Hagsjá

Ríkisfjármálin fá nú álíka mikilvægt hlutverk og 2008

Sá skellur sem er nú að lenda á þjóðarbúinu minnir um sumt á það sem gerðist haustið 2008 hvað ríkissjóð varðar. Þá fékk ríkissjóður heilt bankakerfi í fangið ásamt fleiri vandamálum. Árið 2008 var halli á rekstri ríkissjóðs upp á tæpa 300 ma. kr. á verðlagi ársins 2019, þannig að 100 ma. kr. hallinn sem fjármálaráðherra hefur nefnt er ekki mikill í því samhengi.

20. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Nú er tæpur mánuður síðan stjórnvöld kynntu átak um að flýta innviðaframkvæmdum fyrir 27 ma. kr. í flutnings- og dreifikerfi raforku og í ofanflóðavörnum. Umfangið á þessu átaki er ekki mikið í ljósi þeirra útgjalda sem ríkissjóður stendur nú frammi fyrir vegna fordæmalausra aðstæðna í efnahagslífinu. Fjármálaráðherra hefur þegar nefnt að halli á ríkissjóði geti orðið um 100 ma. kr. í ár.

Þessi skyndilegi skellur minnir um sumt á það sem gerðist haustið 2008 hvað ríkissjóð varðar. Þá fékk ríkissjóður heilt bankakerfi í fangið ásamt fleiri vandamálum.

Á árinu 2008 var halli á rekstri ríkissjóðs upp á tæpa 300 ma. kr. á verðlagi ársins 2019 , þannig að 100 ma. kr. hallinn sem fjármálaráðherra hefur nefnt er ekki mikill í því samhengi. Á árunum 2008-2013 varð samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs upp á tæpa 900 ma. kr. á verðlagi ársins 2019. Ríkissjóður hefur reyndar fengið töluvert til baka af þeim eiginfjárframlögum sem lögð voru til bankanna, t.d. stöðugleikaframlag upp á rúma 380 ma. kr. á árinu 2016 á þáverandi verðlagi, auk mikilla arðgreiðslna.
Fjárlög voru samþykkt í desember með tæplega 10 ma. kr. halla. Það er ljóst að fjárlög halda ekki í ár. Þá er einnig ljóst að það þarf að breyta fjármálastefnu ríkisstjórnar annað árið í röð og að nú þarf miklar breytingar á bæði stefnunni og næstu fjármálaáætlunum.

Skuldir ríkissjóðs tóku stökk upp á við strax á árinu 2008 og héldu áfram að aukast allt fram til ársins 2011. Á árinu 2007 voru skuldir ríkissjóðs um 25% af vergi landsframleiðslu. Hlutfallið fór upp í 88% á árinu 2011 en síðan hefur það farið stöðugt lækkandi og var um 34% á árinu 2019. Sé litið á upphæðir í þessu sambandi voru skuldirnar um 580 ma. kr. á árinu 2007 á verðlagi ársins 2019 og fóru upp í u.þ.b. 1.920 ma. kr. á árinu 2011. Í fyrra námu þær um 1.000 ma. kr.

Þó skuldastaðan sé ívið hærri nú en 2007 er hún samt mjög góð, þannig að ríkissjóður er í tiltölulega góðri stöðu til þess að taka aftur á sig skell líkt og þann sem framundan er.

Þrátt fyrir að ríkissjóður þurfi að taka á sig mikinn bagga á næstunni er mikilvægt að það bitni sem allra minnst á opinberum fjárfestingum, sérstaklega í innviðum. Við sáum greinilega í óveðrinu í desember hve miklu máli innviðirnir skipta. Innviðir samfélagsins eru grundvöllur hagvaxtar og gjaldeyrissköpunar þjóðarbúsins. Samkvæmt átakshópi um innviðaframkvæmdir nam beint tjón raforkufyrirtækja, fjarskiptafyrirtækja og stofnana ríkisins um einum milljarði króna í óveðrinu í desember.

Nú hefur samgönguráðherra lagt fram frumvarp um sex samgönguframkvæmdir á þjóðvegakerfinu þar sem gert er ráð fyrir mikilli þátttöku einkaaðila og samstarfi við þá. Það er mikilvægt að opinberir aðilar beiti sér með öflugum hætti hvað þjóðhagslega arðbær fjárfestingarverkefni varðar.

Á árunum 2000-2009 var opinber fjárfesting að meðaltali 4,4% af VLF. Hlutfallið lækkaði mikið á árunum 2008 og 2009 og hefur haldist nokkuð lágt síðan. Opinber fjárfesting jókst mikið á árinu 2018 þrátt fyrir að leiðrétt hafi verið fyrir yfirtöku ríkisins á Hvalfjarðargöngunum. Samkvæmt fyrstu tölum lækkaði opinber fjárfesting svo eilítið á síðasta ári og var um 102 ma. kr.

Sé litið til sögunnar hefur opinber fjárfesting oft verið meiri en nú og því lag til þess að bæta við.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Ríkisfjármálin fá nú álíka mikilvægt hlutverk og 2008 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar