Hagsjá

Fleiri merki um dalandi styrkleika vinnumarkaðar

Atvinnuleysi er að aukast. Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi 4,2% í ágúst og jókst úr 2,5% í júlí. Atvinnuleysi í ágúst í fyrra var 2,5%. Skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var 3,5% í ágúst og 3,4% í júlí. Skráð atvinnuleysi í ágúst 2018 var 2,3% og hefur það því aukist um 1,2 prósentustig á einu ári. Meðaltal skráðs atvinnuleysis síðustu 12 mánuði var 3,1% sem er sama tala og mælingar Hagstofunnar sýna.

1. október 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Áætlað er að um 204 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í júlí 2019 samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar, sem jafngildir 79,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru tæplega 196 þús. starfandi og 8.600 atvinnulausir. Atvinnulausir voru því um 3.500 fleiri en var í ágúst 2018. Atvinnuleysi var 4,2% af vinnuafli í ágúst, en var 2,5% í ágúst í fyrra.

Starfandi fólki fækkaði um tæplega 13.000 manns milli júlí og ágúst sem er óvenju mikil sveifla. Starfandi voru 6.800 færri nú í ágúst en var í ágúst 2018. Sveiflur milli mánaða í könnun Hagstofunnar eru oft miklar og sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða fækkaði fjölda starfandi um 0,2% milli júlí og ágúst. Starfandi fólki á vinnumarkaði er því ekki að fjölga mikið eins og reyndin hefur verið síðustu misseri.

Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar var atvinnuleysi 4,2% í ágúst og jókst úr 2,5% í júlí. Atvinnuleysi í ágúst í fyrra var 2,5%. Sé litið á meðaltal síðustu 12 mánaða var atvinnuleysi 3,1% í ágúst og hafði aukist um 0,3 prósentustig frá áramótum. Skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var 3,5% í ágúst og 3,4% í júlí. Skráð atvinnuleysi í ágúst 2018 var 2,3% og hefur það því aukist um 1,2 prósentustig á einu ári. Meðaltal skráðs atvinnuleysis síðustu 12 mánuði var 3,1% sem er sama tala og mælingar Hagstofunnar sýna. Allt frá árinu 2012 fram á mitt ár 2019 hafa tölur Hagstofunnar um 12 mánaða atvinnuleysi verið mun hærri en tölur Vinnumálastofnunar þannig að nú hefur orðið breyting á.
Atvinnuþátttaka í ágúst var 79,5% og minnkaði um 3,9 prósentustig frá júlímánuði og um 2,8 prósentustig frá ágúst í fyrra. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,4 prósentustig frá ágúst 2018 til sama tíma 2019 og hefur því einnig farið minnkandi á þann mælikvarða.

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 40,4 stundir í ágúst sem óbreytt frá fyrra ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í ágúst 38,9 stundir sem er 0,3 stundum styttri en í ágúst 2018. Þessi stærð er óbreytt frá júlí og þetta er stysti vinnutíminn á þennan mælikvarða í fjölda ára.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman mánuð fyrir mánuð jókst vinnuaflsnotkun nær samfellt frá árslokum 2017, nema í febrúar í ár. Nú í júlí minnkaði vinnuaflsnotkun (eða fjöldi unninna stunda) um 0,4% frá í júlí 2018 og nú í ágúst var vinnuaflsnotkun 2,9% minni en í ágúst í fyrra. Starfandi fólki fækkaði um 2,9% á tímabilinu, og vinnutími var óbreyttur milli ára. Fækkun unninna stunda skýrist því einvörðungu af fækkun starfandi fólks á vinnumarkaði.

Fyrr á árinu var reiknað með auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Tölur Hagstofunnar hafa sveiflast mikið að vanda, en langtímaþróunin er hæg upp á við. Skráð atvinnuleysi er nú 0,8 prósentustigum hærra en það var í lok ársins 2018 og langtímaþróunin því einnig upp á við þar. Vinnuaflsnotkun í ágúst var nokkuð minni en fyrir ári síðan.

Uppsagnir í september voru verulega fleiri en hefur verið í langan tíma, bæði nokkrar stórar og svo fleiri minni. Það er því líklegt að afleiðingar þess muni koma fram í tölum um atvinnuleysi á næstu mánuðum. Staðan á vinnumarkaðnum er auðvitað mjög nátengd hagsveiflunni og spurningin um hvort hagkerfið nái að rétta úr sér á næsta ári skiptir miklu fyrir vinnumarkaðinn.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fleiri merki um dalandi styrkleika vinnumarkaðar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar