Hagsjá

Atvinnuleysi á fleygiferð upp á við og vinnumarkaðurinn á áður óþekktum slóðum

Í lok síðustu viku spáði Vinnumálastofnun því að atvinnuleysi í apríl og maí verði það mesta sem mælst hefur á Íslandi. Vinnumálastofnun spáir 10,8% atvinnuleysi í apríl og um 10% í maí og að það fari svo lækkandi eftir það. Þá spáir Vinnumálastofnun að meðalatvinnuleysi yfir árið verði um 7,4% og á næsta ári geti það orðið 6,4%.

31. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að um 203 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í febrúar 2020, sem jafngildir 78,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 192.900 starfandi og 10.200 atvinnulausir. Starfandi fólki fækkaði um 1.800 milli febrúarmánaða 2019 og 2020, og atvinnulausum hafði fjölgað um 3.700 milli ára.

Eins og áður segir voru 10.200 manns atvinnulausir í febrúar samkvæmt vinnumarkaðskönnun, eða um 5% af vinnuafli, sem er 1,8 prósentustigum hærra en í febrúar árið áður.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru tæplega 9.800 skráðir atvinnulausir í lok febrúar, sem einnig samsvarar 5% atvinnuleysi.

Tölur Hagstofunnar eru byggðar á úrtakskönnun þar sem sveiflur eru oft töluverðar milli mánaða. Tölur Vinnumálastofnunar sýna hins vegar skráð atvinnuleysi, þ.e. fjölda þeirra sem fá greiddar út atvinnuleysisbætur.

Tölur Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi hafa sýnt svipaða niðurstöðu síðastliðið ár sé litið til 12 mánaða hlaupandi meðaltals.

Niðurstöður bæði Hagstofu og Vinnumálastofnunar eiga eftir að taka stór stökk upp á við þegar tölur berast fyrir mars og næstu mánuði. Samkvæmt tölum á hádegi 30. mars frá Vinnumálastofnun höfðu u.þ.b. 25.000 manns þá sótt um atvinnuleysisbætur í mars. Þar af höfðu um 20.000 sótt um hlutabætur vegna skerts starfshlutfalls, þar af meira en helmingur vegna 75% skerðingar.

Í lok síðustu viku spáði Vinnumálastofnun því að atvinnuleysi í apríl og maí verði það mesta sem mælst hefur á Íslandi. Vinnumálastofnun spáir 10,8% atvinnuleysi í apríl og um 10% í maí og að það fari svo lækkandi eftir það. Þá spáir Vinnumálastofnun að meðalatvinnuleysi yfir árið verði um 7,4% og á næsta ári geti það orðið 6,4%.
Atvinnuþátttakan hefur minnkað nokkuð stöðugt á síðustu misserum og var komin undir 80% í lok síðasta árs. Nú í febrúar var atvinnuþátttaka 78,2% samanborið við 79% í febrúar 2019. Meðalatvinnuþátttaka síðustu 12 mánuði var 80,9% samanborið við 81,7% í febrúar á síðasta ári. Atvinnuþátttakan fer því enn minnkandi og eins og áður hefur komið fram í Hagsjám er ekki ólíklegt að þessi þróun hafi að einhverju leyti sýnt falið atvinnuleysi þar sem jaðarhópar hafi kosið að hverfa af vinnumarkaði í erfiðu árferði.

Fjöldi starfandi fólks dróst saman um 0,9% milli febrúar 2019 og 2020. Meðalvinnutími lengdist um 0,3% á sama tímabili og heildarvinnuaflsstundum fækkaði því um 0,7% milli ára. Vinnuaflsnotkun hafði aukist nokkuð samfellt allt frá árinu 2012, mestmegnis vegna þess að starfandi fólki hefur fjölgað mikið. Sköpun starfa virtist því haldast nokkuð vel í hendur við fjölgun á vinnumarkaði á þeim tíma. Vinnuaflsnotkun hefur nú dregist saman tvo mánuði í röð og miðað við aðstæður í efnahagslífinu er þess að vænta að þróunin verði hröð niður á við á a.m.k. allra næstu mánuðum.

Aðstæður á vinnumarkaði hafa gjörbreyst á örskömmum tíma líkt og aðrar aðstæður í hagkerfinu. Upp á síðkastið hefur umfjöllun um vinnumarkað í Hagsjám verið á þann hátt að styrkur markaðarins væri þokkalega góður miðað við allar aðstæður. Nú hefur staðan gjörbreyst.

Atvinnuleysi mun aukast verulega á næstu mánuðum. Nú er reiknað með að nýjar reglur um hlutaatvinnuleysisbætur gildi út maí, en líklegt verður að teljast að framlengja þurfi möguleika til töku þeirra. Eins og gildir um stóra hluta hagkerfisins er vinnumarkaðurinn nú á áður óþekktum slóðum og því erfitt að spá um hvenær tekur að birta til aftur.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi á fleygiferð upp á við og vinnumarkaðurinn á áður óþekktum slóðum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar