Hagsjá

Launavísitalan óbreytt milli mánaða – eins og við var að búast

Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 2. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, eða um 7,2%. Laun stjórnenda og sérfræðinga hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða um 3,6%. Launavísitalan hækkaði um 5,4% á sama tíma. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks og verkafólks hækkuðu einnig mest á milli 1. og 2. ársfjórðungs 2019. Þessar tölur eru því sterk vísbending um að markmið kjarasamninga á almennum markaði um meiri hækkun lægri launa en þeirra hærri hafi náðst, a.m.k. í fyrstu umferð.

25. september 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var launavísitalan nær óbreytt milli júlí og ágúst. Breytingin á ársgrundvelli var 4,3% sem er álíka mikið og í síðustu tveimur mánuðum. Launahækkunartakturinn er því kominn niður í 4% sem er mikil lækkun frá 6-8% hækkunartakti áranna 2017-2018. Fyrir utan mögulegar hækkanir í samningum opinberra starfsmanna verða almennar hækkanir á almenna markaðnum ekki fyrr en í maí á næsta ári. Þess er því að vænta að hækkunartakturinn fari frekar niður á við en upp á næstu mánuðum.

Kaupmáttur launa hefur verið stöðugur undanfarna mánuði, og jókst lítillega eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur var þannig 1,1% meiri nú í ágúst en í ágúst 2018. Frá áramótum 2014/2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um tæp 26%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Séð í lengri tíma samhengi hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri. Nú í ágúst var kaupmáttur þannig um 25% hærri en hann var mestur á árunum fyrir hrun.

Tölur Hagstofunnar um nánari samsetningu launavísitölunnar koma jafnan mun seinna en vísitalan sjálf. Þannig hefur launavísitalan fyrir ágúst 2019 verið birt en samsetningin nær bara til júní 2019. Því er þó hægt að skoða þróun á fyrri hluta ársins. Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 2. ársfjórðungi 2018 til 2. ársfjórðungs 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru ívið minni en á þeim opinbera. Munurinn nemur u.þ.b. 0,3 prósentustigum.Breyting launa eftir starfsstéttum á einu ári frá 2. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 var mest hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki, 7,2%, og 6,9% hjá verkafólki. Laun stjórnenda og sérfræðinga hækkuðu áberandi minnst á þessu tímabili, eða um 3,6%. Laun annarra starfsstétta hafa hækkað í kringum 5-6% á þessum tíma sem er álíka og hækkun launavísitölunnar sem hækkaði um 5,4% á þeim tíma.

Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks og verkafólks hækkuðu einnig mest á milli 1. og 2. ársfjórðungs 2019. Þessar tölur eru því sterk vísbending um að markmið kjarasamninga á almennum markaði um meiri hækkun lægri launa en þeirra hærri hafi náðst, a.m.k. í fyrstu umferð.

Sé litið til atvinnugreina hækkuðu laun áberandi mest í flutningum og geymslustarfsemi frá 2. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019, eða um 6,7%, sem er vel umfram hækkun launavísitölunnar. Laun í fjármála- og tryggingarstarfsemi hækkuðu áberandi minnst enda komu nýir kjarasamningar á fjármálamarkaðnum ekki til framkvæmda fyrr en á 3. árfjórðungi í ár.

Launavísitala hækkaði um 5,4% milli 2. ársfjórðungs 2018 og 2019. Vísitala heildarlauna hækkaði um 4,9%, eða um hálfu prósentustigi minna en launavísitalan. Þetta sýnir að heildartekjur hafa hækkað minna en dagvinnutekjur, væntanlega fyrst og fremst vegna styttri vinnutíma. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar styttist vinnutími um 0,4 stundir á þessum tíma. Launavístala og vísitala heildarlauna breyttust með svipuðum hætti á milli 1. og 2. ársfjórðungs 2019.

Kjarasamningum hefur verið lokað fyrir mest allan almenna markaðinn og upphaflega lausnin sem kom í byrjun apríl hefur verið fyrirmynd annarra samninga. Niðurstaðan er alls staðar krónutöluhækkanir, kr. 17.000 á mánuði í upphafi tímabils og álíka hækkanir á næstu árum.

Lítið hefur gerst í samningaviðræðum opinberra starfsmanna eftir að viðræður hófust eftir sumarfrí. Frá sumum hópum hefur heyrst að ekki sé mikill áhugi á að nota krónutölusamningana frá almenna markaðnum sem fyrirmynd og svo virðist sem unnið sé að lausnum í sambandi við styttingu á vinnutíma.

Ekki er að sjá að mikið launaskrið sé í gangi og því má vænta tiltölulega rólegrar þróunar á almenna markaðnum fram í maí þegar næstu áfangahækkanir samkvæmt samningum taka gildi.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Launavísitalan óbreytt milli mánaða – eins og við var að búast (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

3

No filter applied

Tengdar greinar