Hagsjá

Íbúðaverð hækkaði um 0,5% í október

Íbúðaverð hækkaði um 0,5% milli mánaða í október. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð þar sem íbúðaverð hækkar um meira en hálft prósentustig milli mánaða.

20. nóvember 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,5% milli september og október. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,8% en verð á sérbýli lækkaði um 0,5%. Talsvert flökt getur verið á verðþróun milli einstakra mánaða, sérstaklega á sérbýli, og því ekki óalgengt að það mælist af og til lækkun á því milli mánaða.
Þetta er þriðji mánuðurinn í röð þar sem vegin hækkun íbúðaverðs milli mánaða mælist meira en hálft prósentustig. Það er töluverð breyting frá því sem mældist á vor- og sumarmánuðum þegar fasteignarmarkaðurinn var nær kyrrstæður. Í gær greindum við frá því að fjöldi viðskipta á höfuðborgarsvæðinu í október var sá mesti síðan í júní 2007.

Það eru því ákveðin teikn á lofti um að spenna sé að aukast á húsnæðismarkaði og eftirspurnin að taka við sér sem að óbreyttu veldur þrýstingi á verðlag. Hækkanirnar eru þó mjög hóflegar enn sem komið er og markaðurinn því nokkuð stöðugur.

Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,7% og verð á sérbýli um 3,3%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs í október var því um 3,6% sem er 0,1 prósentustigi meira en í september og ekki mikið í sögulegu samhengi. Í október í fyrra mældist árshækkunin 4,1% en árið 2017 var hækkunin tæp 18%.

Þjóðskrá birti á dögunum tölur um það hversu margir eru að kaupa sína fyrstu íbúð og út frá því er hægt að sjá hversu stór hluti fyrstu kaupendur eru af kaupendahópnum hverju sinni. Gögnin ná frá upphafi árs 2008 og má sjá að hlutfall fyrstu kaupenda hefur sífellt aukist, bæði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess.

Nýjustu gögn benda til þess að góður gangur sé á þróun íbúðamarkaðarins eftir afar rólega mánuði fyrr á árinu. Viðskipti á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið fleiri í áraraðir, íbúðaverðshækkanir eru samt sem áður hóflegar og hlutfall fyrstu kaupenda hefur aukist um land allt. Það er ljóst að engin lægð er lengur yfir markaðinum og ef fram heldur sem horfir má búast við stöðugum en rólegum vexti næstu misserin. Í nýútgefinni þjóðhagsspá Hagfræðideildar spáðum við 3,6% hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í ár og 4,5% á því næsta.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Íbúðaverð hækkaði um 0,5% í október (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5

No filter applied

Tengdar greinar