Hagsjá

Erfiðir tímar fram undan á vinnumarkaði - en kaupmáttur heldur enn við

Þrátt fyrir mun minni launabreytingar en á síðustu árum er kaupmáttur enn að aukast miðað við fyrra ár þó hann hafi minnkað eilítið í febrúar. Kaupmáttur launa var þannig 2,4% meiri nú í febrúar en í febrúar í fyrra. Það er reyndar athyglisverð staða að kaupmáttur sé enn að aukast þegar hallað hefur undan fæti í efnahagslífinu. Um næstu mánaðamót verður áfangahækkun í mörgum kjarasamningum þannig að þess má vænta að kaupmáttur aukist aftur, en þegar líður á árið má búast við því að mjög erfitt ástand á vinnumarkaðnum fari að sjást á kaupmáttartölum.

25. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan einungis um 0,14% milli janúar og febrúar. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,8%, sem er álíka ársbreyting og var í síðasta mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en var u.þ.b. 6% í upphafi ársins 2019.

Þrátt fyrir mun minni launabreytingar en á síðustu árum er kaupmáttur enn að aukast miðað við fyrra ár þó hann hafi minnkað eilítið í febrúar. Kaupmáttur launa var þannig 2,4% meiri nú í febrúar en í febrúar í fyrra. Það er reyndar athyglisverð staða að kaupmáttur sé enn að aukast þegar hallað hefur undan fæti í efnahagslífinu. Um næstu mánaðamót verður áfangahækkun í mörgum kjarasamningum þannig að þess má vænta að kaupmáttur aukist aftur, en þegar líður á árið má búast við því að mjög erfitt ástand á vinnumarkaðnum fari að sjást á kaupmáttartölum.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 4. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 4,9% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,3% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,3% á sama tíma.

Líkt og verið hefur hafa laun tækna og sérmenntaðs fólks annars vegar og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hins vegar hækkað mest milli ára, um 6,5% og 5,5%. Laun sérfræðinga hafa hins vegar hækkað minnst, um 3,4% og næst minnst hafa laun stjórnenda hækkað, um 3,9%. Þetta er sama mynstur og verið hefur undanfarið.

Sé litið til atvinnugreina hafa laun í verslun og viðgerðum hækkað mest milli ára, um 5%, og þar á eftir í framleiðslu, um 5,1%. Laun í veitustarfsemi og fjármálaþjónustu hækkuðu minnst á milli 4. ársfjórðunga 2018 og 2019.

Frá 4. ársfjórðungi 2018 til sama tíma 2019 hækkuðu heildarlaun í landinu um 3,9% á sama tíma og launavísitala hækkaði um 4,3%. Tölurnar benda til þess að vinnutími hafi styst og/eða að ýmsar aukagreiðslur hafi minnkað. Launavísitalan mælir laun á vinnustund í dagvinnu en vísitala heildarlauna öll laun fyrir alla vinnu.

Þróun heildarlauna hefur verið mismunandi fyrir hina ýmsu hópa á vinnumarkaði. Þannig hafa heildarlaunin hækkað mest hjá rafmagns-, gas- og hitaveitum, eða um 7,6%. Vel kann að vera að óveðrin í lok síðasta árs hafi áhrif í því sambandi. Næst mest hafa heildarlaun hækkað í fasteignaviðskiptum. Það er athyglisvert að heildarlaun allra á almenna vinnumarkaðnum hafa hækkað algerlega í takt við launavísitöluna.

Minnst hafa heildarlaunin hækkað í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, um 0,3%, og í sérfræði-, vísinda- og tæknilegri starfsemi, um 1,7%. Þá hafa heildarlaun á opinbera markaðnum hækkað minna en á þeim almenna á þessu tímabili.

Sé litið yfir lengra tímabil kemur í ljós að heildarlaun hafa hlutfallslega gefið eftir á almenna markaðnum miðað við hinn opinbera.

Þannig hækkuðu heildarlaun á almenna markaðnum um 38% frá 4. ársfjórðungi 2014 fram til sama tíma 2019 á meðan launavísitalan fyrir sama hóp hækkaði um 42%. Á opinbera markaðnum hækkuðu heildarlaunin um 41% og launavísitalan um 40%. Það virðist því sem hlutfallslega hafi dregið meira úr aukagreiðslum ofan á venjuleg dagvinnulaun á almenna markaðnum.

Eins og áður segir er von á áfangahækkunum vegna kjarasamninga um næstu mánaðamót og mun það hafa áhrif á bæði launavísitölu og kaupmátt til hækkunar. Að öðru leyti eru mjög erfiðir tímar framundan á næstu mánuðum. Ljóst er að mikið verður um uppsagnir í lok þessa mánaðar og mun sú þróun vafalaust halda eitthvað áfram. Þá er einnig töluvert um að fólk taki á sig launalækkanir eða skert starfshlutfall í þeirri von að erfiðleikatímabilið verði ekki langvinnt.

Það má því reikna með að löngu tímabili vaxandi kaupmáttar hér á landi fari að ljúka. Árið í fyrra var níunda árið í röð sem kaupmáttur launa jókst frá fyrra ári. Kaupmáttur dróst saman árin 2008-2010 en hafði aukist á hverju ári í 13 ár þar á undan.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Erfiðir tímar fram undan á vinnumarkaði – en kaupmáttur heldur enn við (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar