Hagsjá

Leiguverð lækkar milli mánaða

Leiguverð hefur lækkað milli mánaða á höfuðborgarsvæðinu í tvo mánuði í röð. Bæði leigu- og íbúðaverð þróast nú með afar rólegum hætti.

23. desember 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 0,2% milli október og nóvember. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem mælist lækkun milli mánaða, en í október lækkaði leiguverð um 0,3% frá fyrri mánuði.
Árshækkun leiguverðs í nóvember var því 2,0% og hefur ekki mælst lægri síðan í júlí 2015. Til samanburðar mældist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs í fjölbýli 2,6% í sama mánuði en íbúðaverð hafði einnig lækkað í nóvember. Það má því segja að bæði íbúðaverð og leiguverð þróist með afar rólegum hætti um þessar mundir.

Samanburður á fermetraverði nýrra samninga í nóvember gefur til kynna að fermetraverð tveggja herbergja íbúða sé hæst í úthverfum í norðurhluta Reykjavíkur. Þar leigist tveggja herbergja íbúð að meðaltali á 3.186 kr./fm. Fermetraverð þriggja herbergja íbúða er hæst í vesturhluta Reykjavíkur. Þar leigist þriggja herbergja íbúð að meðaltali á 2.776 kr./fm. Hér kann að skipta máli mismunandi meðalstærð íbúða eftir svæðum en fermetraverð er jafnan hærri eftir því sem íbúðir eru minni að öðru óbreyttu. Lægsta fermetraverð tveggja og þriggja herbergja íbúða er að finna á Suðurlandi. Þar leigist tveggja herbergja íbúð á 2.140 kr./fm. að meðaltali, og þriggja herbergja íbúð á 1.686 kr./fm. að meðaltali.

Ef litið er til breytinga á meðalfermetraverði í einstaka hverfum frá því í nóvember 2018 má sjá að verð þriggja herbergja íbúða lækkaði mest á Suðurnesjum um 15% milli ára. Í öllum hverfum sem til skoðunar eru innan höfuðborgarsvæðisins lækkaði verð á þriggja herbergja íbúðum á bilinu 1-4%, nema í Garðabæ og Hafnarfirði þar sem verð hækkaði um 4%. Tveggja herbergja íbúðir ýmist hækkuðu eða lækkuðu í verði milli ára. Mest varð lækkunin 12% í Garðabæ og Hafnarfirði en hækkunin varð mest í Breiðholti, um 12%.

Líkt og á fasteignamarkaði virðist hafa létt á spennu á leigumarkaði og lækkanir víða gert vart við sig sem er kærkomin fyrir marga leigjendur. Nýlega birt gögn Hagstofunnar úr lífskjararannsókn þeirra benti nefnilega til þess að í fyrra bjuggu hátt í 20% leigjendur við íþyngjandi húsnæðiskostnað, þ.e. greiddu a.m.k. 40% ráðstöfunartekna í leigu. Hægari hækkunartaktur og jafnvel lækkun leiguverðs, ásamt auknu framboði af leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum í takt við aðgerðir stjórnvalda í tengslum við undirritun lífskjarasamninga, verður vonandi til þess að það hlutfall hafi lækkað á yfirstandandi ári.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Leiguverð lækkar milli mánaða (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

7

No filter applied

Tengdar greinar