Hagsjá

Fjáraukalög 2019 - ágætar horfur fyrir árið miðað við það sem vænta mátti

Samkvæmt fjárlögum árisins 2019 var heildarjöfnuður ríkissjóðs 28,6 ma. kr. Um það leyti sem fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 var lagt fram var reiknað með að halli yrði á rekstri ríkissjóðs um 8,8 ma. kr. á árinu 2019. Þessar horfur um afkomu hafa nú verið endurmetnar og nú er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði lakari á árinu og verði neikvæð um 14,8 ma. kr.

12. nóvember 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt fjárlögum árisins 2019 var heildarjöfnuður ríkissjóðs 28,6 ma. kr. Afkomuhorfur ársins versnuðu töluvert í upphafi ársins í takt við neikvæð tíðindi í efnahagsmálum. Þar má nefna loðnubrest, áföll í flugrekstri og fækkun ferðamanna. Þetta varð til þess að gildandi fjármálastefna var endurskoðuð sl. vor sem aftur hafði áhrif á fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024.Um það leyti sem fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 var lagt fram var reiknað með að halli yrði á rekstri ríkissjóðs um 8,8 ma. kr. á árinu 2019. Þessar horfur um afkomu hafa nú verið endurmetnar í ljósi nýrra upplýsinga, t.d. úr nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Nú er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði lakari á árinu og verði neikvæð um 14,8 ma. kr.

Breytingin frá fjárlögum ársins þar til nú er því úr 28,6 ma. kr. afgangi niður í 14,8 ma. kr. halla. Breytingin niður á við nemur rúmum 43 mö. kr. Breytingin á heildarjöfnuði fer úr +1% af landsframleiðslu niður í -0,5% af landsframleiðslu. Í fyrra var niðurstaða fjáraukalaga einnig neikvæð, þá upp á rúma 26 ma. kr., þannig að áhrif fjáraukalaganna á niðurstöðu ríkissjóðs eru enn töluverð þrátt fyrir að þau megi nota í færri tilefnum en áður var.

Sé miðað við stöðuna frá því í sumar er meginskýring lakari afkomu nú mun lægri tekjur en voru áætlaðar þá. Heildartekjur ársins 2019 eru nú áætlaðar 862,2 ma. kr., sem eru 29,6% af VLF. Lækkunin frá fjárlögum ársins 2019 nemur tæplega 30 mö. kr.

Þar af lækka skattar og tryggingagjöld um tæplega 22 ma. kr. frá fjárlögum. T.d. lækkar fjármagnstekjuskattur um 6,2 ma. kr. og tekjuskattur lögaðila um 5,5 ma. kr. Þrátt fyrir áföllin í efnahagslífinu er gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga verði 1,1 ma. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Reiknað er með að virðisaukaskattur og aðrir óbeinir skattar lækki um 8,3 ma. kr. frá fjárlögum. Sú breyting helst í hendur við fækkun ferðamanna og minni vöxt einkaneyslu en reiknað var með. Hagstofan áætlar nú að einkaneysla hækki um 1,8% á árinu í stað 3,6% líkt og reiknað var með í upphafi ársins.

Tekjur af arði frá fyrirtækjum í eigu ríkisins lækka um 5,6 ma. kr., aðallega vegna þess að arðgreiðslur fjármálafyrirtækja verða 7,1 ma. kr. lægri en reiknað var með. Arður frá Landsvirkjun verður hins vegar 1,5 ma. kr. meiri.

Sé litið á útgjaldahliðina hækka framlög vegna vinnumála og atvinnuleysis um 7,6 ma. kr. vegna aukins atvinnuleysis og aukins kostnaðar Ábyrgðasjóðs launa. Framlög til málefna aldraðra hækka einnig um 5,4 ma. kr. vegna dóms um ólögmætra skerðingu ríkissjóðs. Framlag til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu er aukið um 2,5 ma. kr. sem lækkar rekstarvanda Landspítalans í 4 ma. kr. Áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs eru lækkuð um 1.000 m. kr. frá fjárlögum, aðallega vegna lægra vaxtastigs og verðbólgu.

Að teknu tilliti til lækkunar vaxtagjalda er áætlað að heildarútgjöld ríkissjóðs á þjóðhagsgrunni nemi um 877 mö. kr. á árinu og verði um 13,6 mö. kr. hærri en áætlun fjárlaga.

Stjórnvöld tóku strax ákvörðun um það sl. vetur að slaka á kröfum um afkomu ríkissjóðs á árinu. Í framhaldi af því var fjármálastefnu hins opinbera breytt og sama má segja um fjármálaáætlun. Í nýju áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur fram að slökun í aðhaldi ríkisfjármála hafi átt þátt í því að það tókst að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og milda áhrif þeirra áfalla sem það varð fyrir sl. vetur. Það eru jákvæð orð í garð ríkissjóðs, en spurningin er hvort ekki þurfi að halda áfram á sömu braut hvað ríkisfjármálin og opinberar fjárfestingar á næsta ári varðar.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fjáraukalög 2019 - ágætar horfur fyrir árið miðað við það sem vænta mátti (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5

No filter applied

Tengdar greinar