Hagsjá

Skráð atvinnuleysi jókst mikið á síðasta ári

Sé litið á breytingu á atvinnuleysi á árinu 2019 skera Suðurnesin sig verulega úr. Þar tvöfaldaðist hlutfall atvinnulausra af vinnuafli og hækkaði úr 4,3% í árslok 2018 upp í 8,7% í árslok 2019. Aukningin nemur 4,4 prósentustigum en næst mesta aukningin var á höfuðborgarsvæðinu, 1,6 prósentustig Minnst var aukningin á Norðurlandi vestra og Austurlandi, 0,4 prósentustig.

17. janúar 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Skráð atvinnuleysi var 3,6% á síðasta ári og jókst úr 2,4% á árinu 2018. Eins og oft áður var atvinnuleysi mest á Suðurnesjum, 6,4% að meðaltali á árinu og tvöfalt meira en á árinu 2018. Næst mesta atvinnuleysið var á höfuðborgarsvæðinu, 3,7%.

Atvinnuleysi var tiltölulega svipað á Suðurnesjum og annars staðar á landinu á árunum 2016 og 2017. Nú aftur dregið í sundur og skera Suðurnesin sig úr líkt og var á árunum eftir hrun. Suðurnesin eru mun háðari ferðaþjónustu en önnur svæði landsins og því hefur samdráttur í þeirri grein haft meiri áhrif en á öðrum svæðum.
Skráðum atvinnulausum fjölgaði mikið á árinu og voru þeir um 8.600 í árslok og hafði fjölgað úr 5.300 á einu ári, eða um 3.300 manns. Í árslok 2019 voru karlar 56% skráðra atvinnulausra og konur 44%.

Það er athyglisvert að atvinnulausum fjölgaði ekkert frá apríl fram í september sem sýnir að árstíðasveiflan skiptir töluverðu máli. Á það sérstaklega við um ferðaþjónustuna sem leikur auðvitað stórt hlutverk í aukningu atvinnuleysis í ár.

Þó mun fleiri karlar séu atvinnulausir en konur var staðan engu að síður sú um síðustu áramót að hlutfall skráðra atvinnulausra karla og kvenna var svipað, 4,4% hjá körlum og 4,2% hjá konum. Þessi munur á tölum kemur til af því að karlar á vinnumarkaði eru mun fleiri en konur. Á síðustu árum hefur atvinnuleysi kvenna yfirleitt verið hærra en karla, en sá munur hefur minnkað mikið á síðustu misserum.

Meðalatvinnuleysi kvenna á síðasta ári er mun meira en karla á Suðurnesjum, á Austurlandi og á Suðurlandi. Hlutfallið er jafnara á öðrum svæðum og á höfuðborgarsvæðinu var það jafnt fyrir konur og karla í fyrra.

Sé litið á breytingu á atvinnuleysi á árinu kemur ekki á óvart að Suðurnesin skera sig verulega úr. Þar tvöfaldaðist hlutfall atvinnulausra af vinnuafli og hækkaði úr 4,3% í árslok 2018 upp í 8,7% í árslok 2019. Aukningin nemur 4,4 prósentustigum en næst mesta aukningin var á höfuðborgarsvæðinu, 1,6 prósentustig. Minnst var aukningin á Norðurlandi vestra og Austurlandi, 0,4 prósentustig.

Á síðustu 12 mánuðum hefur skráðum atvinnulausum fjölgað um 62%. Þar af hefur atvinnulausum íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 50% og erlendum ríkisborgurum um 84%. Fjöldi atvinnulausra erlendra ríkisborgara tvöfaldaðist frá því í nóvember 2018 til ársloka 2019.

Í lok desember 2018 voru erlendir ríkisborgarar 34,5% af heildarfjölda atvinnulausra. Í árslok 2019 var þetta hlutfall komið yfir 40%. Á 3. ársfjórðungi voru erlendir ríkisborgarar rúmlega 13% þjóðarinnar. Þótt sú tala sýni ekki einungis fólk á vinnumarkaðsaldri er augljóst að hlutfall atvinnulausra erlendra ríkisborgara er mun hærra en innfæddra.

Eins og áður segir er stór hluti þeirra starfa sem tapaðist á síðasta ári í ferðaþjónustu. Hér er gjarnan um að ræða tiltölulega ný störf sem sköpuðust á uppgangstíma ferðaþjónustunnar á síðustu árum. Staðan í hagkerfinu á þeim tíma var einfaldlega sú að ekki var hægt að manna þessi nýju störf nema með erlendu starfsafli. Eftir fall WOW air og afleiðingar þess á ferðaþjónustuna lá nokkuð beint við að það yrðu fyrst og fremst þessi nýju störf sem myndu tapast í niðursveiflunni.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Skráð atvinnuleysi jókst mikið á síðasta ári (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

12

No filter applied

Tengdar greinar