Hagsjá

Atvinnuleysi hefur ekki aukist eins mikið og ætla mátti samkvæmt tölum Hagstofunnar

Meðalatvinnuleysi á árinu 2019 var 3,6%, bæði samkvæmt mælingum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar. Á undanförnum árum hefur atvinnuleysi samkvæmt úrtakskönnun Hagstofunnar yfirleitt verið meira en skráð atvinnuleysi. Þessi munur hefur heldur minnkað á síðustu árum og var enginn á síðasta ári.

29. janúar 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að um 207 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í desember 2019, sem jafngildir 81% atvinnuþátttöku. Af þeim voru u.þ.b. 201 þús. starfandi og 6.700 atvinnulausir. Starfandi fólki fjölgaði að meðaltali um 2.600 manns á milli áranna 2018 og 2019 eða um 1,3%. Þetta er mun minna en fjölgunin árið á undan þegar hún var 2,3%.

Meðalatvinnuleysi á árinu 2019 var 3,6%, bæði samkvæmt mælingum Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar. Á undanförnum árum hefur atvinnuleysi samkvæmt úrtakskönnun Hagstofunnar yfirleitt verið meira en skráð atvinnuleysi. Þessi munur hefur heldur minnkað á síðustu árum og var enginn á síðasta ári.
Síðustu fimm ár hafa tölur Hagstofunnar sýnt að meðaltali 3,2% atvinnuleysi á meðan tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi sýna 2,7%. Tölur Hagstofunnar voru hærri öll árin. Skráð atvinnuleysi hefur aukist stöðugt á seinni hluta ársins, sem er í góðu samræmi við umræðuna í samfélaginu. Niðurstöður Hagstofunnar sýna hins vegar að atvinnuleysi hafi verið nokkuð stöðugt síðustu fjóra mánuði ársins. Tölur Hagstofunnar sveiflast jafnan mikið á milli mánaða þannig að síðustu tölur þaðan eru frekar óvenjulegar miðað við tölur síðustu ára. Hugsanlegt er að þróunin í átt til minni atvinnu komi jafnframt fram í tölum um minnkandi atvinnuþátttöku.

Meðalatvinnuþátttaka á árinu 2019 var 81% samanborið við 81,7% á árinu 2018 og 82,6% á árinu 2017. Atvinnuþátttakan hefur því minnkað nokkuð stöðugt á síðustu misserum og var undir 80% í lok ársins. Það er ekki ólíklegt að tölur um minnkandi atvinnuþátttöku sýni að einhverju leyti aukið atvinnuleysi. Tölur úr úrtakskönnunum Hagstofunnar um atvinnuleysi hafa ekki fylgt tölum um skráð atvinnuleysi á síðustu mánuðum og því ekki ólíklegt að verri staða á vinnumarkaði komi að einhverju leyti fram í tölum um atvinnuþátttöku.

Sé litið á vinnutíma þá var meðalvinnutími ársins 2019 sá sami og var á árinu 2018. Starfandi fólki fjölgaði hins vegar að meðaltali um 2,2% milli ára þannig að fjöldi unninna stunda jókst á milli ára.

Sé litið á þessa þróun eftir ársfjórðungum er staðan sú að starfandi fólki fjölgaði um 0,4% á milli 4. árfjórðungs 2018 og 2019. Meðalvinnutími lengdist um 1% frá sama tíma og í fyrra og heildarvinnuaflsstungum fjölgaði því um 1,4% frá 4. ársfjórðungi síðasta árs. Vinnuaflsnotkun hefur aukist nær samfellt allt frá árinu 2012, mestmegnis vegna þess að starfandi fólki hefur fjölgað á vinnumarkaði. Svo virðist sem sköpun starfa hafi haldist nokkuð vel í hendur við fjölgun á vinnumarkaði á þessum tíma.

Snemma á árinu 2019 var reiknað með að atvinnuleysi myndi aukast töluvert eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þróunin hefur sem betur fer verið hægari en reiknað var með. Skráð atvinnuleysi hefur að vísu aukist um rúmt eitt og hálft prósentustig frá síðustu mánuðum ársins 2018, en atvinnuleysi samkvæmt tölum Hagstofunnar var ekki mikið meira í lok ársins 2019 og var á sama tíma 2018.

Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu mánuðum, en almennt er reiknað með því að á árinu 2020 taki aftur að birta yfir efnahagslífinu og að atvinnustigið muni þá batna.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi hefur ekki aukist eins mikið og ætla mátti samkvæmt tölum Hagstofunnar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar