Hagsjá

Staða ferðaþjónustu hefur veruleg áhrif á atvinnustig í landinu

Í október sl. var hæsta hlutfall atvinnulausra var að finna hjá ferðaskrifstofum og í flutningum með flugi. Bygging húsnæðis og veitingasala komu skammt þar á eftir. Það er athyglisvert að þær greinar sem hér eru sýndar eru allar úr ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi.

11. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Atvinnuleysi hefur aukist töluvert á síðustu mánuðum og var skráð atvinnuleysi 4,8% í janúar, en var að meðaltali 3,6% á síðasta ári. Sé litið á fjölda atvinnulausra kemur ekki á óvart að mestan fjölda er oft að finna meðal stærstu atvinnugreinanna.
Á árinu 2019 voru að meðaltali um 550 manns atvinnulausir í smásöluverslun og um 480 í veitingasölu. Nokkuð þar á eftir koma gististaðir, heildverslun og ferðaskrifstofur hvað fjölda varðar. Allar þessar greinar eru í verslun og ferðaþjónustu.

Sé hins vegar reynt að áætla hlutfall atvinnuleysis í einstökum greinum út frá tölum Hagstofunnar um fjölda launþega kemur önnur mynd í ljós. Staðan í október sl. sýnir að hæsta hlutfall atvinnulausra var að finna hjá ferðaskrifstofum og í flutningum með flugi. Bygging húsnæðis og veitingasala komu skammt þar á eftir. Það er athyglisvert að þær greinar sem hér eru sýndar eru allar úr verslun, ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi.

Á árinu 2018 hafði fjöldi launþega í einkennandi greinum ferðaþjónustu ríflega tvöfaldast frá árinu 2008. Samanborið við aðrar greinar er þetta verulega mikil aukning, t.d. varð 16% aukning á fjölda fólks í viðskiptahagkerfinu á þessum tíma. Á árinu 2018 voru launþegar við byggingu húsnæðis um 6% færri en var 2008, en þeim hafði fækkað um 60% frá 2008 til 2011. Örðugleikar í ferðaþjónustu hafa því veruleg áhrif á atvinnustig hér á landi eins og staðan er nú. Greinin lenti í miklu áfalli fyrir ári síðan vegna gjaldþrots WOW air og nú er það fækkun ferðamanna vegna COVID-19 veirunnar sem veldur erfiðleikum í greininni.

Skráð atvinnuleysi jókst töluvert á seinni hluta síðasta árs. Á síðustu mánuðum hafa tvær greinar, ferðaþjónusta og bygging húsnæðis skorið sig nokkuð úr. Atvinnuleysi tók stökk upp á við í ferðaþjónustu sl. vor, minnkaði mikið yfir sumarið, en tók svo að aukast aftur. Atvinnuleysi við byggingu húsnæðis hefur aukist verulega frá því í haust.

Á síðustu árum hefur hlutfall erlendra launþega af fjölda atvinnulausra aukist töluvert og er nú komið yfir 40%. Þetta á ekki að koma á óvart þar sem erlent starfsfólk er oft eins konar jaðarvinnuafl, kemur til landsins þegar störf er að fá. Hluti þess ílengist hér á landi og aflar sér réttinda á vinnumarkaði, en hluti kemur og fer.

Sé litið á hlutfall erlendra starfsmanna (þ.e.a.s. þeirra sem ekki eru með lögheimili á Íslandi) af fjölda launþega í nokkrum greinum kemur ekki á óvart að hlutfallið er tiltölulega hátt í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. Það er mikil sveifla í hlutfalli útlendinga í ferðaþjónustu eftir árstíðum - þeir eru hlutfallslega margir á háönn á sumrin og mun færri á lágönn yfir veturinn. Sú staða hefur svo áhrif á hlutfall erlendra starfsmanna á öllum vinnumarkaðnum.

Það vekur líka athygli að hlutfall erlendra starfsmanna í byggingarstarfsemi hefur farið nær stöðugt minnkandi frá miðju ári 2017 og það þrátt fyrir að byggingarstarfsemi hafi verið mikil allt tímabilið.

Í ljósi mikillar fjölgunar starfsmanna í ferðaþjónustu á síðustu árum er ljóst að áhrif áfalla í greininni á atvinnustig verða mikil. Þó virðist sem svo að töluverður sveigjanleiki sé í greininni sem sést á því að fjöldi erlends vinnuafls kemur inn í greinina á háönn og hverfur úr henni yfir vetrartímann.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Staða ferðaþjónustu hefur veruleg áhrif á atvinnustig í landinu (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar