsanlega létt á spennu á leigumarkaði. Þeir ferðamenn sem komu hingað til lands með WOW air nýttu sér íbúðagistingu í marktækt meira mæli en ferðamenn annarra flugfélaga. Fækkun þeirra gæti þar með hafa aukið framboð leigueininga ef við gefum okkur að einhver hluti þeirra íbúða sem nýttar voru til útleigu til ferðmanna hafi skilað sér í almenna leigu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Leigu- og íbúðaverð þróast í takt (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

3

No filter applied

Tengdar greinar