Hagsjá

Launþegum fækkar mikið í lykilgreinum

Miklar sviptingar hafa verið hvað varðar fjölda launþega í íbúðabyggingum og ferðaþjónustu á síðustu árum með mikilli og stöðugri aukningu fram til 2017. Síðan hefur dregið úr fjölgun og launþegum ferðaþjónustu tók að fækka frá fyrra ári strax í febrúar 2019.

19. nóvember 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Hagstofunnar fækkaði launþegum hér á landi um rúmlega 1% milli september 2018 og 2019. Eins og vænta má eru breytingarnar mismunandi eftir atvinnugreinum. Mest var hlutfallsleg fækkun í greinum tengdum flugi, en einnig fækkaði töluvert í mannaflsfrekum greinum eins og flutningum og geymslu, mannvirkjagerð og veitingarekstri.

Sé litið til hlutfallslegrar fjölgunar á sama tímabili er hún mest í fræðslustarfsemi og opinberri þjónustu. Þar á eftir koma rafmagns- og hitaveitur og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Þarna er einungis um að ræða samanburð á milli tveggja tímapunkta fyrir mis mannfrekar greinar þannig að þessar myndir sýna aðeins hluta af sögunni.

Hér verða sýndar breytingar í fjölda launþega síðustu ár fyrir nokkrar valdar greinar sem hafa verið mikið í umræðunni. Litið verður á allan markaðinn: viðskiptahagkerfið, íbúðabyggingar, fjármála- og tryggingastarfsemi, fræðslu og opinbera þjónustu og að lokum einkennandi greinar ferðaþjónustu.

Séu allar þessar greinar skoðaðar saman kemur mikill breytileiki í ljós. Greinilegt er að mestar sviptingar hafa verið í íbúðabyggingum og ferðaþjónustu á þessu tímabili, sem kemur ekki á óvart. Þróunin í hinum greinunum hefur verið öllu jafnari.

Launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu tók að fækka frá fyrra ári strax í febrúar 2019 eftir að dregið hafði stöðugt úr fjölgun í greininni frá því í upphafi ársins 2017. Nú í september voru u.þ.b. 2.100 færri launþegar í þessum greinum en var í janúar, sem er um 8% fækkun. Launafólki við íbúðabyggingar fór fyrst að fækka í ágúst, um 1,4% og fækkaði svo aftur um 5,6% nú í september.
Þróunin yfir tíma er svipuð í þessum tveimur greinum á tímabilinu. Sveiflan í íbúðabyggingum er reyndar mun meiri á þessu tímabili og enn meiri munur er ef litið er lengra aftur í tímann. Samanborið við viðskiptahagkerfið má glöggt sjá að fjölgun launafólks í þessum tveimur greinum er töluvert frábrugðin því sem var að gerast á markaðnum bróðurpart þessa tíma, þó að þróunin niður á við á síðustu mánuðum sé keimlík.

Sé litið á aðrar greinar í þessu úrtaki má sjá að þróunin er öllu jafnari og þarf þá að hafa í huga að annar kvarði er á þeirri mynd en þeim fyrri. Fræðsla og opinber þjónusta sker sig nokkuð úr með miklar sveiflur og töluverða fjölgun í seinni tíð. Sama má segja um fjármála- og tryggingakerfið. Þar eru sveiflur töluverðar, en þó jöfn fækkun yfir lengri tíma: línan er yfirleitt fyrir neðan núllið. Fækkunin á síðasta ári er t.d. 3,3%.

Þessi stutta yfirferð sýnir íslenskan vinnumarkað í hnotskurn. Einstakar greinar geta tekið mikil stökk á stundum hvað vinnuaflsnotkun varðar, bæði upp á við og niður á við. Það kemur ekki á óvart að þróunin hefur verið nokkur niður á við á síðasta ári og rímar 3,9% fækkun launþega í viðskiptahagkerfinu ágætlega við þróunina í hagkerfinu á þessu ári.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Launþegum fækkar mikið í lykilgreinum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar