Hagsjá

Hægir á íbúðauppbyggingu og óseldum íbúðum fjölgar

11% færri íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við stöðuna fyrir ári síðan. Fullbúnum, óseldum íbúðum fjölgar sem bendir til þess að þörf fyrir nýjar íbúðir fari minnkandi.

30. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Fyrir helgi birtu Samtök iðnaðarins talningu á fjölda íbúða sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. Alls eru nú tæplega 4.500 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og fækkar þeim um 11% milli ára. Til samanburðar mældist aukning upp á 22% í marstalningu samtakanna fyrir ári síðan. Af þeim íbúðum sem nú eru í byggingu, eru tæplega 1.500 á fyrstu byggingarstigum en slík verkefni voru til samanburðar rúmlega 2.000 fyrir ári síðan.
Veruleg fækkun virðist því vera á verkefnum sem eru stutt á veg komin, sem gefur til kynna að nýjum íbúðum muni fari fækkandi á næstu árum. Íbúðir á algjöru byrjunarstigi, þar sem einungis undirstöður hafa verið reistar, eru nú 65% færri en fyrir tveimur árum síðan.

Íbúðum sem eru langt á veg komnar, eða umfram fjórða byggingarstig, fjölgar hins vegar milli ára. Við sjáum því að á sama tíma og íbúðum í byggingu fer almennt fækkandi, tekur samsetning þeirra breytingum þar sem hlutfallslega fleiri íbúðir eru að verða tilbúnar. Það er því útlit fyrir að nýjar íbúðir sem koma inn á markað á þessu ári verði enn nokkuð margar, en fari svo fækkandi þar sem ný verkefni eru færri.

Líkt og bent hefur verið á í fyrri Hagsjám Hagfræðideildar virðist sala nýbygginga ekki breytast milli ára þrátt fyrir aukið framboð. Nýjar íbúðir voru einungis 17% af seldum íbúðum í fjölbýli í fyrra á höfuðborgarsvæðinu og var hlutfallið, og reyndar fjöldinn einnig, nær óbreyttur milli ára.

Samkvæmt athugun Samtaka iðnaðarins eru 722 fullbúnar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem ekki enn hefur verið flutt inn í, og er aukningin talsverð frá fyrra ári, þegar tæplega 600 slíkar íbúðir voru til staðar. Frá árinu 2017 hefur orðið stöðug aukning á þeim fjölda íbúða sem eru tilbúnar en enginn býr í þegar vortalning samtakanna fer fram. Þetta er ákveðið áhyggjuefni og bendir, líkt og tölur um hlutfall nýbygginga á meðal seldra íbúða, til þess að kaupendahópur að þeim íbúðum sem voru byggðar hafi verið ofmetinn.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Hægir á íbúðauppbyggingu og óseldum íbúðum fjölgar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar