Hagsjá

Atvinnuleysi heldur áfram að aukast – mesta mánaðarlega atvinnuleysi til þessa

Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans spáum við því að meðal atvinnuleysi á árinu 2020 verði 9,1%. Við göngum út frá hefðbundnu atvinnuleysi í spá okkar og reiknum með að sífellt fleiri þeirra sem nú fá greiðslur í gegnum aðgerðir stjórnvalda komi inn á atvinnuleysisskrá eftir því sem líður á sumarið. Ætla má að flestir þeirra sem hafa lent í hópuppsögnum komi inn í atvinnuleysisbótakerfið í ágúst hafi þeir ekki horfið til fyrri eða annarra starfa í millitíðinni. Við reiknum þannig með því að atvinnuleysið fari hæst í 13% í ágúst og september en lækki svo aftur síðustu mánuði ársins.

18. maí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt nýjum tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í lok apríl 17,8% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði. Í lok apríl voru um 49.200 manns á atvinnuleysisskrá, þar af 16.400 atvinnulausir og 32.800 í minnkuðu starfshlutfalli.

Hér er um að ræða enn meira stökk í atvinnuleysi milli mánaða en var í mars, en atvinnuleysi í mars var 9,2% og hafði þá aukist frá 5% í febrúar. Aukningin er í apríl var þannig 8,6 prósentustig. Almennt atvinnuleysi var 7,5% í apríl og atvinnuleysi vegna skerts starfshlutfalls 10,3%, samtals 17,8%.

Þessi tvískipting atvinnuleysis í hefðbundið atvinnuleysi annars vegar og atvinnuleysi vegna skerts starfshlutfalls hins vegar gerir allan samanburð í tíma erfiðan. Málið varð svo enn flóknara eftir að stjórnvöld gáfu út yfirlýsingu um að ríkið greiði verulegan hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti. Alltaf var vitað að hlutabótaleiðin væri einungis tímabundin framkvæmd og eins og staðan er nú rennur gildistími hennar út í lok ágúst.

Þegar tímabundnar aðgerðir stjórnvalda taka enda er líklegt að einhver hluti þeirra sem nú eru á atvinnuleysisbótum í skertu starfshlutfalli og á uppsagnarfresti komi inn í hefðbundna atvinnuleysistryggingarkerfið.

Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans spáðum við því að meðal atvinnuleysi á árinu 2020 verði 9,1%. Við göngum út frá hefðbundnu atvinnuleysi í spá okkar og reiknum með að sífellt fleiri þeirra sem nú fá greiðslur í gegnum aðgerðir stjórnvalda komi inn á atvinnuleysisskrá eftir því sem líður á sumarið. Fólki í hlutabótaleiðinni fækkar sífellt og lítið er nú um nýskráningar í úrræðið. Ætla má að flestir þeirra sem hafa lent í hópuppsögnum komi inn í atvinnuleysisbótakerfið í ágúst hafi þeir ekki horfið til fyrri eða annarra starfa í millitíðinni. Við reiknum þannig með því að atvinnuleysið fari hæst í 13% í ágúst og september en lækki svo aftur síðustu mánuði ársins.
Óvissan varðandi atvinnumál næstu ára er mikil og við reiknum með að atvinnuleysi verði meira á næstu tveimur árum en það hefur verið frá árunum 2011-2012. Við reiknum þannig með að atvinnuleysi verði um 7% að meðaltali á árinu 2021 og 6% 2022.

Stjórnvöld hinna ýmsu ríkja hafa aldrei fyrr skapað eins traust öryggisnet fyrir fólk og fyrirtæki og á síðustu vikum. Þessar aðgerðir hafa í raun verið ómissandi í ljósi þess hversu mikið tekjur allra hafa lækkað. Alltaf hefur legið fyrir að þessar aðgerðir væru tímabundnar og í upphafi veirufaraldursins ríkti bjartsýni um að kreppan yrði stutt. Kreppan hefur heldur lengst frekar en hitt og samtímis er ljóst að stjórnvöld þurfa að huga að útgönguleið hvað þennan mikla stuðning varðar.

Hér á landi hafa fyrstu skrefin verið tekin þar sem ljóst er að hlutastarfaleiðin mun renna sitt skeið á enda í lok ágúst. Hér, eins og annars staðar, var litið á þessar aðgerðir sem leið til þess að halda hagkerfinu á floti um stund þannig að það gæti verið tilbúið í snatri þegar allt færi af stað aftur. Nú eru hins vegar töluverðar líkur á því að hagkerfin og hegðun fólks muni taka varanlegum breytingum hvað marga þætti varðar. Fólk sem vinnur í mikilli nálægð við aðra gæti t.d. farið fram á hærri laun eða dýrar öryggisaðgerðir við að vinna þau störf. Greinar sem hafa byggt mikið á erlendu vinnuafli gætu í auknum mæli þurft að reiða sig á innlent vinnuafl vegna harðara landamæraeftirlits og meiri aðgæslu með útlendingum svo dæmi séu nefnd.

Vinnumarkaðurinn á því mögulega eftir að breytast mikið á næstu árum og á hugsanlega eftir að fara í gegnum erfiða aðlögun. Sú aðlögun getur ekki hafist á meðan ríkissjóður greiðir starfsfólki fyrir að bíða eftir þeim störfum sem það vann áður – sum þessara starfa verða mögulega ekki til áfram. Stjórnvöld munu eftir sem áður gegna stóru hlutverki við að hjálpa fólki að finna ný störf og smyrja hjól atvinnulífsins eftir bestu getu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi heldur áfram að aukast – mesta mánaðarlega atvinnuleysi til þessa (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07d-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar