Hagsjá

Vinnumarkaðskönnun - áframhaldandi merki um veikari vinnumarkað

Starfandi fólki hefur fækkað töluvert á undanförnum mánuðum. Þá hefur vinnutími líka styst, sem þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur farið minnkandi. Sé vinnuaflsnotkun nú borin saman við stöðuna fyrir ári kemur í ljós að breytingin síðustu 3 mánuði er veruleg miðað við síðustu ár og allt fram á þetta ár þegar vinnuaflsnotkun var almennt að aukast. Í maí minnkaði vinnuaflsnotkun um 8,8% miðað við maí 2019, bæði vegna fækkunar starfandi fólks og styttri vinnutíma. Í apríl dróst vinnuaflsnotkunin hins vegar saman um rúm 13%, aðallega vegna fækkunar starfandi fólks, en vinnutími styttist einnig á milli ára.

29. júní 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar er áætlað að um 209.500 manns hafi verið á vinnumarkaði í maí, sem jafngildir 80,9% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 188.800 þús. starfandi og um 20.800 atvinnulausir. Starfandi fólki fækkaði um 9.000 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 8.000. Hlutfall starfandi var 72,9% í maí og hafði lækkað um 4,1 prósentustig frá maí 2019.

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hafði fjöldi starfandi ekki breyst mikið allt síðastliðið ár eftir nær stöðuga fjölgun í nokkur ár. Fækkun starfandi í apríl og maí hefur hins vegar töluverð áhrif á meðaltal síðustu 12 mánaða.
Í apríl hafði atvinnuþátttaka ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, en hún var 75,8% nú í apríl. Atvinnuþátttaka jókst um rúmlega 5 prósentustig í maí og fór upp í 80,9%, en var engu að síður rúmu prósentustigi lægri en í maí 2019. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,9% og hefur farið stöðugt lækkandi frá 2017.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 20.800 atvinnulausir í maí, sem samsvarar 9,9% atvinnuleysi. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 16.100 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok maí (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 7,4% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 13% í maí. Eins og oft áður eru sveiflurnar í mældu atvinnuleysi í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar miklar á milli mánaða.

Aukin eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu þegar sumarleyfi hefjast veldur yfirleitt auknu atvinnuleysi á vormánuðum. Af heildarfjölda atvinnulausra í maí voru 40,4% á aldrinum 16-24 ára og var atvinnuleysi á meðal þeirra 23,3%. Samsvarandi tölur fyrir maí 2019 voru 38,3% hlutfall og 14,3% atvinnuleysi.

Fjöldi venjulegra vinnustunda var 38,3 stundir í maí sem var sama niðurstaða og í apríl. Vinnutíminn í maí var hins vegar 1,7 stundum styttri en fyrir ári síðan. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal sést að fjöldi vinnustunda hefur dalað síðustu mánuði.

Eins og áður segir hefur starfandi fólki fækkað töluvert á undanförnum mánuðum. Þá hefur vinnutími líka styst, sem þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur farið minnkandi.

Sé vinnuaflsnotkun nú borin saman við stöðuna fyrir ári kemur í ljós að breytingin síðustu 3 mánuði er veruleg miðað við síðustu ár og allt fram á þetta ár þegar vinnuaflsnotkun var almennt að aukast. Í maí minnkaði vinnuaflsnotkun um 8,8% miðað við maí 2019, bæði vegna fækkunar starfandi fólks og styttri vinnutíma. Í apríl dróst vinnuaflsnotkunin hins vegar saman um rúm 13%, aðallega vegna fækkunar starfandi fólks, en vinnutími styttist einnig á milli ára.

Þetta eru tölur sem ekki hafa sést síðan á árunum 2008-2009. Hér er reyndar um samanburð milli einstakra mánaða að ræða, en samanburður á milli ársfjórðunga dregur úr sveiflum milli einstakra mánaða. Á milli 1. ársfjórðunga 2019 og 2020 minnkaði vinnuaflsnotkunin um 1,5%, en stóru breytingarnar á vinnumarkaði urðu ekki fyrr en á öðrum ársfjórðungi.

Höggið sem vinnumarkaðurinn fékk á sig vegna veirufaraldursins var mjög þungt í vetur, en því til viðbótar var farið að bera á veikingu vinnumarkaðar áður en faraldurinn skall á. Ríkissjóður hefur tekið á sig mikil útgjöld og skuldbindingar til þess að draga úr afleiðingum áfallsins og sér ekki enn fyrir endann á þeim aðgerðum. Framtíðin er áfram óviss og miklu skiptir hvernig tekst að vinna úr núverandi stöðu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Vinnumarkaðskönnun - áframhaldandi merki um veikari vinnumarkað (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar